Vonandi verður allt í lagi með hana

Ég vona að stelpuskottið hafi ekki slasast eða a.m.k. ef svo er að það sé ekki alvarlegt. Sendi aðstandendum bestu kveðjur
mbl.is Fjögurra ára stúlka féll niður rúllustiga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

500 millur fyrir lóð

Já það væri ekki amalegt að eiga svona eins og 500 milljónir sem ég væri ekki að gera neitt annað við. Þá gæti ég keypt mér lóðina á Arnarnesinu og byggð eins og eina höll.. já eða tvær. Ekki verra að geta haft margra metra heimkeyrslu. Datt einhverjum í hug Dallas eða er það bara ég???? Mér finnst svo sem ágætt að einhver skuli vera svo efnaður að hann hafi efni á þessu en á sama tíma er það sorglegt að bilið á milli fátækra og ríkra á Íslandi hafi aukist svona mikið. Á kennaralaununum mínum væri ég meira en 100 ár að vinna mér inn fyrir lóðinni og það væri með því að borga ekkert annað. Það er komin skýr stéttaskipting á Íslandi í dag. Það eru öryrkjar, atvinnuleysingjar og aðrir slíkir hópar. Svo höfum við almenna launþega hjá ríki og sveitarfélögum. Næst koma þeir sem eru svo heppnir að vinna hjá einkareknum fyrirtækjum og fá yfirborganir og ýmsar sporslur ofan á taxtana. Ekki má gleyma banka og fjárfestingarfólkinu og á toppnum eru síðan fremur fáir en vellauðugir einstaklingar sem af ýmsum ástæðum hafa efnast á uppsveiflunni í íslensku atvinnulífi síðustu ár. Æi hvað maður var nú vitlaus að fara ekki í viðskiptafræði hérna um árið. Þá hefði maður haft möguleika á að vera í efstu tveimur hópunum. En svona er þetta bara. Við sem vinnum með fólk en ekki peninga erum minna virði í augum þeirra sem ráða launum okkar. Ég lifi í útópíu hugsun og vonast til að lifa þann dag þegar þetta breytist en verð að viðurkenna að ég er ekkert sérstaklega bjartsýn á það.


Pælingar um höfuðborgarsvæðið

Ég ætti eiginlega að segja Keflavíkurferð því ég var nú meirihluta tímans í Kefló en ekki Reykjavík. Mikið er ég alltaf fegin þegar ég kemst þaðan í burtu. Það er algerlega ofvaxin mínum skilningi hvernig ég gat búið í Reykjavík í mörg ár án þess að bilast á geðsmunum, deyja í umferðarslysi eða lenda á sjúkrahúsi vegna mengunar!!! Crying Það er svo miklu betra að búa úti á landi enda er það svo að flestir þeir sem gera það skilja ekki hvernig fólk getur búið á höfuðborgarsvæðinu. Nú er það svo að ég er fædd og uppalin á Stór-Reykjavíkursvæðinu en þegar ég átti Ölmu og var í fæðingarorlofi úti að ganga með hana alla daga þá fór ég í svona Útópíu fílíng og ákvað að ég vildi ekki ala upp barn í Reykjavík. Ég hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun að flytja út á land og þó ég myndi einhverntímann taka ákvörðun um að flytja úr Skagafirði myndi ég ekki fara aftur á  höfuðborgarsvæðið. Það er ómetanlegt að vera nálægt náttúrunni, geta skroppið á milli staða á nokkrum mínútum en eyða ekki hálfum deginum í mengandi og stressandi umferð, þekkja vini barnanna og foreldra þeirra, losna við pressuna um að komast á þessa eða hina útsöluna í von um bestu kaup ársins og hafa meiri tíma til að sinna fjölskyldunni í manneskjulegra og rólegra umhverfi.

 Annars skemmti ég mér ágætlega um helgina. Ég heimsótti m.a. fullt af fólki, fór í fermingu og skrapp í Vatnaveröld Reykjanesbæjar. Sá staður er snilld. Leiksvæði fyrir krakkana innandyra svo maður getur farið á veturnar án þess að allir komi veikir heim. Ég væri reyndar alveg til í að hafa hana í Skagafirði en maður getur víst ekki fengið allt Whistling


Sjáið hvað hún er flott í nýja kjólnum.

Ég fékk dugnaðarkast í janúar og heklaði þennan kjól handa Ölmu. Mér finnst hann voðalega flottur og varð að sýna ykkur hann. Best er að hún er mjög hrifin af honum líka og finnst þægilegt að vera í honum.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Klikkað lið

Hvað er að sumu fólki????? Ég sá í DV í dag að pólsk stelpa lenti í því að einhverjar fullar smástelpur réðust á hana og bitu í andlitið af því að hún var pólsk!!! Er ekki í lagi með þetta lið? Ætli þær vilji fá svona móttökur þegar þær skreppa í sumarfrí til Spánar eða í verslunarferð til London? Þær myndu örugglega kvarta hástöfum og selja fréttina í Séð og heyrt Wink . Ég hef virkilegar áhyggjur af því hvað umræðan um fordóma er að verða meiri. Ég er ekki endilega viss um að fordómarnir séu meiri, en þeir sem eru á móti innflytjendum virðast fá meiri athygli fjölmiðla en áður var. Það er líka möguleiki að lítill hópur fólks sé að fá aðra með sér í krafti neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar um innflytjendur. Ég hef alltaf litið svo á að það sé ekkert fólk æðra eða betra en annað. Við erum öll ólík hvort öðru á mismunandi hátt, höfum mismunandi hæfileika og fáum mismikil tækifæri í lífinu til að rækta þá. Ég meina..... hvað ef Mosart hefði t.d. fæðst inn í fjölskyldu sem hefði ekki veitt honum aðgang að hljóðfæri og eflt hann í tónlistariðkun!!!!! Ég er kannski snillingur í vísindum en hef bara aldrei látið reyna á það Tounge .  .........jæja ég er farin að æfa fyrir næsta maraþon því ég er viss um að þar liggur næsta sóknarfæri. Verst að foreldrar mínir voru hálfgerð sófadýr svo ég fékk ekki mikla hvatningu til íþróttaiðkunar í æsku. Annars væri ég örugglega margfaldur Ólympíuverðlaunahafi... he he he

Bráðum suður í fjörið

Það er alltaf að styttast í þessa helgi!!! Ég hlakka svo til að koma suður um helgina því ég hef ekki eytt helgi í Keflavík síðan í lok ágúst!!! Það er of langt fyrir mig. Þess utan kom ég yfir nótt í október en hafði lítinn tíma til að hitta vini og ættingja því þetta var vinnutengt. Við Siggi komum einnig suður í byrjun nóvember því þá var árshátíð í vinnunni hjá honum og gist á hóteli í bænum. Ég er virkilega komin með þörf fyrir rauðvín og spjall við vinkonurnar. Tilefni fararinnar er að Friðrik "litli" bróðir er að ferma miðsoninn, Jón Stefán á sunnudeginum og við látum okkur auðvitað ekki vanta í veisluna. Ferðin verður auðvitað notuð einnig til að kíkja í búðir og gera eitthvað skemmtilegt. Alma er búin að panta að fara í sundlaugina í Keflavík. Hún er að hluta til innilaug með rennibrautum og fleiru skemmtilegu fyrir krakka svo það er tilvalið að fara þangað á veturnar því þá er svo gaman að geta farið í sund þó það sé kalt úti. Þegar maður er með svona veikindapésa eins og hana þýðir ekkert að fara í sund á veturnar nema í innilaug. Það er einnig plönuð ferð á skauta í skautahöllina því við fórum á skauta á Akureyri fyrir jól og Alma fékk bakteríuna. Svo að sjálfsögðu ætlum við að reyna að heimsækja sem flesta vini og ættingja.

Offita í New York

Þar sem ég renndi yfir fréttir dagsins stoppaði ég sérstaklega við að í New York ætli menn að fara að berjast við offitu. Planið er að koma upp grænmetisstöndum úti um víðan völl í þeim hverfum þar sem offita og heilsufarsvandamál eru algengust. Menn hafa nefnilega komist að því að tíðni er á milli offitu og aðgengi að grænmeti og ávöxtum. Nú efast ég ekkert um að eitthvað er til í því en er málið endilega alveg svo einfalt? Vissulega er betra að þurfa ekki að fara langt til að kaupa hollan mat en maður þarf líka að vilja borða hann og svo má ekki gleyma mikilvægi hreyfingar. Oft hefur nefnilega líka verið sýnt fram á það í rannsóknum að bestur árangur næst þegar fólk eykur hreyfingu ásamt því að gæta að mataræði. Getur ekki verið að í þessum hverfum New York (sem kom fram að væru oft fátækari hverfi) sé framboð líkamsræktar minna og ólíklegt að fólk stundi ódýra líkamsrækt eins og skokk þar sem hættan á ránum er væntanlega meiri í fátækari hverfum!!! Þetta eru bara smá vangaveltur og engar fullyrðingar Whistling

Skrapp í kaffi og endaði í mat!

Við mæðgur komumst báðar út úr húsi í dag í fyrsta skipti í viku og var það mikill léttir fyrir okkur báðar. Það hvarflaði því ekki að okkur að fara beint heim heldur kíktum við í heimsókn til Dóru og hittum þar einnig Þorgerði. Það var mikið stuð enda til samans um að ræða 4 krakka frá nokkurra mánaða til 5 ára. Dóra var svo almennileg að bjóða okkur í mat svo við ílengdumst hjá henni. Frábær matur og takk kærlega fyrir okkur Dóra!!

Veikindi og vorið

Við mæðgur erum búnar að vera veikar til skiptis í allan febrúar. Fyrst hún, svo ég, svo sló henni niður og sama dag sló mér niður!!!!!! Ég segi nú bara að það er gott að febrúar er að renna sitt skeið á enda Pinch !!! Það er strax komin smá vorhugur í mig því maður er farinn að sjá ljósrönd á himni þegar maður skellir sér í vinnuna á morgnanna og svo er dagsbirtan orðin umtalsvert meiri seinnipartinn. Þetta er alveg að koma og ég, þetta mikla vorbarn sit spennt og stari í blómabeðin og bíð eftir að krókusarnir fari að skjóta upp kollinum. Ásamt björtum morgnum er það að mínu mati skemmtilegasti vorboðinn. Það er svo gaman að sjá náttúruna vakna til lífsins, fara í göngutúra með stelpunni í náttúruna og benda henni á brunhnappa og farfugla. Mhhhhh ég get ekki beðið en fyrst ætla ég á skíði um páskana. Stóra systir ætlar að vera heima og kenna litlu systur á skíði. Ég veit ekki alveg hvor þeirra er spenntari og svo má ekki gleyma skiptinemanum frá Þýskalandi sem hefur aldrei komið á skíði og ætlar að prufa líka. Það eru skemmtilegar vikur framundan og margt til að hlakka til.


Innflytjendur

Mér eru innflytjendamál nokkuð hugleikin þessa dagana. Ástæðan er m.a. annars sú að í fjölskyldunni er stúlka frá Venesúela og við höfum tekið þátt í því með henni að fylla út pappíra og eiga samskipti við Útlendingastofnun. Það kom mér nokkuð á óvart að það væri jafn flókið fyrir fólk utan Schengen að fá dvalarleyfi á Íslandi og raun ber vitni. Það þarf ógrynni af pappírum og smámunasemin hjá stofnuninni er stundum með ólíkindum. Þess utan er afgreiðslutíminn nokkuð langur og gerðar miklar kröfur til þeirra sem hingað koma. Sem dæmi get ég nefnt að þess er krafist að námsmenn utan Schengen geti framfleytt sér fyrstu önnina í námi án þess að vinna. Þetta eru meiri kröfur en við gerum til íslenskra háskólastúdenta. Flestir vinna þeir með námi en nei við skulum gera meiri kröfur til fátækari landa.... !!! Ótrúlegt. Með þessu er næstum ógjörningur fyrir flesta utan Shcengen að koma til Íslands sem námsmenn því það er svo dýrt að lifa á Íslandi. Erlendir námsmenn fá ekki atvinnuleyfi fyrr en eftir eina önn og þurfa þá að ná 75% námsárangri.

Það er sorglegt hvað umræða um innflytjendur hefur verið á neikvæðum nótum síðustu mánuði. Sérstaklega vegna þess að flestir gera sér grein fyrir því að þetta er hávær minnihlutahópur sem samanstendur að stórum hluta að ungu fólki sem hefur ekki hugsað málið til enda eða hefur hlustað of mikið á foreldra eða aðra sem hafa neikvæðar skoðanir. Flestir þeir sem skoða í alvöru kosti þess og galla að hafa á Íslandi fólk frá mismunandi löndum sjá að þetta fólk auðgar menninguna og gerir mannlífið skrautlegra og skemmtilegra. Innflytjendur eru auk þess EKKI líklegri en aðrir Íslendingar til að brjóta lög og hefur reyndar verið sýnt fram á það í fjölmiðlum að það gagnstæða er rétt. Það er heldur ekki rétt að innflytjendur reyni ekki að læra íslensku. Lang flestir sem á annað borð hafa tækifæri til þess gera það en það tekur einhvern tíma og þá þurfum við að vera þolinmóð og sýna skilning. Við viljum geta farið til útlanda og sest þar að. Við myndum ætlast til þess að fá aðlögunartíma að öðru tungumáli og annarri menningu og eigum að veita þeim sem koma hingað sömu tillitssemi. Áfram alþjóðavætt Ísland!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband