Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Alma hálfblind og meira en það á öðru auganu.... !!

Ég er búin að vera hálfdofin síðan á mánudaginn. Alma kvartaði fyrir svona tveimur vikum yfir því að hún sæi ekki  nógu vel svo ég bað skólahjúkrunarkonuna að kíkja á hana áður en ég færi að panta tíma hjá augnlækni. Hún sagði að Alma sæi mun verr á hægra auga svo ég þyrfti að fara með hana til augnlæknis. Ég hringdi á mánudaginn á heilsugæsluna og fékk óvænt tíma sama dag. Það kom í ljós að hún er bara með 10% sjón hægra megin. Hún er með svokallað latt auga og það er bara að fattast núna. Vandamálið er að sjóntaugin hættir að þroskast á milli 6 og 7 ára aldurs svo það er ólíklegt að henni gagnist að fá lepp og sjónin er það slæm að gleraugu gera lítið sem ekkert gagn. Það gæti því farið svo að hún verði bara að vera svona alla ævi!!!!! Crying Það gæti auðvitað margt verra gerst en maður vill auðvitað börnunum sínum allt hið besta svo ég er búin að vera döpur hennar vegna. Við ákváðum samt að fá álit annars læknis m.a. í þeirri von að hún geti kannski fengið lepp og sjónin lagast eitthvað. Frétti í dag um einn sem var með lepp í 1. bekk og sjónin skánaði um einhver prósent og það munar um allt. Hún hefur líklega fæðst með verri sjón öðru megin en það síðan farið versnandi fyrir um ári síðan. Hún segir sjálf að þá hafi þetta byrjað en þegar við fórum að hugsa til baka þá hefur hún alltaf verið mjög varkár í hreyfingum, t.d. klifri. Við höfum aldrei haft áhyggjur af henni því hún hefur alltaf farið svo varlega en við sjáum það í öðru ljósi núna. Svo hefur hún oft orðið mjög pirruð ef henni tekst ekki að gera eitthvað strax þegar hún er að gera eitthvað  í höndunum. Við álitum það bara part af persónuleika hennar en sennilega hefur vanmáttur og vandamál með sjónina spilað inní. Í fyrra tókum við líka eftir að allt í einu hætti hún að þora að vera á hestbaki nema einhver héldi í hana. Áður vildi hún helst vera ein. Okkur fannst þetta dálítið skrýtið en tengdum það ekki við sjónina. Líklegt má telja að hún hafi orðið hrædd þegar þrívíddarsjónin versnaði. Þetta voru allt merki en gátu líka verið eitthvað annað. Í 5 og hálfs árs skoðuninni fékk hún kast í sjónprófinu. Það var búið að prófa annað augað og átti að prófa hitt (sennilega þá þetta verra) þegar hún bara tók brjálað "frekjukast" og vildi ekki halda áfram. Hvorki ég né  starfsfólkið tengdum þetta við sjónina en augnlæknirinn sagði að þarna hefði átt að panta strax tíma hjá honum og ef það hefði verið gert hefði leppur pottþétt hjálpað.... ég verð að viðurkenna að ég er dálítið fúl og kenni heilbrigðisstarfsfólkinu aðeins um að svona fór. Ekki er ég sérfræðingurinn og vissi þetta ekki en augnlæknirinn sagði að þau ættu að vita að vangeta brýst stundum svona út. Þeir sem þekkja dóttur mína vita að hún á það til að taka svona köst svo ég hélt bara að þetta væri einhver óþekkt eða að hún væri eitthvað illa upplögð. Maður blótar sjálfum sér eftir á en það nær ekki lengra. Ég er að fara með hana til annars læknis á morgun á Akureyri og við sjáum þá hvort eitthvað er hægt að gera.

Að öðru ánægjulegra þá byrjaði hún í dag í söngskóla Alexöndru. Hún var mjög feimin fyrst og ætlaði aldrei að fást til að koma upp hljóði en það tókst fyrir rest. Á föstudaginn fer hún svo á kóræfingu. Alma er líka í fótbolta og öðruvísi óþróttum svo það er nóg að gera hjá henni. Hún fær bara frí á þriðjudögum og sunnudögum. Hún vildi helst fara í fleira en ég stoppaði hana af. Mér finnst alger óþarfi að litlir krakkar séu með stífa stundaskrá eftir skóla. Það er að vísu gott hér á Króknum að íþróttastarfið fer fram frá 13 - 16 á daginn meðan þau eru í gæslu og þeim er fylgt af starfsfólki á milli staða.

Læt þetta duga í bili. Vonast til að færðin á Akureyri á morgun verði í lagi.


Brjálað teknódiskó með Palla.....

Ég var að fá nýjasta diskinn með Páli Óskari og er búin að vera að hlusta á hann í dag ásamt því að vinna í Norðurlandabókinni. Sendi Ölmu á trunturúnt með pabba sínum og þau eru núna í sveitinni hjá afa og ömmu að gæða sér á einhverju góðgæti svo ég geti fengið frið við ritstörfin. Guðrún og Elína voru í gær á Laufskálaréttarballinu. Það virðist hafa verið mjög gaman hjá þeim sem er auðvitað bara hið besta mál. Við Siggi vorum bara í rólegheitum heima að horfa á King Kong.... ja eða eiginlega horfði ég að mestu ein á hana. Siggi var bara búinn að sofa í 3 tíma á föstudagsnóttina svo hann gafst snemma upp og fór í háttinn. Ég klikkaði eiginlega á því að læðast út því mér var boðið í partý... he he he asnagangur að fatta það ekki..... he he he held reyndar að ég hefði ekki nennt því. Djammaði helgina á undan með Dóru og var ekki á þörfinni núna. Við Siggi erum að skoða hvort við ættum að splæsa á okkur hóteli í byrjun nóvember þegar hann á afmæli og gera eitthvað skemmtilegt saman. Það er ekki eins og maður sé barnlaus á hverjum degi í einhverjum rómantískum  hugleiðingum. Það er samt nauðsynlegt annað slagið.

 

 

 

 


Laufskálarétt og gleraugu

Við kíktum áðan í Laufskálarétt og þegar við komum fannst mér ansi fámennt á staðnum, nokkrir bílar en fátt fólk. Veðrið var svolítið hryssingslegt en ekkert svo kalt. Fljótlega eftir að við komum mátti sjá hrossin fara að flæða yfir brekkubrúnina og um leið fylltist allt af fólki. Það hafði sem sé húkt inni í bílunum þar til eitthvað fór að gerast. Stelpurnar höfðu mjög gaman af þessu og við náðum svo í nestið okkar og drukkum heitt kakó og borðuðum smurt brauð í brekku með yfirsýn yfir hrossin. Það var fallegt að horfa yfir dalinn á fjöllin sem höfðu gránað töluvert í nótt. Við röltum eftir matinn í kringum réttina og heilsuðum þeim sem við þekktum. Það voru svo sem ekki neitt rosalega margir enda fórum við bara einn hring áður en Alma var orðin svo þreytt að hún vildi fara heim. Ég sá tilsýndar marga sem ég hefði gjarnan viljað spjalla við en geri það þá bara seinna. Þegar við vorum að verða komnar hringinn gólaði Alma..... þarna er afa og ömmubíll.... svo var togað og togað þar til ég elti hana. Hún hljóp beint að bílnum og viti menn.... þar sátu afi og amma svo stelpuskottan fékk smá knús frá þeim. Við kíktum aðeins í markaðstjaldið og sáum þar margt fallegt en vorum ekki með pening með okkur. Á leiðinni heim renndi ég heim að Hólum og sýndi Elínu staðinn og sagði henni frá því sem ég mundi. Þegar við keyrðum framhjá réttinni á bakaleiðinni sáum við að ennþá var að bætast fólk í réttina og við töldum 5 stórar rútur og nokkra kálfa. Þetta var skemmtilegt og ég hvet þá sem hafa aldrei mætt að kíkja einhverntímann.

Alma var að kvarta um daginn yfir því að henni fyndist hún ekki sjá nógu vel svo ég bað skólahjúkrunarkonuna að athuga sjónina í henni fyrir mig. Hún sagði mér síðan að Alma sæi töluvert verr með hægra auganu og að hún þyrfti pottþétt gleraugu. Það verður verkefni vikunnar að fara með hana til augnlæknis og fá gleraugu. Hún hlakkar sjálf til að fá gleraugu og geta séð almennilega og er það hið besta mál. Mér finnst samt sjálfri að það sé dálítið leiðinlegt hennar vegna að hún þurfi gleraugu svona ung en lífið spyr ekki að því og kannski ákveður hún þegar hún verður stærri að fara í aðgerð og láta laga sjónina. Ég þekki nokkra sem hafa farið og allir verið ánægðir. Ég þekki það af eigin reynslu að það er svo sem ekki stórmál að hafa gleraugu en þó alltaf meira mál en að þurfa þau ekki. Aðalmálið er að hún sjái betur og sé ánægð.


Laufskálarétt um helgina

Það verður fullt af fólki fyrir norðan um helgina því Laufskálarétt er á laugardaginn. Þá eru rekin um 3000 hross að réttinni og svo réttað fram eftir degi.... ja og sopið úr pela, sungið, spjallað og fleira í þeim dúr. Ég ætla að skreppa í smá stund og sjá hrossin rekin og vera svo einhverja stund í viðbót. Maður þarf að sýna Ölmu og Elínu skiptinema þetta og hver veit nema maður hitti einhverja sem maður þekkir. Venjulega höfum við hitt slatta en Siggi ætlar ekki núna. Þarf að flytja hestana okkar úr Lýtó og út á Malland til tengdó og skella fellihýsinu í geymslu. Það verður því stelpnafjör í réttinni þetta árið.

Í morgunu var kynning fyrir forldra og var ekki að heyra annað en fólk væri ánægt með að hafa kynninguna svona að morgni til. Það var allavegana góð mæting og gaman að spjalla við þá.

Mig langar að mæla með uppboðsvefnum Selt.is

Ég setti þar auglýsingu um hlaupabretti og seldi það á nokkrum dögum. Það er komið í hendurnar á kaupanda og allt gekk mjög hratt og greiðlega fyrir sig. Kíkið á vefinn, takið til í bílskúrnum og komið draslinu í verð. Það er margt vitlausara. Svo er það ágæt hreyfing að taka til :) he he he he


Ég er frekar óspennandi tröll..... :)

Fræðatröll


Þú ert vanafastur, tilfinningaríkur innipúki.
Fræðatröllið er forvitið að eðlisfari og er köllun þess í lífinu að komast að sannleikanum. Fræðatröll má gjarnan finna í dimmum skúmaskotum bókasafna þar sem þau rykfalla og sussa á aðra gesti safnsins. Fræðatröllið klæðist gjarnan flaueli - nema þegar það er í tísku. Hringitónninn í síma þess er stefið úr þættinum Nýjasta tækni og vísindi, sem það grætur stöðugt að sé ekki lengur á dagskrá.

http://www.stilbrot.com/trollafell/konnun/">Hvaða

 


Hnífsdalsferðin mikla....

Mér líður eins og eftir Verslunarmannahelgarnar þegar ég var gelgja!!!!!! Mikil keyrsla, lítið sofið, ölið sopið, dansinn dunar og líkaminn þreyttur eftir allt saman...... Ég er líklega að verða of gömul fyrir svona vitleysu en mikið helv... var gaman W00t

Ég var á kennaraþingi á Hvammstanga á föstudeginum og fór á barinn á meðan ég beið eftir Sigga og stelpunum. Þar hitti ég nágranna minn úr bænum sem er flutt norður og farin að kenna á Skagaströnd. Við gátum spjallað heilmikið og var virkilega gaman að hitta hana eftir allan þennan tíma. Siggi kom svo um kvöldmatinn og við fórum og borðuðum í Staðarskála. Þaðan var haldið um átta leytið og komið á Hnífsdal um miðnætti. Það þýðir það að Siggi keyrði eins og brjálaður "mother fokker"!!!!! VÆGAST SAGT!!!! Það var brjálað rok (stormviðvörun á svæðinu enda sást varla bíll nema okkar...) grenjandi rigning, myrkur og slatti af malarvegum. Hann keyrði á 100 á malbikinu en fór niður í 90 á mölinni. Þetta hefði kannski verið í lagi í birtu en í þessum akstursskilyrðum var þetta náttúrlega bara fáránlegt. Ég sat stjörf og samankreppt í framsætinu og langaði mest til að drekka mig fulla svo ég yrði nógu kærulaus yfir þessu en það var eiginlega ekki gáfulegt þar sem það er ekkert klósett frá Hólmavík á Ísafjörð. Þegar maður er búinn að fá sér bjór þarf maður að pissa oftar og ég sá fram á að þurfa að stinga berum botninum út í næsta kjarr og vökva hann þar í rigningunni ef ég fengi mér einn kaldan. Það var því ekki annað að gera en blaðra nógu mikið til að reyna að hugsa um eitthvað annað. Nú nú þegar á staðinn kom henti ég Ölmu í háttinn enda komið miðnætti og svo opnuðum við Dóra rauðvínsflösku og kjöftuðum fram eftir nóttu. Á laugardeginum var kjaftað, slappað af, farið í seightseeing á Bolungavík og Ísafjörð, eldaður góður matur og um kvöldið fórum við á Edinborg sem er skemmtistaður á Ísafirði. Þegar við komum þangað var mikið af fólki á milli 50 - 60 svo okkur leyst ekki alveg á blikuna en það voru að klárast einhverjir leiðinlegir tónleikar og "gamla" fólkið dreif sig heim í háttinn en það unga fór að mæta á svæðið. Við Dóra dönsuðum eins og við mögulega gátum og fengum t.d. algert flipp þegar gaurinn spilaði eitt af uppáhalds danslögunum okkar. Það er lagið Allt fyrir ástina með Páli Óskari. Við flippuðum alveg!!!! Siggi hitti nokkra gamla vinnufélaga og sat og spjallaði auk þess að passa töskurnar okkar Dóru. Á sunnudeginum ákváðum við að leggja af stað um hádegi til að hafa nógan tíma á bakaleiðinni. Við stoppuðum á nokkrum stöðum til að njóta náttúrufegurðarinnar og þegar við komum til Hólmavíkur ákváðum við að skella okkur á Galdrasafnið. Það var alveg frábært. Alma hafði sérstaklega gaman af ósýnilega stráknum, nábrókunum og uppvakningnum sem kom upp úr gólfinu. Hún skemmti sér mjög vel en þegar við erum að ganga út og ég þakka manninum fyrir okkur segir hún: takk fyrir, þetta var ógeðslegt!!!!!! he he he he he Við hlógum bæði mikið, ég og safnvörðurinn....

Þegar við komum heim horfðum við á Dagvaktina, átum pizzu og reyndum svo að koma Ölmu niður. Það gekk illa því hún var alltaf að hugsa um drauga og gat ekki sofnað. Að lokum náði ég í dýnu og hún svaf á gólfinu inni hjá okkur!!!! he he he greyið litla.


Snjór í Tindastóli

Ég horfi út um gluggann í vinnunni á Tindastól og þar efst má greinilega sjá einhverju hvítu, blautu og köldu bregða fyrir þegar skýin fara frá. Mér finnst þetta nú full snemmt til að snjóa í fjöll en það er auðvitað kominn sá árstími að maður getur átt von á þessu. Það er svo sem ekki eins og það sé eitthvað óvenjulegt en það er bara búið að vera svo gott haust með hita frá 13 gráðum upp í 19 gráður. Maður fékk því nett kast í morgun þegar hitamælirinn sýndi ekki nema 5 gráður kl. 8 í morgun!!!!!! Úfff þetta er að bresta á. Haustið sýndi sig líka í Sjónhorninu sem er sjónvarpsdagskrárblaðið hérna í sveitinni. Þar eru einnig auglýstir allir helstu mannfagnaðir, námskeið og sala á hrossum ásamt fleiru skemmtilegu. Á forsíðunni í dag mátti sjá 3 skinnfletta hrútspunga ásamt fleiru sem notast við sláturgerð og undirbúning þorrablóta. Það segja mér fróðir að  nú sé tíminn til að setja pungana í súrt ef þeir eiga að verða tilbúnir í febrúar. Ég segi  nú bara VERÐI ÞEIM AÐ GÓÐU!!! he he he

Vetrarrok í gærkvöldi

Mér leið í gærkvöldi eins og það væri komin vetur og það væri stórhríð úti. Í morgun upplifði Alma það sama því þegar hún skreið uppí í morgun sagði hún: mamma, það er alveg eins og það sé vetur úti!!!!!

Alma er annars alveg að verða læs. Ég bað kennarann hennar í dag að senda hana fljótlega heim með léttlestrarbók til að örva hana enn frekar. Hún getur lesið fullt af orðum og er komin með flesta stafina á hreint. Hún er svo montin að það hálfa væri nóg. Ég er eiginlega ennþá montnari af litlu stelpunni minni.

Mér finnst hálf leiðinleg veðurspáin fyrir næstu daga og ég vona bara að maður þurfi ekki að fresta vesturferðinni vegna roks og rigningar. Þetta hlýtur að bjargast!!! Cool


Komin aftur í körfuboltann og ætla vestur um helgina!!

Ég mætti á fyrstu körfuboltaæfingu vetrarins í gær og það gekk bara vel. Til að koma í veg fyrir allan misskilning þá er ég ekki að fara að æfa með meistaraflokki eða að taka þátt í Evrópumeistaramótinu en ég veit að þið bjuggust öll við því miðað við þann stórkostlega árangur sem ég hef náð síðustu árin á þessu sviði..... lol.... hrossahlátur......!!

Nei það væri synd að segja að ég brillaði sérstaklega í körfunni en það eru örugglega einhverjir til sem eru verri en ég.... (þeir eru að vísu ekki með mér á æfingum!!!!). Ég hef samt gaman af þessu og geri þetta fyrst og fremst til að fá tilbreytingu í hreyfingu og hitta skemmtilegar konur. Alma fékk að fylgjast með æfingunni og það gaf mér tækifæri til að útskýra fyrir henni mikilvægi hreyfingar og að maður þyrfti ekki að vera bestur til að hafa gaman af íþróttinni (hver sem hún væri). Hún er líka ansi óþolinmóð og vill alltaf vera best í öllu um leið svo ég notaði tækifærið og benti henni á að þó ég væri lélegust Blush þá væri það bara allt í lagi og ég gæti ekki orðið betri nema mæta og æfa mig. Hún ætlar að fara á fótboltaæfingar í vetur og það var gott veganesti fyrir hana að fá þennan fyrirlestur. Málið er að hafa gaman af þessu.

1. október byrjar Alma í söngskóla Alexöndru Chernycovu (held ég hafi skrifað þetta rétt en er ekki alveg viss ). Hún verður í hálftíma á viku í tónfræði, hálftíma í "einkakennslu" með einni annarri og það vill svo til að þær hafa þekkst í nokkur ár og eru góðar vinkonur svo það verður bara gaman. Auk þess verður hún í klukkutíma á viku á kóræfingum með stelpum 6 - 9 ára. Hún er mjög spennt enda hefur barnið sungið dag og nótt næstum frá fæðingu.

Ég er svo að fara á kennaraþing á Hvammstanga á föstudaginn. Siggi mætir svo þangað með Ölmu, Elínu og Guðrúnu. Við skellum okkur svo á Hnífsdal að heimsækja Dóru vinkonu og dúllurnar hennar. Það verður þröngt á þingi með 10 manns í lítilli íbúð en þröngt mega sáttir sitja!!!! Við munum auðvitað sötra smá rauðvín og skella okkur aðeins út á lífið ásamt því að skoða okkur aðeins um og sýna Elínu svæðið. Alma og Arna hlakka rosalega til að hittas og leika saman. Þetta verður náttúrlega bara STUÐ!!!!!


Stríðni í skólanum, part 2

Ég hef fengið nokkur viðbrögð við færslunni um stríðnina sem Alma varð fyrir með bleiku fötin sín og ég mátti til með að segja ykkur framhaldið. Eins og ég var búin að segja sagði hún kennaranum frá þessu og hún talaði strax við stelpurnar sem í hlut áttu. Ég talaði síðan við skólaliðana og starfsfólkið í heilsdagsskólanum svo allir yrðu meðvitaðir. Það gerði ég fyrst og fremst vegna þess að önnur stúlkan hefur lengi verið með leiðindi við Ölmu. Ekki viljað leika við  hana og barist við hana um athygli sameiginlegrar vinkonu þeirra. Alma hefur reynt að vera almennileg við þessa stúlku og vill leika við hana ef það þýðir að hún geti einnig leikið við þessa sameiginlegu vinkonu. Sambandið hefur samt verið stirt og Alma hefur leikið miklu minna við vinkonu sína út af þessu máli heldur en hún raunverulega vill. Til að gera langa sögu stutta þá sagði Alma mér að eftir að talað var við stelpurnar leika þær sér miklu meira saman (hún lék nær aldrei við aðra áður) og auk þess komu þær til hennar í frímínútum og sögðu henni að þeim fyndist leiðinlegt að þær hefðu verið að segja eitthvað svona við hana. Stelpuskottan mín er því alsæl þessa dagana. Þetta dæmi sannar bara best fyrir mér mikilvægi þess að við foreldrar tökum strax í taumana og látum vita ef það er eitthvað í gangi en leyfum því ekki að grassera í þeirri von að hlutirnir skáni. Látum strax vita í skólunum ef það er eitthvað að angra börnin okkar því þar vinnur fagfólk sem gerir sitt besta til að vernda börnin okkar.

Ég má til með að segja ykkur að daginn eftir að stelpurnar voru að setja út á bleiku fötin hennar Ölmu átti ég leið inn í heimilisfræðistofuna þar sem allar stelpurnar í bekknum voru. Ég gat ekki annað en brosað þegar ég tók eftir að ekki bara voru stríðnispúkarnir tveir í bleiku, heldur var hver einasta stelpa í bleiku!!!!!!!!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband