Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Mikligarður og húsaleiga um helgina

Komið sæl og blessuð kæru vinir og aðrir flakkarar. Ég er búin að vera að leysa Selmu af á Gistiheimilinu Miklagarði á Sauðárkróki og það er búið að vera vægast sagt geðveikt að gera hjá mér. Ritgerð um það síðar. Er núna á leiðinni með Ölmu í búningaafmæli og er hún klædd eins og sjóræningi, bara flott. Ætlum svo um helgina að skreppa á fiskidaga á Dalvík og mikið verður gott að slaka aðeins á eftir þessa vinnutörn, svona áður en alvöru vinnan mín byrjar Wink . Um helgina er Króksmótið í fótbolta og það eru margir sem verða á Króknum um helgina. Ég er mikið að spá í að leigja húsið mitt á meðan ég fer í burtu því ég veit að það eru margir ansi seinir að redda sér húsnæði og nenna ekki að vera í tjaldi um helgina. Ég sé til ef ég dett ofan á eitthvað gott fólk. Meira seinna gæskurnar.

Nóg að gera

Þá er maður kominn heim eftir enn eina helgina að heiman. Verð að segja að mér finnst nóg um fjarverur að heiman þetta sumarið. Maður er varla búinn að slaka á og njóta þess að vera í garðinum. Á móti kemur að við erum búin að gera ýmislegt og hafa það að öðru leyti gott. Dvölin í Keflavík var skemmtileg og ekki síður tíminn á Tenerife en nú er nóg komið og maður þráir bara að vera heima. Við vorum á ættarmóti síðustu helgi í Sigga fjölskyldu og vorum við sérstaklega heppin með veður. Ég man ekki til þess að hafa áður getað farið út úr húsi á Skaga í stuttbuxum!!!! Mér finnst alltaf vera þungbúið, þoka eða kuldi enda stendur bærinn hjá tengdó við sjóinn og alltaf hafgola sem getur verið ansi köld. Núna var hinsvegar blíðskapar veður og maður naut þess að slaka á og spjalla. Ég er annars á fullu við að skrifa nema í svona stöku bloggpásum og það gengur ágætlega. Þurfti samt að undirbúa mig í gær fyrir næstu viku þar sem ég verð að passa gistiheimili hér á Króknum. Var að læra á allt klabbið og mæti svo á fimmtudaginn og verð fram á næsta fimmtudag. Þá ætlum við á fiskidaga (aldrei heima..... he he he). Ég tók líka syrpu í garðinum seinnipartinn í gær og fram á kvöld því það er auðvitað lítið búið að gera í honum vegna fjarveru. Mér tókst auðvitað að ofkeyra mig svo núna er varla sá vöðvi sem er ekki sár og aumur eftir hamaganginn. Ég byrjaði á að þrífa bílinn og fellihýsið og sló svo garðinn og sló einnig kantinn með sláttuorfi og er öll út í sárum á fótunum vegna stráa sem fljúga í allar áttir þegar maður notar þetta verkfæri. Man aldrei eftir að vera í síðbuxum þegar ég nota þessa græju Crying . Svo fór ég með litlar klippur og snyrti alls staðar meðfram. Eftir það réðist ég með rafknúnum hekkklippum á limgerðið sem liggur utan um garðinn og snyrti það allt. Það var klikkuð vinna því helv. klippurnar eru þungar og limgerðið hátt. Mér finnst ég þvílík hetja að hafa náð að klára þetta. Verst er að klippa þar sem kanturinn er því þá þarf ég að standa í keng í töluverðum bratta og í um meters hæð sveiflandi klippunum langt upp fyrir mig. Eins og þið getið ímyndað ykkur er ég frekar þreytt í höndunum í dag!!!!!!!! Svo átti auðvitað eftir að raka saman öllum greinunum og troða í poka... úffffff !!!! Ég á enn eftir að reita arfa en það fær að bíða á meðan hendurnar á mér eru svona þreyttar... he he he.  Í dag verður því engin erfiðisvinna heldur bara skriftir og svo sólbað í pásum. Annars var frábært í gær að Guðrún grillaði og við sátum svo heillengi úti að spjalla og fórum með Ölmu og einhverjum krökkum í hverfinu í asna úti á körfuboltavellinum sem er fyrir ofan húsið. Svaka stuð. Jæja verð að halda áfram að skrifa.

Ég á ekki til orð!!

Erla mín ég vona að þetta hafi ekki verið litla prinsessan ykkar Kalla. Mér brá þegar ég sá fréttina. Það er alltaf öðruvísi þegar maður þekkir einhvern þar sem fréttirnar eiga sér stað!!!
mbl.is Drukkinn elgur réðist á stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geggjað veður

Mikið er nú gott þessa dagana að búa fyrir norðan. Hérna er búið að vera rosalega gott veður í gær og dag og spáin fyrir næstu daga er eins. Ég ætla að skreppa í Varmahlíð í sund seinnipartinn og það verður frábært. Það er svo æðisleg sundlaugin þar. Hún er tvískipt, annars vegar köld sundlaug og hinsvegar mátulega heit barnalaug þar sem maður getur dúllað sér allan daginn með krökkunum án þess að frjósa úr kulda og  þurfa að fara í heita pottinn reglulega til að hita sig. Hún er svo mátulega heit að það er bara snilld!!!! Þegar við Alma förum þangað notum við oft tækifærið og fáum okkur göngutúr í skógræktinni,  leikum okkur á róló og fáum okkur ís. Jæja ætla að halda áfram að vinna svo ég geti með góðri samvisku hætt snemma og farið í sund. Þið hin sem þurfið að hanga í rigningunni fyrir sunnan..... það er að koma helgi.... skellið ykkur í útilegu!!!!! Við verðum á ættarmóti hérna rétt hjá um helgina og ég ætla að gera nákvæmlega ekki neitt!!!!!!


Skiptinemar

Ég sá frétt í morgun um að það vanti foreldra fyrir skiptinema næsta vetur. Ég hef tekið skiptinema tvisvar sinnum og við erum að fá 16 ára stelpu til okkar frá Finnlandi núna í haust. Hinar tvær voru frá Venesúela og Þýskalandi. Þetta er mjög gefandi og skemmtilegt og ég vil hvetja alla til að opna heimili sitt og hjarta fyrir ungmennum frá öðrum löndum. Við getum lært jafn mikið af þeim og þeir af okkur. Fyrir mig er þetta félagsskapur, aukinn lærdómur og spennandi reynsla. Svo er ekki verra að eignast vini í öðrum löndum. Þetta getur verið erfitt en það á einnig við um uppeldi okkar eigin barna og á sama hátt er þetta miklu oftar gefandi og skemmtileg reynsla. Ég vil hvetja alla sem lesa þetta til að hafa samband við AFS á Íslandi og kynna sér málið. Það má einnig senda mér línu og ég skal svara ykkur.

18. júlí var merkisdagur

Ég var svo mikið að flýta mér á ættarmót á föstudaginn að ég gleymdi að segja ykkur aðeins meira frá þessum degi. Þannig er að þá á Marianna afmæli en ekki bara það því gamall vinur minn sem heitir Manni á líka afmæli þennan dag. Ef þú slysast hingað inn Manni þá til hamingju með það Wizard . Merkilegast við þennan dag er þó að fyrir akkúrat 11 árum á þessum degi fórum við Siggi að vera saman og það besta er að við gleymdum því bæði fyrir helgi!!!!!! Kosturinn er þó að hægt er að bæta sér það upp síðar!!!!........

Snævæl um helgina

Þá er maður komin heim eftir ættarmót og hálf þreyttur eftir þeyting síðustu vikna. Það var mjög gaman um helgina. Flestir komu á föstudagskvöldinu svo þá var fólk að koma sér fyrir en svo plataði ég nokkra í Boccia og Kubb. Það var skemmtilegt en svo var bara verið að spjalla og láta sér líða vel í góðra vina/ættingja hópi. Langt síðan maður hefur séð suma eins og t.d. Steinunni frænku sem kom alla leið frá Kongó í Afríku og geri aðrir betur!!! Litlu börnin á fyrstu ættarmótunum eru orðin fullorðin og komin ný lítil börn og sum "börnin" meira að segja búin að eignast barn eða börn..... úfffff maður fílar sig aðeins gamlan að hugsa um þetta en lítur svo í spegil og sér þá hvað maður er svakalega unglegur og fínn.... he he he he... þýðir ekkert annað en að halda jákvæðninni!! Á laugardeginum var byrjað á minigolfi og tóku margir þátt í því, svo var hádegishlé en eftir það fórum við í útikeilu og svo eftir kaffi var keppt í tilþrifum á trampólíni. Fyrst voru unglingarnir og börnin. Ekkert af fullorðna fólkinu þorði svo ég skellti mér og skoraði á hina og fyrir rest voru nokkrir sem prófuðu. Sá elsti sem fór var Pétur bróðir pabba sem er að nálgast 60. Hann er samt eins og hinir krakkarnir og klifrar upp í rjáfur á partýtjöldum, rúllar sér í kollhnísum og stekkur heljarstökk. Ég bíð eftir að hann fljúgi burt eins og Pétur Pan!!! Grin Ég skipti svo liðinu í 4 hópa og gaf þeim 10 mínútur til að koma með atriði á kvöldvöku. Það voru veitt verðlaun fyrir keppnir dagsins og svo var djúsað, sungið og djammað fram eftir nóttu. Bara gaman. Í gær var fólk bara að taka saman í rólegheitum og við skelltum okkur í sund í Borgarnesi á leiðinni heim. Það eina sem skyggði aðeins á helgina var að við lentum í veseni við Seglagerðina Ægi. Við leigðum hjá þeim partýtjald og þegar það var tekið úr bílnum hjá pabba kom í ljós að hælana vantaði. Var þá hringt í hina og þessa og meðal annars framkvæmdastjórann. Til að gera langa og leiðinlega sögu styttri þá fengum við ekki hæla fyrr en seint á laugardeginum og tjaldið komst upp um 6 leytið. Við fengum þó verulegan afslátt á leigunni enda hefði annað verið fáránlegt. Til að bæta um betur var það svo bæði rifið, blautt og skítugt þegar við fengum það. Ég mæli með því ef þið ætlið að leigja svona græju að tékka vel á að allt sé með þegar þið fáið þetta í hendurnar.


Marianna á afmæli í dag.....

Hún á afmæli í dag..... hún á afmæli í dag... hún á afmæl´ún Marianna... hún á afmæli í dag. Hún verður fullorðin í dag... og svo framvegis. Wizard Hjartanlegar hamingjuóskir í tilefni dagsins og láttu þér líða vel. Ég má til með að segja þér sæta sögu af ykkur Ölmu. Einn daginn þegar við vorum á Tenerife stoppuðum við á leiksvæði og Alma var að leika sér. Svo sá ég að allt í einu sat hún í einhverjum bíl, saug puttann og fitlaði í eyranu. Hún sat þannig svolítið lengi svo ég fór að athuga með hana. Ég spurði hvort það væri eitthvað að og þá fór hún að hágráta og sagði svo .... ég sakna svo Mariönnu!!!!!!!!!!!!!!! Frown  Æi greyið. Við söknum þín líka svo vonandi hittumst við fljótt aftur. Bið að heilsa fjölskyldunni þinni. Grin

Ættarmót um helgina

Er á fullu að þvo þvott, þrífa húsið og undirbúa ættarmót sem verður að Fossatúni í Borgarfirði um helgina. Síðustu 13-14 ár hafa verið haldin 4 ættarmót og þetta er það fimmta. Af þessum er bara eitt sem ég hef ekki komið nálægt skipulagningunni á!!!!! Ég held það sé löngu kominn tími til að einhver annar taki þetta að sér, bæði mín vegna og annarra Wink . Ég hef sagt þetta í síðustu þrjú skipti en þeir sem áttu að sjá um að koma þessu á koppinn bara hreinlega stóðu sig ekki í því!!! Þar sem mér finnst mjög gaman á ættarmótum ákvað ég að ræna völdum svo eitthvað myndi gerast. Ég verð samt að segja að ég efast um að ég geri það aftur. Þetta tekur tíma og ég finn að ég nenni þessu ekki lengur. Kannski breytist það einhverntímann en maður verður að hafa gaman að þessu. Ég hlakka mikið til að hitta alla og vildi að fleiri gætu komið en auðvitað eru alltaf einhverjir sem eru erlendis eða komast ekki af einhverjum öðrum ástæðum. Verð að halda áfram undirbúningnum og sé alla með brosi á vör annað kvöld. Áfram Snævæl!!!!!

Heim í heiðardalinn....

Boy ohhh boy hvað það er hrikalega gott að koma heim!!!!! W00t Ekki misskilja mig... það var rosalega gaman hjá okkur en við Alma erum búnar að vera í burtu í tæpan mánuð og við möluðum alveg í gærkvöldi þegar við komum heim. Hún átti að fara í dag á námskeið en vildi frekar vera heima og slaka á. Það er greinilegt að hún er þreytt því hún er búin að horfa á DVD (að vísu nýja mynd) og það gerir hún næstum aldrei um miðjan dag á sumrin þegar hún getur verið úti. Núna er Hildur hjá henni og þær liggja uppi í rúmi og borða MM kúlur..... psssshhh ekki segja Siggu Sóley!!!! he he he Devil. Það var margt skemmtilegt sem við gerðum úti. Við fórum til Santa Cruz sem er höfuðborgin á eyjunni. Þar röltum við um miðbæinn og kíktum í HM til að versla. Við fórum einnig í tvo dýragarða. Annar heitir Loro Parque og er hinum megin á eyjunni. Þegar við fórum þangað fórum við hringinn í kringum eyjuna því við fórum um morguninn túristaleiðina sem liggur um fallegt en seinfarið fjalllendi. Þegar við fórum til baka fórum við hraðbrautina sem liggur hinum megin á eynni. Þessi garður var alveg frábær. Það sem stóð upp úr í ferðinni fannst okkur Sigga vera dýrasýningarnar sem við fórum á þarna. Það voru sýningar með háhyrninga, höfrunga og seli. Það var alveg magnað hvað var hægt að láta dýrin gera. Daginn eftir fórum við í annan garð rétt hjá hótelinu sem heitir Jungle Park. Í honum er stílað meira inn á frumskógardýr og þar voru tvær fuglasýningar. Önnur var með páfagauka og aðra minni fugla en hin með erni, fálka, gamma og aðra stærri fugla. Þennan dag fengum við mesta  hitann því hann fór í 45 stig!!!!!! Sannkallaður frumskógarhiti Shocking og við föttuðum ekki neitt af hverju okkur var svona heitt fyrr en við sáum  hitamæli á leiðinni aftur upp á hótel!!!! he he he. Gátum ekki einu sinni sest á seinni sýningunni nema setja fötin okkar á bekkina því þeir hitnuðu svo mikið að það kviknaði næstum í rassinum á okkur..... he he he. Fyrir utan þessar ferðir vorum við að mestu í því að slaka á. Við fórum í sundlaugargarðinn og lékum við Ölmu eða létum okkur fljóta á vindsængum. Það var étið ógrynni af ís og drukkinn slatti af bjór. Við fórum nokkrum sinnum á ströndina og ég varð sjóveik af því að leika mér í öldunum á vindæng!!!! Það var allt í lagi í smá stund en einn daginn var ég á vindsæng í 3-4 tíma og var með sjóriðu það sem eftir var dags!!! he he Við fórum einn daginn á markað í hinum enda bæjarins og gengum svo eftir ströndinni til baka með viðkomu í sjónum og á íssjoppum. Einn af síðustu dögunum ákváðum við að fara í siglingu með eldgömlu sjóræningjaskipi sem heitir Peter Pan. Þetta var 3ja tíma sigling þar sem við stímdum út á sjó og skoðuðum grindhvali og fórum svo í vík eina og þar var sjósund og grillmatur um borð. Þetta var mjög skemmtileg ferð í 98 ára gamalli skútu en ég varð það sjóveik að um kvöldið var ég ennþá með sjóriðu!!!!! Alger landkrabbi og lítið efni í sjómann. Þetta var samt þess virði. Á kvöldin fórum við yfirleitt út að borða, leyfðum Ölmu að fara í leiktæki í nágrenninu, fórum 2x í minigolf á geggjuðum golfvelli, fórum á hótelið á ýmsar sýningar (t.d. snákasýningu og arnarsýningu) og skemmtum okkur bara helv. vel. Ég set inn nokkrar myndir svo þið getið séð hvað við vorum að gera. Kvittið endilega í gestabókina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband