Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Prjónakaffi í gær

Við erum svo myndarlegar í vinnunni að við ákváðum að stofna "saumaklúbb"!!! Ja eða við köllum það prjónakaffi. Við hittumst hálfsmánaðarlega að kvöldi til í vinnunni og eru leyfð frjáls framlög til veitinga en enginn þarf að koma með eitthvað. Við þurfum því ekki að taka húsið í gegn heima hjá okkur eða standa í bakstri fram á nótt þó við hittum nokkrar konur og eigum notalega kvöldstund saman. Það er skemmtilegt að komast aðeins út og hitta fólk án þess að þurfa að hafa of mikið fyrir því. Við förum bara í búðina og kaupum eitthvað þar en enginn er eitthvað að stressa sig á að hafa flottari, betri og frumlegri rétti en sú síðasta. Svo þarf maður ekki að þrífa áður eða á eftir því við setjum dótið bara í uppþvottavél og hjálpumst að við að ganga frá eftir okkur. Við erum búnar að hittast tvisvar og í annað sinn komu 11 en í gær vorum við 12. Það eru allir mjög hrifnir af þessu framtaki og nokkrir fleiri sem hafa áhuga á að vera með en hafa ekki enn komist. Það er nú eitt sem er gott við að hittast í vinnunni að þar er betra sófapláss en í venjulegum stofum svo allir hafa nægt rými. Það er pottþétt að ég mun halda áfram að mæta..... Go girls.....!!!!

Mamma Mía

Ég fór í bíó í gær sem væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ég hef sjaldan skemmt mér jafn vel í bíó!!!! Ég bauð Ölmu og Elínu á Mamma Mía og fyrir aftan mig sat Sigga Sóley og fjölskylda. Það mátti heyra píkuskrækina í okkur Siggu á svipuðum tímum og maður dillaði sér, raulaði með og gjörsamlega fílaði sig í tætlur. Þetta er "Grease" ungu kynslóðarinnar. Það er pottþétt. Alveg eins og ég og mínar vinkonur gátum horft á þá mynd aftur og aftur þá held ég að nú sé komin myndin sem leysir hana af. Ég ætla pottþétt að kaupa myndina þegar hún verður gefin út og ef þið eruð ekki búin að sjá hana mæli ég með því að þið gerið það sem fyrst. Ekki bara er tónlistin frábær heldur er mikið af sprenghlægilegum atriðum í myndinni og bara það að sjá Pierce Brosnan í þessu hlutverki er ákaflega fyndið eitt og sér!!!! Ég hló a.m.k. mikið og var að glotta með sjálfri mér í allt gærkvöld eftir að ég var komin heim. Allir í bíó............

Snjór í Grænuklauf

Vá hvað það er fallegt veður núna. Maður horfir út um gluggann á hvítu fjöllin og bláan himininn í froststillunni og ég get ekki beðið eftir að sleppa úr vinnunni. Á miðvikudögum hætti ég kl. 14 því ég þarf að skutla Ölmu á söngæfingu kl. 14. Ég samdi því við skólastjórann um að klára vinnuna heima þann daginn. Núna ætla ég að gera það í kvöld en drífa mig þess í stað út í snjóinn með Ölmu að leika okkur. Við ætlum að fara í Grænuklauf sem er flott brekka hér á Króknum og renna okkur. Hún á stýrissleða og ég á rassaþotu. Það er svaka púl að renna sér á þeim og ég þarf því ekki í ræktina í dag!!!

Pétur Pan og snjóævintýri

Um helgina var hálfgert óveður en svoleiðis veður eru í miklu uppáhaldi hjá mér ef ég þarf ekki að vera á ferðinni (eða mínir nánustu). Við höfðum það því notarlegt á föstudaginn og horfðum á snjóinn hlaðast upp. Á laugardaginn var ekkert ferðaveður en þá höfðum við ætlaði í sveitina til tengdó. Við ákváðum því að fara bara út í garð að leika í snjónum og moka aðeins frá húsinu. Þetta er með mesta snjó sem ég hef séð á ævinni og það svona snemma. Snjórinn í garðinum var um meters djúpur svo við klifruðum upp á pallinn og stukkum niður í snjóinn fyrir neðan. Rosa stuð!!!! Fyndnast var að Alma stökk alltaf beint niður svo hún grófst niður með fæturnar og sat svo föst..... he he he he bara fyndið!!!  Þegar búið var að moka frá húsinu þurftum við að taka garðhúsgögnin inn en  það hafði gleymst áður en fór að snjóa og trúið mér þegar ég segi að það er ekki auðvelt að drösla stóru borði úr tré, fjórum stólum, blómapottum og sessukassa úr plasti í gegnum skafla af þessari þykkt!!! Þeir náðu mér í mið læri svo þetta var fín líkamsrækt....... Á sunnudeginum ákváðum við að reyna að komast út á Skaga þrátt fyrir það að Þverárfjall var ennþá sagt ófært. Við vorum svo heppin að lenda á eftir snjóblásaranum hluta af leiðinni þar sem mesti snjórinn var og svo tókum við fram úr honum. Við lentum þarna í samfloti með 2 öðrum bílum sem voru einnig að fara út á Skaga og í eitt skipti þurftum við að moka okkur í gegn um skafl og svo var ein brekka sem reyndist svolítið þung en þetta tókst nú allt saman. Fyrir Elínu skiptinema var þetta heljarins ævintýri því í Finnlandi eru menn ekkert að flækjast þar sem er ekki búið að moka!!! he he he Við fórum svo í að skera niður 2 kindaskrokka og það þótti henni frekar ógeðslegt þó hún hafi staðið sig með prýði í að hjálpa til. Frekar fannst henni þó undarlegt og ógeðslegt að sjá að amma geymdi hausa af 3 lömbum inni í þvottahúsi (hún var að fara að þvo þá áður en þeir yrðu sviðnir!!!!). Það var ógleymanlegur svipur á henni þegar ég sýndi henni ofan í pokann...... he he he he Núna er frystikistan orðin algerlega smekkfull enda voru tilboðsdagar á kjöti hjá Kaupfélaginu á föstudag og við keyptum tvö lambalæri og 6 bóga og nokkrar pakkningar af hakki. Það var einnig tilboð á osti og var hann á næstum 50 % afslætti. Ég keypti því nokkra stóra og setti í frysti. Það er gott að búa í Skagafirði!!!!! W00t Við vorum svo komin heim tímanlega til að fara á leiksýningu um Pétur Pan hjá Leikfélagi Skagafjarðar. Það var mikið af krökkum í sýningunni og flest á unglingastigi. Það háði sýningunni töluvert að þau töluðu hvorki nógu skýrt né nógu hátt svo ég heyrði stundum ekki heilu kaflana. Við sátum aftarlega en 3 samstarfskonur mínar voru á 4. bekk og heyrðu ekki almennilega heldur. Að öðru leyti var sýningin allt í lagi. Ég hlakka samt mikið til að sjá 10. bekk Árskóla setja upp Emil í Kattholti. Það verður örugglega alveg geggjað.

Alma lærir að lesa

Kíkið á  nýja myndbandið þar sem Alma sést lesa í fyrstu lestrarbókinni sinni!!! Rosa dugleg stelpa InLove

Nýjar myndir á facebook

Ég var að setja inn nýjar myndir á facebook ef ykkur langar til að kíkja á þær. Slóðin er:

 

http://www.facebook.com/photos.php?id=1079353242

 

Þarna eru 4 albúm en það nýjasta heitir Fall of 2008. Það er á "útlensku" svo ættingjar mínir og vinir í útlöndum fatti líka að kíkja á það.

Annars er ég búin að vera í heimilisstörfum í dag en einnig leyfði ég Ölmu, Elínu og frænku Ölmu sem býr í lengjunni að baka jólasmákökur!!! Já þið lásuð þetta rétt..... jólasmákökur!! he he Annars eru þetta engiferkökur sem við elskum öll og bökum stundum þegar eru ekki jól. Allir fengu að smakka og renndu volgum kökunum niður með ískaldri mjólk..... slurp... slef.... tókst mér að láta einhvern fá vatn í munninn........!! :)

 


Slátur, gestir, afmæli og fleira

Þá er farið að síga á seinnihluta helgarinnar og maður byrjaður að slaka á. Þórdís og Bjarni komu á föstudaginn þegar við Elina og Alma vorum ennþá að klára sláturgerð. Ég tók tvöfalda uppskrift af blóðmör og einnig af lifrarpylsu og er þegar búin að smakka blóðmörina. Hún bragðaðist dásamlega eins og von var á. Það var mjög fyndið að fylgjast með Elinu hjálpa til því henni fannst þetta frekar ógeðslegt en herti sig upp og hjálpaði helling til.

Á laugardeginum fórum við í fjöruferð með krakkana og leyfðum þeim að sulla í sjónum. Þau léku sér annars saman eins og englar alla helgina. Maður þurfti rétt að gefa  þeim að borða öðru hverju og svo ekki meir. Í dag fórum við svo í veislu til ömmu á Mallandi og fengum þar kökur og fleira. Amma fékk voðalega fallega teikningu frá Ölmu og var ánægð með hana. LoL

 


Alma veik í dag og ég eiginlega hálf slöpp líka

Þegar Alma vaknaði í dag var henni illt í maganum og lá og kúrði. Hún treysti sér ekki í skólann svo við mæðgur vorum heima. Það kom svo í ljós þegar ég var búin að borða morgunverð að ég var sjálf eitthvað slöpp í maganum. Dagurinn leið því þannig að við reyndum að svelta okkur og áttum þá nokkuð góða tíma. Svo fyrir rest náði hungrið tökum á okkur og við ákváðum að fá okkur að borða... viti menn... örskömmu síðar náði magakvölin tökum á okkur. Ég var nú reyndar ekki svo slæm að ég hefði þurft að vera heima frá vinnu en Alma greyið lagðist fyrir nokkrum sinnum í dag, kúrði, saug puttann og sagðist vera slöpp. Svo á milli vildi hún bara fara út að leika :) he he he

Eins og sönnum kvenmanni sæmir notaði ég tækifærið þar sem ég var heima til að ganga frá þvotti, setja í vél, taka til og þrífa. Auk þess bakaði ég og sinnti stelpuskottinu. Ef karlmaður hefði verið heima með veiku barni er það mín reynsla að í svona 90 % tilvika sitja þeir í sófanum og barnið búið að dreifa dóti út um allt hús, eldhúsið í rúst og ekkert verið þrifið eða tekið til!!!!! Ókey.... ég er að ýkja aðeins en SAMT......!

Það verður gaman um helgina því amma í sveitinni verður 75 ára svo við förum í kaffi á sunnudaginn. Auk þess koma Þórdís (elsta dóttir Sigga), Bjarni og krakkarnir í heimsókn og gista hjá okkur um helgina. Gísli (bróðir Sigga), Gerður og stelpurnar verða svo í íbúð tengdó hérna rétt hjá svo það verður nóg af gestum og boðum um helgina. Alma hlakkar mikið til að fá Sölva (elsta afabarnið) í heimsókn enda eru þau góðir vinir.


Berum hag barnanna fyrir brjósti og hættum að vola fyrir framan þau!!!!

Það er búið að stinga mig síðustu daga hvað börnin eru kvíðin og óörugg vegna framtíðarinnar. Þetta á sérstaklega við um unglinga sem eru farin að skilja fréttirnar betur en þó ekki nógu vel til að geta sett sig alveg inn í málin. Svo hlusta þau á fullorðna fólkið kvarta og kveina og fyllast sjálf kvíða og hræðslu. Ég er búin að lenda í því núna síðustu daga að vera með fulla bekki af kvíðnum unglingum sem hafa haft mikla þörf fyrir að tala um það sem þau eru að heyra og þau eru full kvíða. Þau finna að það sem þau eru vön að eyða peningunum sínum í hefur hækkað og þau hafa áhyggjur af því að foreldrar þeirra missi vinnuna eða húsið og þau muni ekki lengur eiga heimili. Við fullorðna fólkið verðum að vera dugleg að útskýra hlutina fyrir unglingunum eftir bestu getu og hjálpa þeim að horfa jákvæðum augum fram á við. Oft var þörf en nú er nauðsyn að setjast niður og ræða málin með  börnunum okkar!!!!!

Alma fær gleraugu og lepp...

Við fórum á Akureyri á fimmtudag og hittum augnlækni þar. Alma var skoðum miklu betur en áður og að lokum var tekin ákvörðun um að hún fengi gleraugu og ætti að prófa að nota lepp eftir skóla og þá með gleraugunum. Hún valdi rosalega falleg rauð Kello Kitty gleraugu og getur ekki beðið eftir því að fá þau. Við keyptum svo bara venjulegan sjóræningjalepp þar sem hún þarf ekki að nota hann í skólanum. Það er miklu þægilegra að smella honum bara af og á með teygju. Auk þess er það hrikalega kúl að vera sjóræningi..... he he he. Gellan fór á kóræfingu á föstudaginn og sat í fanginu á mér og þorði ekki að syngja. Ég var svo sem ekki mjög hissa. Stelpurnar sem voru mættar voru allar dálítið eldri en hún auk þess sem þær voru að læra nýtt lag og voru með nótnablöð með pínulitlum stöfum sem Alma gat auðvitað ekki lesið. Hún fékk því smá sjokk og þorði engu. Eftir æfinguna töluðum við við Alexöndru og tókum ákvörðun um að sjá bara til hvort hún mætir eða ekki. Það er ein ári eldri en hún sem hún þekkir vel og Alma hélt að hún myndi þora ef hin væri líka. Þetta kemur því allt í ljós. Í gær fórum við svo í sveitina að drepa hrút. Það átti að vísu að drepa tvo en skotin kláruðust. Við Alma fórum svo út í hús að skoða "vígvöllinn" og hún spáði mikið í innyflin. Í gær fórum við líka upp á tún að kíkja á hrossin og gefa þeim brauð. Klárarnir voru brauðinu fegnir þó þeir væru á góðu túni og komu um leið og þeir heyrðu skrjáfa í poka. Við fórum líka í fjöruferð, horfðum á brimið og tíndum kuðunga og fleira skemmtilegt í fjörunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband