Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Þorrablót og Dóra um helgina :)

Ég hlakka til helgarinnar enda nóg um að vera. Það er þorrablót á föstudaginn úti á Skaga og við skötuhjúin ætlum á það ef heilsan mín leyfir. Ég var að reyna að fá Sigga til að fara þó ég væri slöpp og vildi helst vera heima en nei nei bæði þurfum við að vera píslavottar því hann vill ekki fara nema ég komi líka og ég vil endilega að hann fari og gæti því pínt mig til að hann missi ekki af þorrablótinu..!!!! Það á eftir að koma í ljós hvernig þetta fer. Ég er búin að pína mig í vinnu alla vikuna þrátt fyrir að ég hefði frekar átt að vera heima (samkvæmt læknisráði) og mig langar takmarkað til að mæta með rautt nef og þrútin og bólgin, rauðleit augu á þorrablót og hósta svo og hnerra yfir matinn hjá öðrum. Mátulega geðslegt :)

Á laugardaginn kemur svo Dóra vinkona loksins aftur á Krókinn og þá ætlum við að fá okkur smá rósavín á náttfötunum áður en hún skellir sér upp í rúm. Hún gistir hjá mér með helminginn af gríslingunum og Hallgrímur hjá pabba sínum með hinn helminginn. Á sunnudeginum verður svo nóg að gera að bera allt draslið inn í hús :) Á mánudaginn ætlum við Dóra og Þorgerður svo að kaupa okkur 3ja mánaða kort í ræktina (ég kalla það bikinikortið.... !!!!!!) og vera duglegar fram á vorið. Á sumrin er svo miklu skemmtilegra að fara bara í sund, út að hjóla, vinna í garðinum og fara í göngutúra.

Núna ætla ég í bælið með nýju bestu vinum mínum þeim hr. pensilíni og frú paratabs...... he he he góða nótt


Tíðindalítil helgi

Um helgina "naut" ég þess að vera veik án þess að þurfa líka að vera að vinna innan um fullt af fólki. Hékk í rúminu fram að hádegi og las og tók því svo rólega yfir daginn. Það breytti engu... ég er alveg jafn lasin og ég er búin að vera síðustu viku en mætti samt í vinnuna Sick. Þetta er óþolandi, ég er búin að vera hóstandi og með kvef í rúma viku og ekkert gengið að batna.... arg... garg...  óp...´öskur.... vein .. og læti :) he he he

Ég fór á Ífufund í gærkveldi þar sem við ákváðum 6 að fara í vorferðina. 2 eru óákveðnar eða búast ekki við að fara. Þetta eru snilldarferðir þar sem dekri, mat, menningu, víni og óvæntum atburðum er raðað saman í frábæra húsmæðraorlofsferð í 3 nætur...... !!!!! Mæli hiklaust með þessum ferðum þar sem þær hlaða batteríin í marga mánuði á eftir. Þar sem margt er gert eru ferðirnar hins vegar ekki sérlega ódýrar og við erum vanar að safna frá hausti en núna höfum við mun skemmri tíma til að safna en það verður ekki vandamál. Í fyrra fórum við á Akureyri, vorum í bústað, fórum með snjótroðara á Kaldbak og renndum okkur niður á snjóþotum, fórum í leikhús, út að borða, pottinn, föndur og söfn ásamt fleiru. Ég hlakka mikið til að fara næstu ferð sem verður væntanlega 23. - 26. apríl. Afmælið hennar Ölmu er einmitt 26. svo það verður nóg að gera hjá mér þegar ég kem heim aftur að undirbúa afmælið hennar og taka á móti gestum.

Á morgun er svo prjónakaffi og þá er ekki spurning að maður mætir og spjallar við vinnufélagana yfir prjónunum.


Helgarfrí

Ég kom heim í gær frá Reykjum eftir vel heppnaða ferð. Krakkarnir höguðu sér vel og skemmtu sér frábærlega. Þessi reynsla á örugglega eftir að fylgja þeim lengi og minningarnar ylja þeim þegar þau hella sér út í að fjölga vinunum á msn :)

Ég var veik allan tímann á Reykjum en hélt því þokkalega niður með Paratabs.... takk þeim sem fann það upp :) Skellti einnig í mig hóstamixtúru og hálstöflum eftir þörfum. Í dag er ég búin að vera hálf slöpp og því gert lítið af viti. Skellti mér þó í Skaffó að skoða myndavélar því ég fékk nóg af minni á Reykjum. Hún er bara einfaldlega orðin frekar slöpp greyið. Ég ætti að eiga fyrir nýrri um næstu mánaðarmót en annars um þarnæstu svo mér datt í hug að skreppa og kíkja svo ég vissi hvað ég þyrfti mikinn pening. Væri svo sem alveg til í að eiga rándýra "professional" vél en tími því örugglega ekki í þessu lífi :) he he

Er búin að vera að prjóna Baby Born peysur fyrir Ölmu til að gefa í afmælisgjafir. Hún á eftir að fara í slatta af stelpuafmælum í bekknum sínum og það má bara kaupa afmælisgjöf fyrir 500 kall. Það er mjög erfitt að finna eitthvað fyrir þann pening svo mér datt í hug að búa til svona gjafir fyrir hana. Ég er þegar búin að búa til peysu og buxur fyrir hana og Örnu dúllu (vinkonu hennar) og svo eru komnar 7 peysur aukalega.

Jæja þá er bóndinn kominn heim og vinur hans á leið í mat... já Dóra.. Hallgrímur ætlar að borða með okkur lambabóg og kindahrygg... nammi nammi namm.... bráðum getur þú líka borðað með okkur :) he he he


Reykjaskóli í Hrútafirði

Þá er ég stödd á Reykjum og það er dagur 2 !!! Fyrsti dagurinn gekk alveg bráðvel þó fyrirsjánlegir hlutir eins og einhver veikindi og heimþrá hafi örlítið gert vart við sig. Krakkarnir hafa verið að  blandast hinum skólunum sem eru jú alltaf eitt aðalmarkmiðið og þau eru stillt og hegða sér vel. Við vorum ægilega ánægð í morgun þegar okkar skóli var sá eini sem mætti stundvíslega í morgunmat!!!! Það þurfti að bíða í 10 mínútur eftir nokkrum syfjuðum úr hinum skólunum :) he he he svo sem ekki skrýtið eftir fyrstu nóttina... þá er spennandi að pískra fram eftir nóttu :)

Við erum líka búin að vera ótrúlega heppin með veður. Það er milt, stillt og bjart!!!!! Gerist ekki betra í janúar og við vonum bara að það haldist svona. Meira seinna, það er að koma hádegismatur og það er eins gott að sýna gott fordæmi og mæta á réttum tíma... he he


Ég skrifa og skrifa og svo er að pakka á eftir

Ég er búin að vera dugleg um helgina, hef skrifað og leiðrétt og lagað í bókinni enda þarf ég að skila af mér því sem ég er búin með í kvöld :)

Þarf svo að pakka á eftir svo allt draslið sem fer á Reyki verði tilbúið. Ég er viss um að þetta verður miklu meira dót en ég á von á þegar allt er komið í töskuna. Mér finnst nefnilega betra að hafa of mikið með mér en of lítið svo ég á von á að fylla a.m.k. heila ferðatösku... he he he

Ég ætla að taka með mér bunka af verkefnum til að fara yfir því það styttist í annarskil og ég var að fá verkefni hjá 9. bekk sem er mjög seinlegt að fara yfir. Það tekur mig óratíma að fara yfir þetta en svona er það bara,... partur af programmet!!

Þegar ég kem heim frá Reykjum býst ég við að við skreppum í sveitina til að sækja Ölmu þar sem hún verður þar mestalla næstu viku. Það er svo erfitt að hafa hana heima því Siggi er að vinna svo óreglulega og stelpurnar eru oft í skólanum langt fram á dag og lengur heldur en hún er í gæslu. Ætli við gistum ekki eina nótt eða jafnvel tvær í sveitinni og slöppum af. Ég hugsa að ég þurfi að sofa og sofa og sofa og sofa :) he heh e


Bloggleti

Ég verð að viðurkenna að eftir að ég fór að leika mér á facebook í haust hef ég bloggað aðeins minna enda miklir tímaþjófar á ferð. Það er búið að vera mikið að gera hjá mér undanfarið við að skrifa í bókinni og svo að undirbúa ferð á Reyki með nemendur í 7. bekk. Við leggjum af stað næsta mánudag og komum heim á föstudeginum. Ég mun því líklega ekki blogga mikið á meðan enda næg dagskrá frá morgni til kvölds. Það verður verra að hafa ekki litlu snúlluna mína til að knúsa á hverju kvöldi en hún verður bara knúsuð í klessu þegar ég kem heim aftur. Líklega verður hún nokkra daga í sveitinni hjá afa og ömmu á meðan og hjálpar afa í húsunum. Gelgjurnar verða að ganga nokkuð sjálfala á meðan en Siggi verður að vísu með annan fótinn heima og getur fjarstýrt þeim. Meira seinna.

Helvítis fokking fokk....... :)

Er ennþá með þessa leiðinda magapest. Sit við tölvuna og reyni að nýta þá tímann í að skrifa fyrst ég kemst ekki í hina vinnuna en klýjar stöðugt og er að drepast í maganum Angry . Prófaði í gær að taka tvær mismunandi verkjatöflur við þessu en ekkert virkaði. Vona bara að þetta dragist ekki enn á langinn. Get þó sagt að líðanin er aðeins betri í dag en í gær en það hrellir mig aðeins að Siggi fékk einhverja svona pest á milli jóla og nýjars og hann var í 4 daga og sá 3 var verstur!!! Það sem mér finnst þó leiðinlegast er að ég þurfti að taka þá ákvörðun í morgun ásamt hinum kennaranum í 7. bekk að fresta bekkjarskemmtun sem vera átti á morgun um óákveðin tíma. Það átti að vera með skemmtiatriði fyrir foreldra og gista í skólanum en þar sem óvíst er hvort ég kemst í vinnuna á morgun er ekki hægt annað en að  blása þetta af þar sem ég get heldur ekki undirbúið börnin. Þessvegna segi ég enn og aftur... helvítis fokking fokk!!! og hana nú FootinMouth

Nýja árið byrjar vel

Ég er nokkuð ánægð með það sem liðið er af nýja árinu. Veðrið er búið að vera ágætt og ég er búin að vera dugleg að hreyfa mig, hitta fólk og hafa það gott. Hafði hugsað mér að láta restina af árinu einnig ganga vel.

Eftir tvær vikur fer ég með nemendur mína á Reyki í 5 daga. Ég átti að fara fyrir tæpum 7 árum en þá var ég kasólétt af Ölmu, greindist með meðgöngusykursýki viku áður en ég átti að fara og var kyrrsett... he he. Núna stefnir þó allt í að ég muni komast þangað og verður það örugglega gaman. Ég verð samt að viðurkenna að mig langar minna að fara núna en mig langaði fyrir 7 árum en það er bara vegna þess að nú á ég barn sem ég þarf að skilja eftir í 5 daga. Við mæðgurnar erum dálítið háðar hvor annarri svo ég kvíði aðeins fyrir. Það verður samt nóg um að vera svo ég veit alveg að ég fæ ekki mörg tækifæri til að sakna hennar.

Ég vaknaði í morgun með klýju dauðans en ákvað að hundsa hana og skellti mér í sturtu. Var nýkomin úr henni þegar ég þurfti að æla og í kjölfarið fór ég að finna fyrir magaverkjum. Ákvað því að sleppa því að mæta í vinnuna í dag enda óþarfi að smita alla og vera sjálfur að drepast. Engum er greiði gerður með því. Ætla samt að reyna að nota daginn eitthvað ef heilsan leyfir. Sit við tölvuna núna og ætla að kíkja á bókarskrudduna sem ég er að skrifa. Sé svo til hvað ég hangi í uppréttri stöðu.


Áramótaheit eða ekki áramótaheit

Það eru komin mörg ár síðan ég setti áramótaheit síðast og ég setti svo sem ekki eitthvað formlegt áramótaheit heldur  núna. Ég ákvað hinsvegar að það væru nokkrir hlutir sem mætti alveg endurskoða öðru hverju. Eitt af því sem ég ákvað að gera er að skammast í ræktina eftir áramót...... Verð að viðurkenna að ég var löt í haust og fór bara nokkrum sinnum en það er mér nauðsynlegt að hreyfa mig til að mér líði vel andlega og til að ég falli ekki aftur í offitu en það ætla ég ekki að láta gerast. Ég finn alltaf hvernig ég fæ meiri orku þegar ég hreyfi mig (Siggi vill meina að ég verði ofvirk ... hehe) og líður á allan hátt betur.

Ég ákvað einnig að rækta betur vini mína því samhliða skorti á hreyfingu hef ég verið dálítið löt að fara í heimsóknir í haust. Það er nú ekki eins og þeir eigi allir heima langt í burtu, ein býr t.d. í næstu götu og ég er c.a. tvær mínútur að rölta þangað. Hef samt farið sjaldan síðustu mánuði og bara af einhverri leti og doða sem ég þarf að rífa mig uppúr.

Mér finnast þetta eiginlega fjári góð markmið fyrir nýtt ár. Rækta líkama og sál. Verð hrikalega fit og skemmtileg þegar fer að líða á árið.... he hehe

Svo ákvað ég að halda áfram að vera dugleg að gera eitthvað skemmtilegt með Ölmu. Við höfum verið duglegar að fara saman í gönguferðir, fjöruferðir, spila og fleira og ég ætla að passa upp á að það breytist ekki. Það er mér mjög mikilvægt að eyða tíma með henni við eitthvað sem við höfum báðar gaman að.

Ég ætla líka að stressa mig minna á ryki, drasli og öðru sem mér finnst ég þurfa að ráða bót á núna strax..... Ég er ferleg með það að ég á erfitt með að slaka á og njóta lífsins fyrr en allt er orðið fínt!!!!! Þvílík della en svona var ég alin upp og það er hægara sagt en gert að breyta þessu. Ég byrjaði þó um jólin því ég nennti ekki að þurrka af og ákvað að sleppa því bara..... vá það var ekkert smá erfitt en vitiði bara hvað.... ég lifði það af (ekki að neinn hafi tekið eftir því þar sem það er yfirleitt ekkert svakalega skítugt heima hjá mér... he he he) og ætla að halda áfram að stíga svona baby steps... :)

 


Nýtt ár mikilvægt að horfa fram á við.

Við áttum góðan dag í gær. Sváfum lengi og lágum svo í leti fram undir hádegi. Alla granna (nágrannA) he he kíkti aðeins við og svo skruppum við í búð c.a. 2 mínútur í hádegi. Rétt náðum fyrir lokun. Fengum okkur svo hádegismat og eftir það kom Þorgerður i heimsókn. Krakkarnir nutu þess að leika sér saman og við fórum með þau út og leyfðum þeim að fá stjörnuljós. Við fórum svo og keyptum flugelda en vorum svo sein að flest var búið nema rándýrar kökur og stjörnuljós.... he he Siggi varð frekar fúll en ég benti honum á að nágrannar okkar eru sprengjuóðir og ekkert verra að  horfa á aðra kveikja í peningunum sínum!!!!! Við keyptum því frekar lítið en nóg fyrir Ölmu því hún var skíthrædd við þetta. Eftir þetta var farið i kirkjugarðinn að leita að nokkrum leiðum afa og ömmu Sigga og frænda hans. Við fundum þetta nú allt fyrir rest og vorum þá búin að ganga um stóran hluta garðsins. Alma hafði sérstaklega gaman af því að lesa á krossana og spá í hvað fólkið var gamalt þegar það dó. Hún hefur mikið verið að spá í Ölmu Kareni ömmu sína síðan við fórum með pabba út í kirkjugarð í Keflavík þegar við vorum þar og áðan fór hún að skæla yfir því að hafa ekki fengið að hitta hana..... voða sætt en ég verð að viðurkenna að ég táraðist við þessa umræðu! Við fengum okkur svo smá göngutúr í góða veðrinu og fórum svo heim að undirbúa kvöldmat og skipta um föt. Alma var í rosalega flottum prjónakjól sem ég prjónaði fyrir hana (ja svona á milli þess sem henni varð of heitt og fór þá úr honum og í pils!!!!). Afi og amma úr sveitinni komu í kvöldmat og svo fórum við niður að sjó þar sem var brenna og flugeldasýning. Maður hittir alltaf hálfan bæinn þar en núna komum við svo seint og Alma var svo hrædd við flugeldana að Siggi varð að fara með hana út í bíl. Við hittum samt nokkra og var það gaman. Þegar við komum heim náðum við réttsvo að ganga frá í eldhúsinu þegar Dóri frændi Sigga kom, Ásta Karen konan hans, Eysteinn Bessi og Björgvin ásamt Kötlu gelgju og Katrínu gelgjuvinkonu hennar. Við plötuðum þær til að taka Elínu með á áramótaball á Blönduósi. Þetta er árlegt 16. ára ball og krakkarnir í 10. bekk bíða alltaf spennt því þetta er  fyrsta alvöruballið sem þau komast á. Mér skilst á henni að það hafi verið gaman og er það hið besta mál. Við hin spjölluðum, átum osta og meðlæti, skutum upp og kjöftuðum svolítið meira. Gestirnir fóru klukkan 2 og þá fór Alma að sofa. Hún fékk að fara út með Eysteini sem er 10 ára og vini hans og voru þau (lesist þeir því hún var hrædd og stóð langt frá ) að skjóta upp allskonar smádrasli fyrir utan húsið. Henni fannst mest spennandi að fá að vera úti um nótt og það með spennandi stórum strákum....... hún verður einhverntíman góð :) he he he  he

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband