Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Afmælisveisla Ölmu Karenar

Prinessan varð 6 ára í gær og það var haldið upp á það með pompi og prakt. Þegar mest var voru 13 krakkar og eitthvað af foreldrum svo það var eins gott að við mæðgur vorum  búnar að baka helling af góðgæti. Alma var komin í senjorítukjólinn sem afi keypti á Tenerífe snemma um morguninn og setti svo bara upp svuntu þegar hún var að hjálpa mömmu í eldhúsinu. Krakkarnir skemmtu sér hið besta og það kom sér vel að  hafa stórt hús í gær. Ekki verra að Alma á eiginlega tvö herbergi því leikloftið er eins og sér herbergi. Þar er allt dúkkudótið, barbídúkkurnar og hægt að elda og leggja á borð og svoleiðis. Þar voru stelpurnar því mikið í mömmó. Svo er nú ekki verra að hafa rennibraut inni og margir notuðu hana. Við höfðum einnig kveikt á dvd í okkar herbergi og þar var vinsælt að setjast smá stund og horfa. Um kvöldið fékk Alma svo að vaka lengi og sofa alla nóttina í mömmu og pabba rúmi enda var þetta nú afmælisdagurinn hennar og allt gert til að dekra hana sem mest. Hún fékk fullt af gjöfum og var mjög ánægð með þær. Við ákváðum að gefa henni pening sem hún ætlar að fara með í Toy´s r us þegar við komum suður til að fara í 25 ára fermingarafmælið í Keflavík. Þá verður farið í stóru dótabúðina (eins og hún kallar hana) og þá á að versla. Hún fékk í aukabónusgjöf að Guðrún stóra systir kom heim um helgina og það er búið að vera mikið knús hjá þeim.

 


Flensuleiðindi

Ég hefði átt að hafa hærra um það um daginn að ég hefði aldrei fengið alvöru flensu sem leggði fólk í bælið í viku tíma eða svo því það leið ekki vika og þá var ég komin með eitt svoleiðis Sick . Ég er auk þess komin með bronkítis en þetta er svo sem allt á réttri leið. Hef ekki hvílt mig svona vel í mörg ár því ég hef varla orku til að fara á fætur. Ætla því að skríða aftur upp í og hafa það notalegt... æi það væri svo sem notalegra að vera frískur en þið náið þessu!

Ífuferð

Jæja þá er helgin búin og það var geggjað stuð. Það skyggði reyndar á gleðina að á miðvikudagskvöldinu veiktist Alma og ég fór með hana til læknis. Það kom í ljós að hún hafði fengið flensuna sem er víst í hámarki núna. Versta var að ég fór sjálf að finna fyrir slappleika þegar leið á daginn svo ég fór og keypti sólhatt og paratabs sem ég bruddu samviskusamlega næstu daga. Ég ákvað að fara í ferðina þó ég væri aðeins slöpp í þeirri von að það yrði ekkert meira en mér varð ekki að þeirri ósk minni. Núna erum við Alma saman heima veikar og ég veikari en hún því það er auðvitað ekki það besta fyrir heilsuna að vera á svona flækingi eins og ég gerði. Á fimmtudagskvöldinu klæddum við okkur upp sem prinsessur og veitt voru búningaverðlaun. Eftir það var Sigga Kára með leðurföndur. Hún kom með risastór lambsskinn sem hún hafði límt sjávarleður á. Við fengum allar mismunandi útfærslur. Ég fékk ólitaðan hlýra og svo fórum við að hanna töskur, skera leðrið og sauma það saman með leðuról. Þetta var hrikalega gaman og flottar töskurnar sem urðu þarna til. Á föstudeginum fengum við leiðsögn um Gása sem er fornleifasvæði rétt norðan við Akureyri. Það var mjög fróðlegt og skemmtilegt. Á eftir var borðað á tælenskum veitingastað á Akureyri og svo lá  leiðin á kynningu í Purity Herbs. Þar fengum við að skoða húsnæði, var sagt frá framleiðslunni og fengum að kaupa með afslætti. Allar keyptum við UnaðsolíuInLove og fleira skemmtilegt!!! Næst fórum við í Hár og heilsu þar sem við dúlluðum okkur í heita pottinum og gufunni á milli þess sem við fengum andlitsmaska og axlanudd. Tvær fóru í lengra nudd og ein í klippingu og næringu. Þetta var ákaflega notalegur dagur og þar sem þetta var afmælisdagurinn minn fékk ég mér bjór með matnum í hádeginu og svo vorum við flestar að sulla í freyðivíni í pottinum. Um kvöldið pöntuðum við bara pizzu og fórum frekar snemma í háttinn þar sem allar voru svo slakar eftir allt dekrið. Á laugardeginum var byrjað á nammibar Hagkaupa og síðan haldið inn á Grenivík. Þar fengum við að skoða harðfiskverkunina Eyjabita og keyptum allar slatta. Síðan var haldið í einhverja þá geggjuðustu ferð sem ég hef farið. Við fórum með snjótroðara upp á topp á Kaldbaki sem er 1174 m yfir sjávarmáli. Það var stundum skuggalega  bratt. Þegar við komum upp á toppinn var stoppað í u.þ.b. korter en svo fengum við að fara niður á snjóþotum ef við vildum. Sumir höfðu tekið með sér bretti eða skíði og margir voru líka með Stigasleða en við "kellingarnar" sátum á einföldum snjóþotum sem maður gat rétt svo troðið sér ofaní. Mér leist nú ekki nema svona mátulega á blikuna fyrst til að byrja með því fyrsta brekkan var frekar brött en fjallið var samt þannig að maður þurfti alltaf að ganga öðru hverju að næstu brekku. Þegar ég kom að síðustu brekkunni fékk ég nett sjokk því það var líklega um 80° halli í henni. Það endaði með því að ég tók snjóþotuna og festi bandið á henni á úlnliðinn og renndi mér á rassinum. Þá rann ég á mátulegri ferð fyrir minn smekk. Þetta var alveg geggjað. Nú næst fórum við í Safnasafnið á Svalbarðseyri og svo í bústaðinn að græja okkur fyrir kvöldið. Þá var farið út að borða á La Vita El Bella og svo í leikhús á leikritið Fló á skinni. Það var virkilega skemmtilegt leikrit og ég mæli með því við alla. Þegar við komum heim í bústaðinn var sungið fram á nótt og daginn eftir haskað sér heim.


Forsetinn í heimsókn og Alma lærir að hjóla

Í gær voru forsetahjónin í heimsókn í skólanum okkar. Það var mikill spenningur hjá krökkunum fyrir heimsókninni og þau stóðu sig frábærlega í söng og dansi sem allir tóku þátt í. Sumir komu einnig með fyrirspurnir til Ólafs Ragnars en ég hafði ekki minna gaman að því þegar Guðrún Ásta, dóttir vinkonu minnar, sem er í 10. bekk spurði Dorrit að því hvar hún keypti fötin sín. Dorrit svaraði þessu mjög skemmtilega og þegar þau fóru varð hálfgert spennufall í skólanum. Talandi um annað. Alma lærði að hjóla í gær Grin . Við fórum út á gangstétt í næstu götu sem er sléttari en okkar gata. Þar gólaði og vældi Alma í svona sirka 10 mínútur og sagðist ekki geta þetta, hún væri hrædd og svo framvegis en svo benti ég henni á að sitja bara á hjólinu og renna sér. Þegar hún hafði gert það nokkrum sinnum benti ég henni á að setja fæturnar upp á pedalana og prufa að hjóla. Viti menn.... auðvitað hjólaði hún bara af stað en varð svo hissa að hún nauðhemlaði og leit svo ægilega stolt til baka á mig. Eftir það hjólaði hún nokkrar ferðir og ætlar út að hjóla þegar hún kemur heima af leikskólanum í dag. Frábært hjá henni.

Ífuskemmtun næstu helgi

Ég er búin að eyða nokkrum tíma þessa helgi í að undirbúa Ífuvorferðina næstu helgi. Við verðum í bústað rétt norðan við Akureyri. Það er búið að plana ýmiskonar dekur, útivist, menningu, veitingahúsaferðir og leikhúsferð. Þetta verður þvílíkt húsmæðraorlof að ég get ekki beðið. Það besta er að ég á einmitt afmæli næsta föstudag svo ég get notið afmælisdagsins í góðra vina hópi að gera eitthvað skemmtilegt. Eini gallinn við það er að Siggi er ekkert of kátur með að hitta mig ekki á afmælisdaginn en það kemur á móti að ég ákvað að fljúga suður á sunnudagsmorgninum til að koma og hitta fjölskylduna í fermingu í Hveragerði. Við erum hvort eð er á leiðinni heim á sunnudeginum og ég hefði þá bara hangið ein heima þar til seint um kvöldið og borað í nefið. Mér datt í hug um helgina að það væri miklu sniðugra að fljúga suður frá Akureyri, mæta í ferminguna og koma svo með Sigga, Ölmu og Maríönnu heim á sunnudagskvöldinu. Fyrir þá sem ekki vita þá er Marianna skiptinemi frá Þýskalandi. Hún verður 18 ára í sumar. Á reyndar sama afmælisdag og Manni vinur minn. Við höfum haft skiptinema áður. Það var fyrir tveimur árum. Sú stúlka heitir Waleska og er frá Venesúela. Hún býr í dag á Íslandi og stundar nám í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Næsta vetur erum við að spá í að taka aftur skiptinema. Þegar ég var yngri langaði mig alltaf að fara sem skiptinemi en foreldrar mínir höfðu ekki efni á þvi. Ég ákvað þá að þegar ég hefði tök á því myndi ég taka skiptinema inn á heimilið. Fyrir þá sem ekki hafa prófað mæli ég með því.

Launapirringur

Ég er ennþá pirruð síðan í gær þegar ég las það í Fréttablaðinu að kennarar eru með lægstu launin innan BHMR. Ég hafði svo sem  heyrt það en eins og litlu börnin sem reyna að gleyma óþægilegum staðreyndum þá hafði ég reynt að hugsa um eitthvað annað. Svona fréttir valda því að kennarastofan logar af umræðum og allir verða voða æstir og eiga svakalega bágt og mann langar mest til að pakka niður draslinu sínu og fara bara að svara á síma hjá einhverju einkafyrirtæki og fá meira borgað fyrir það!!!! Angry  Það er nú hægt að pirrast þegar krakkakvikindi nýkomin úr grunnskóla eru jafnvel að fá hærri laun en maður sjálfur!!! Hvað er símanúmerið í Bónus....???? Best að hringja og fá vinnu á kassa... það eru sennilega hærri laun... ja well, kannski ekki þar en samt................. urrrrrrrr Frown ... Helgin bætir örugglega skapið og ég vona að þið eigið góðar stundir elskurnar. Bið að heilsa ykkur öllum.

Skanna myndir á milljón!

Ég sit hér aftur við tölvuna og skanna myndir. Þarf að klára það áður en ég fer á fund klukkan 14 svo ég hef ekki mikinn tíma. Myndirnar voru teknar þegar við áttum 10 ára fermingarafmæli svo þær eru 15 ára gamlar. Það er svo gaman að sjá þessar gömlu myndir en ég verð að viðurkenna það mér til skammar að þó ég muni eftir öllum andlitunum þá man ég ekki nöfnin nema á kannski 60 - 70 % fólksins. Þetta er hálf skammarlegt, ég veit það en mér til vorkunnar þá var nú ekki eins og maður væri besti vinur alls þessa fjölda. Við vorum 5 bekkir og rúmlega 20 í hverjum bekk svo þetta hafa verið um 110 -115 manns. Það eru örugglega líka einhverjir sem eru búnir að gleyma hvað ég heiti Kissing  svo vonandi móðgast nú enginn.

Fermingarafmæli

Já vitiði bara hvað..... það er 25 ár síðan ég fermdist!!!!!!!!!! Shit... það er næstum eins og það hafi verið í gær. Ég var að kenna 8. bekk í vikunni og spurði þau um ferminguna þeirra. Flestir héldu fjölmennari fermingarveislur heldur en brúðkaupið mitt!!!! og allir fengu þvílíka formúgu fjár og gjafa að það var með ólíkindum. Ég er að spá í að fermast aftur, ja eða giftast aftur... hmmmm Siggi væri líklega ekki mjög ánægður með það... hehe he eða bara halda upp á fertugsafmælið á næsta ári !! he heWizard  Mér finnst mjög gott framtak hjá nokkrum bekkjarfélögum að setja upp síðu þar sem hægt er að spjalla og skiptast á skoðunum. Nokkrir eru þegar farnir að tjá sig og aðrir eru líklega ekki ennþá búnir að frétta af síðunni og eru að komast í gang. Það er allavegana eitt sem víst er og það er að ég ætla að mæta þó ég þurfi að standa með tinkönnu í Kaupfélaginu og betla í mánuð til að eiga fyrir því. Ekki að ég búist við að þurfa þess en þið "get the point"!!!!

Bílstjórar að pirra vegfarendur

Mér finnst alveg frábært að loksins skuli finnast hópur fólks á Íslandi sem nennir að rísa upp af rassgatinu, hætta að röfla yfir eldhúsborðið og virkilega krefjast athygli yfirvalda á vanda sínum. Ég styð baráttu þeirra heilshugar því nái þeir árangri mun það ef til vill einnig gagnast okkur hinum. Ég skil ekki þegar fólk kvartar yfir því að aðgerðir þeirra bitni á öðrum. Skilur fólk ekki að mótmælaaðgerðir skila ansi litlum árangri ef þær bitna ekki á einhverjum? Mér finnst einmitt að bílstjórarnir hafi verið eins tillitssamir og hægt er miðað við aðstæður með því að tefja umferðina ekki of lengi á sama stað. Well það var svo sem ekki eins og ég lenti í því að sitja föst í umferð en það er kominn tími til að láta í sér heyra og ekki láta alltaf valta yfir sig án þess að mótmæla. Áfram bílstjórar!!!! LoL

Vorið kemur vonandi einhverntímann

Ég er orðin ansi leið á kulda, snjó, hálku, kulda, vindi og meiri kulda! Eftir að ég missti fóðringuna er ég alltaf að drepast úr kulda og get bara ekki beðið eftir sumrinu. Það verður bara dásamlegt að þurfa ekki alltaf að vera dúðaður þegar maður fer út að ég tali nú ekki um að geta verið í sólbaði. Ástæðan fyrir því að ég er að pirra mig á þessu núna er að það er snjókoma úti!!!!! Arg.......  og svo sagði Siggi stormur í gær að það væru engin hlýindi í kortunum enn sem komið er. Ég ætla bara rétt að vona að þetta verði farið að skána þegar ég fer í Akureyrarhúsmæðraorlofið mitt með Ífunum. Þetta verður bara snilld. 3 nætur í sumarbústað rétt fyrir utan Akureyri, drukkið rauðvín í pottinum á kvöldin, farið í nudd og dekur, leikhús, söfn, út að borða og svo erum við með leyniatriði sem ég þori ekki að segja frá núna ef einhver þeirra skyldi óvart sjá þetta!!!!!! En það verður geggjað. Besta er að ég á einmitt afmæli daginn sem stílað er inn á að vera í dekri frá morgni til kvölds og ég hlakka mikið til. Allar húsmæður þyrftu að skreppa svona í burtu frá heimilisstörfunum og dekra við sig í góðra vina hópi að minnsta kosti einu sinni á ári. Wizard

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband