Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Jólaklippingin komin

Ég fór í klippingu áðan með Ölmu og Elínu. Þær voru klipptar og ég fékk klippingu og lit. Þegar kom að því að borga fékk ég nett sjokk!!! Ég fer yfirleitt ekki nema 3x á ári í yfirhalningu og það dugar því  hárið á mér vex mjög hægt. Ég man hinsvegar að þegar ég fór fyrir jólin í fyrra með jafnmarga hausa í klippingu kostaði það tæpar 12.000 (mig minnir meira að segja að ég hafi keypt sjampó og næringu  þá líka sem ég gerði ekki núna). Núna borgaði ég rúmar 16.000!!!!! Ég efast reyndar ekki um að ef ég hefði farið í Reykjavík hefði þetta kostað miklu meira en komm on... strípur og klipping í einn millisíddarhaus á 11.000 finnst mér nú bara nokkuð mikið!!! og það í miðri kreppu.....


Fáránlega mikið að gera þessa dagana

Í gær var bekkjarskemmtun hjá Ölmu og það var frekar hávaðasöm samkoma. Börnin höfðu þó gaman af þessu og það er fyrir mestu. Það var verið að spila og borða nammi og ég held að allir hafi skemmt sér ákaflega vel. Í morgun var friðarganga í skólanum og á eftir var kakó og piparkökur. Ég var svo komin út í Tjarnarbæ (félagsheimilii hestamannaa úti við reiðhöllina) ásamt skemmtinefndinni (kölluð Klessan þó ég hafi aldrei alveg skilið hvernig það kom til....). Við vorum að raða borðum, klippa til dúka, leggja á borð og setja upp seríur og skraut ásamt fleiru slíku. Ekki nóg með það heldur þurfti ég svo að mæta úti í Skagfirðingabúð og hafa umsjón með kökubasar sem 7. bekkur var með. Ég get líka sagt ykkur að þegar ég kom heim opnaði ég bjórdós og pantaði pizzu!!!! Ég var alveg búin á því en Þorgerður kom í heimsókn og hressti mig við.

 Á morgun er svo jólaskemmtun starfsfólks Árskóla og á sunnudaginn þarf ég bæði að ganga frá í salnum og hitta samkennara minn í vinnunni. Á mánudaginn ætla ég að slaka á því á þriðjudaginn þarf ég í klippingu, á miðvikudag að láta laga gelluneglurnar og um kvöldið í saumó og á fimmtudag er ég með vinahóp fyrir Ölmu Kareni. Á föstudaginn förum við suður og þurfum að búðast og ég fer einnig að hitta ritstjórann í bókinni hjá mér. Við Dóra ætlum svo að djamma ærlega um kvöldið. Á laugardaginn fer ég með saumaklúbbnum í Bláa lónið og á Madonna showið með vinnunni hjá Sigga um kvöldið. Við gistum á hótel Íslandi alla helgina. Á sunnudeginum er svo skírnarveisla hjá dóttur hans Sigga og svo er kominn tími til að keyra heim. Þið sjáið því að það er frekar mikið að gera hjá mér á næstunni enda er ég farin að hlakka til að komast í jólafrí.


Ýmislegt

Í dag eru 14 ár síðan mamma dó og þann dag reyni ég að hugsa til hennar og minnast hennar á minn hátt.  Núna hef ég að vísu ekki mikinn tíma þar sem það er brjálað að gera hjá mér þessa dagana. Ég ætla samt að kveikja á kerti fyrir hana í kvöld og segja nöfnu hennar, Ölmu Kareni dóttur minni einhverjar sögur af ömmu sinni.

Þar næstu helgi erum við að koma suður til að fara á árshátíð hjá Vörumiðlun. Hún er haldin á Hótel Íslandi og á að sameina hana jólahlaðborði í þetta sinn. Við förum því á hótel í tvær nætur og sjáum Madonna showið og fáum jólahlaðborð. Ég hlakka mikið til en það er reyndar marg annað sem við ætlum að gera þessa helgi sem er tilhlökkunarefni. Sem dæmi má nefna búðarráp..... (alltaf gaman að því), Bláa lóns ferð með saumaklúbbnum í bænum og skírnarveisla á sunnudeginum. Eiginmaðurinn á orðið 5 barnabörn og það á að skíra það yngsta 7. desember. Börnin eru 8,7,4,1 og nýfætt. Kynin skiptast einnig nokkuð jafnt, 3 strákar og 2 stelpur.

Jólaundirbúningur er hafin því ég bakaði 2 sortir um helginga og gerði jólaísinn. Siggi setti upp tvær seríur.... ja eða öllu heldur stakk þeim í samband... því hann hafði ekki nennt að taka þær niður í fyrra.


10 blessanir

Það var skorað á mig að skrifa 10 blessanir í lífi mínu og koma þær hér á eftir. Þær eru ekki raðaðar eftir mikilvægi heldur í hvaða röð þær koma upp í kollinn.

 

1. Frábæra foreldra sem studdu mig í flestu (skynsömu) sem ég vildi gera.

2. Bræður mína þá Friðrik og Sibba sem eru ákaflega skemmtilegir drengir og við hlæjum og fíflumst alltaf þegar við hittumst.

3. Frábæran eiginmann, Sigurð Leó sem er ákaflega þolinmóður maður. Það er góður eiginleiki þegar við svona óþolinmótt trippi eins og mig er að eiga!!! he he

4. Dásamlega dóttur, Ölmu Kareni sem er skírð í höfuðið á mömmu en hún er látin. Næsta þriðjudag eru komin 14 ár þó það virðist lengra síðan.

5. Fósturdóttur mína hana Guðrúnu sem er að blómstra þessa dagana.

6. Vini sem eru margir og fjölbreyttir og búa dreift um heiminn.

7. Góðan vinnustað þar sem mórallinn er góður og börnin frábær!

8. Góða heilsu að mestu leyti.

9. Heimili sem er friðsamlegur griðarstaður og mér líður vel á.

10. Að eiga heima á Íslandi þrátt fyrir allt því kostirnir eru ennþá fleiri en gallarnir!!!

 

Ég skora á Bóa, Sibba og Dóru Vestjarðarmær að koma með sínar blessanir.


Nóg að gera

Alma er með eyrnabólgu og fór á mánudaginn í sveitina til afa og ömmu. Hún lætur þau dekra við sig og montar sig svo með því að lesa fyrir þau. Ömmu finnst hún voðalega dugleg að lesa og vinna í vinnubók svo þetta virkar greinilega hjá henni.... he he he

Í vinnunni er brjálað að gera. Ég er umsjónarkennari með 7. bekk og þau voru á mánudaginn að lesa fyrir krakkana í leikskólunum. Með þessu er haldið upp á Dag íslenskrar tungu og byrjað á undirbúningi fyrir Stóru upplestrarkeppnina. Við erum einnig að láta krakkana æfa sig heima að lesa ljóð og lesa þau svo í tímum. Í næstu viku eru svo þemadagar og er áhersla á líkamlegt og andlegt heilbrigði. Ég var sett í hóp sem sér um jóga, skák og spil. Við ætlum að skipta hópnum í tvennt þannig að helmingurinn sé í jóga og hinn að spila skák eða á spil. Sú sem kann jóga er hinsvegar að fara til útlanda og verður ekki með okkur!!!!! Í gær fengum við því jógatíma hjá henni til að læra hvernig við ættum að gera þetta. Það er skemmst frá því að segja að það fór þannig að af fjórum dásamlegum konum mun ég taka að mér að stýra þessu ásamt annarri. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ég er og hef alltaf verið stirð og stíf eins og spýta og hin er gigtarsjúklingur!!!!!! Við vorum samt skárstar!!! he he he við erum líka búnar að hlæja mikið að því en við þurfum svo sem ekki að vera fullkomnar til að kenna krökkunum grunnstöðurnar. Þetta verður sett upp sem dýrasaga og stöðurnar kynntar þannig og svo læra þau slökun. Við verðum auðvitað lang flottastar!!! he he he

Fyrir utan þetta allt eru krakkarnir að æfa fyrir Lúsíuhátíðina sem er haldin hátíðleg á Sauðárkróki. Þau þurfa að læra 8 ljóð sem eru á íslensku, sænsku, dönsku og ensku. Þeir sem þekkja mig vita að sönghæfileikar mínir eru ákaflega takmarkaðir eða eins og Bói sagði einu sinni þegar ég var eitthvað að spá í að læra söng til að geta sungið á almannafæri nokkurnveginn skammlaus... heyrðu Stína... ertu ekki til í að bíða með að syngja fyrr en þú ert búin að læra!!!!! Þetta þýðir auðvitað að ég þarf að fá aðstoð inn í bekkinn með sönginn og það vill svo til að samkennari minn hún Inga Lára er mikil söngdíva.... (hjúkkkkk!) og reddar málinu.

Jæja ég þarf að halda áfram að vinna, þetta þýðir ekki lengur...


Kíkið á nýju gleraugun hennar Ölmu

http://kristinsnae.blog.is/album/alma_karen/image/726487/

Þetta er litla dúllan mín með nýju gleraugun og hulstrið undir þau. Það er ekkert smá flott enda finnst henni voðalega gaman að skoða það og pússa gleraugun!!!!


Siggi á afmæli og Alma fékk mikið hrós frá kennaranum sínum

Í gær bökuðum við  Alma tröllasúkkulaðiköku fyrir Sigga til að taka með sér í vinnuna fyrir vinnufélagana. Ég gerði þrefalda súkkulaðikökuuppskrift og setti extra súkkulaði svo þetta hefur verið mjög karlvæn kaka. Ég setti líka smá deig í form sem Alma átti og krem á það svo að við pæjurnar fáum kökusneið í dag þegar við komum heim. Í morgun skreið Alma uppí  með afmælisgjöf handa pabba sínum og söng fyrir hann afmælissönginn. Við drifum okkur svo af stað en pabbi gat sofið áfram í klukkustund í viðbót. Ég var í foreldraviðtölum í dag og blessuð  börnin eru auðvitað að mestu leyti alveg frábær svo mér finnst þetta alltaf skemmtilegur dagur. Það er gaman að hitta foreldrana og börnin og ræða skólastarfið. Mest hlakkaði ég þó til í dag að fara í fyrsta foreldraviðtalið hjá Ölmu. Sem  betur fer komst Siggi með og við mættum aðeins fyrr til að fá okkur vöfflu með súkkulaði og þeyttum rjóma. Alma var búin að bíða síðan í morgun með að fá vöfflu eins og allir hinir!!!! Kennarinn hennar hrósaði henni alveg upp í hástert og sagði að hún væri stillt og prúð, dugleg að læra og héldi vel áfram, truflaði ekki aðra og ætti góð samskipti við kennara, starfsfólk og aðra nemendur. Hún fór í teiknikönnun hjá sérkennaranum um daginn (eins og allir hinir) og kom mjög út úr því. Átti auðvelt með að fylgja fyrirmælum og var með góðan hugtakaskilning. Við urðum auðvitað ofsalega stolt af því að eiga svona duglega stelpu.

Annars fékk ég ótrúlega gott tilboð á leiðinni út sem er eiginlega varla hægt að hafna.... ég rakst á Þorgerði og hún bauð mér nudd í kvöld.... held bara að ég skelli mér. Ekki amaleg leið til að enda daginn!!!!! Svo næstu daga verð ég með tvo kennaranema í áheyrn sem fylgjast með mér og fá svo eitthvað að spreyta sig sjálfir. Það er alltaf gaman að fá kennaranema og sérstaklega þegar þeir eru sjálfir að kenna og maður fylgist bara með og hjálpar þeim áfram.


Eiginmaðurinn á afmæli á morgunn!!!

Ég sat við tölvuna áðan og vaknaði upp við vondan draum! Eftir að hafa sagt "andskotinn" upphátt án þess að taka eftir því spurðu vinnufélagar mínir sem voru viðstaddir hvað væri að og ég varð að viðurkenna að ég var NÆSTUM búin að gleyma afmæli bóndans sem er á morgun.....

Nú þarf ég bara að finna einhverja leið til að gleðja þessa elsku en það hefði verið ágætt að muna þetta aðeins fyrr Halo, sérstaklega þar sem maður veit aldrei hvað hann er mikið heima við virka daga. Það er þá alltaf hægt að dekra eitthvað við hann næstu helgi..........Devil


Gott veður og göngutúr

Það er frábært veður á Króknum núna, milt og logn. Við erum á leiðinni í göngutúr fjölskyldan og Alma ætlar að sýna pabba sínum og Elínu hvað hún er flink að hanga í klifurkastalanum í barnaskólanum. Hún hangir þar meira og minna allan daginn og er venjulega með þykkt sygg og jafnvel blæðandi sár í lófunum fyrir vikið. Við ætlum svo að koma við í bakaríinu á eftir og fá okkur eitthvað gott. Njótið helgarinnar......

Dettum bara í það í kreppunni.......

Ef þið hefðuð lagt 100.000 krónur í að kaupa hlutabréf Nortel fyrir
einu ári síðan væri verðmæti bréfanna í dag um 4.900 krónur.

Hefði sama fjárfesting verið lögð í Enron væri sú eign í dag um 1.650 krónur.

Hefðuð þið keypt bréf í World Com fyrir 100.000 krónur væri minna en 500 kall eftir.

Hefði peningurinn hins vegar verið notaður til að kaupa Thule-bjór fyrir einu ári síðan þá hefði verið hægt að drekka hann allan og fara síðan með dósirnar í endurvinnslu og hafa um 21.400 krónur upp úr því.

Þegar ofangreint er athugað virðist vera vænlegur kostur fyrir fjárfesta að drekka stíft og endurvinna!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband