Innflytjendur

Mér eru innflytjendamál nokkuð hugleikin þessa dagana. Ástæðan er m.a. annars sú að í fjölskyldunni er stúlka frá Venesúela og við höfum tekið þátt í því með henni að fylla út pappíra og eiga samskipti við Útlendingastofnun. Það kom mér nokkuð á óvart að það væri jafn flókið fyrir fólk utan Schengen að fá dvalarleyfi á Íslandi og raun ber vitni. Það þarf ógrynni af pappírum og smámunasemin hjá stofnuninni er stundum með ólíkindum. Þess utan er afgreiðslutíminn nokkuð langur og gerðar miklar kröfur til þeirra sem hingað koma. Sem dæmi get ég nefnt að þess er krafist að námsmenn utan Schengen geti framfleytt sér fyrstu önnina í námi án þess að vinna. Þetta eru meiri kröfur en við gerum til íslenskra háskólastúdenta. Flestir vinna þeir með námi en nei við skulum gera meiri kröfur til fátækari landa.... !!! Ótrúlegt. Með þessu er næstum ógjörningur fyrir flesta utan Shcengen að koma til Íslands sem námsmenn því það er svo dýrt að lifa á Íslandi. Erlendir námsmenn fá ekki atvinnuleyfi fyrr en eftir eina önn og þurfa þá að ná 75% námsárangri.

Það er sorglegt hvað umræða um innflytjendur hefur verið á neikvæðum nótum síðustu mánuði. Sérstaklega vegna þess að flestir gera sér grein fyrir því að þetta er hávær minnihlutahópur sem samanstendur að stórum hluta að ungu fólki sem hefur ekki hugsað málið til enda eða hefur hlustað of mikið á foreldra eða aðra sem hafa neikvæðar skoðanir. Flestir þeir sem skoða í alvöru kosti þess og galla að hafa á Íslandi fólk frá mismunandi löndum sjá að þetta fólk auðgar menninguna og gerir mannlífið skrautlegra og skemmtilegra. Innflytjendur eru auk þess EKKI líklegri en aðrir Íslendingar til að brjóta lög og hefur reyndar verið sýnt fram á það í fjölmiðlum að það gagnstæða er rétt. Það er heldur ekki rétt að innflytjendur reyni ekki að læra íslensku. Lang flestir sem á annað borð hafa tækifæri til þess gera það en það tekur einhvern tíma og þá þurfum við að vera þolinmóð og sýna skilning. Við viljum geta farið til útlanda og sest þar að. Við myndum ætlast til þess að fá aðlögunartíma að öðru tungumáli og annarri menningu og eigum að veita þeim sem koma hingað sömu tillitssemi. Áfram alþjóðavætt Ísland!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband