Nokkrar staðreyndir um mig sem þið vissuð kannski ekki áður

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina

Árskóli (kennsla), en hef einnig unnið í Snælandsskóla og Melaskóla

Guðmundur Jónasson (gistiheimili og eldhúsbílar) 

Fríhöfnin (venjuleg verslunarstörf)

Íslenskur Markaður (verslunar og lagerstörf)

Hef auk þess unnið með skóla við þrif, í fiski og í sjoppum eins og flestir.

Fjórar bíómyndir sem ég held uppá

Allar Harry Potter myndirnar... ég bara elska ævintýri og galdra :)

So much ado about nothing

Grease

Die Hard myndirnar

Fjórir staðir sem ég hef búið á

Keflavík ( þar ólst ég upp)

Reykjavík (flutti þangað þegar ég fór að heiman og var í skóla)

Kópavogur (bjó þar í 5 ár)

Sauðárkrókur (bý þar núna)

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar

ÆÆÆÆÆiiiii verð að viðurkenna að svona lágkúrulegir raunveruleikaþættir höfða til mín, t.d. Americas next top model, survival og fleiri þættir um tísku, breytingar á fólki og samskipti

CSI, allar týpurnar

House... bara snilldartýpa, óþolandi en samt svo sjarmerandi og fyndinn

Simpson, horfi á hverjum degi með Ölmu

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum

Ísland ( hef komið um allt land og bara eftir nokkrir afleggjarar hér og þar )

Svíþjóð ( hef farið þangað nokkrum sinnum og er mjög hrifin af landinu)

Danmörk ( hef komið nokkrum sinnum en núna langar mig aftur að heimsækja Sibba litla bróðir)

Spánn ( skrapp til Tenerife í sumar)

Hef komið til fleiri landa en læt þetta duga

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan að blogga

mbl.is

visir.is

mentor.is

facebook.com

Fernt sem ég held uppá matarkyns

Lambakjöt

Folaldakjöt, smakkaði það fyrst í fyrra og féll alveg fyrir því

Ís, ís og meiri ís

súkkulaði

ávextir

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft

Harry Potter bækurnar

Gömul barnabók sem mamma átti og heitir Karen

Matreiðslubækur

Barnabækurnar hennar Ölmu

 

Ég skora á vini mína að svara þessum spurningum


Bakað og bakað...

Ég var heima með Ölmu veika í gær og til að hafa ofan af fyrir henni vorum við í eldhúsleik mestallan daginn. Fyrst var bakað brauð til að hafa í hádeginu, svo kaka í kaffinu og loks eldaði hún matinn með mér. Henni finnst svo gaman að elda og baka. Hún var áðan í heimilisfræði í skólanum og ég kíkti niður í stofu og gaf henni smá mömmuknús. Hún ljómaði auðvitað og vildi nú helst ekki að ég færi enda ákveðin forréttindi að mamma geti kíkt á mann í skólanum. Ég tók mig líka til í gær og ákvað að fara í gegnum herbergið hennar. Það fóru tveir haldapokar í ruslið og þrír í rauða krossinn. Ég þurfti samt aðalleg að passa að hún týndi ekki aftur upp úr pokunum.... he he he

Réttir síðustu helgi og berjafargan

Við fórum með tengdamömmu út á Malland á föstudaginn en Siggi hafði farið úteftir á fimmtudaginn til að hjálpa með smölun á heimalandinu. Við létum okkur bara líða vel um kvöldið en daginn eftir fórum við Alma og Elína snemma í réttirnar. Það kom alveg óvenjumikið af fólki sem var mjög skemmtilegt. Ég talaði við marga en komst samt ekki yfir að tala við alla sem ég sá og þekkti því það voru svo margir. Gísli og Gerður komu með húsbílinn og við stelpurnar héldum partý í honum. Átum snakk og skemmtum okkur. Meðan við biðum eftir safninu (þessum 200 kindum eða svo) týndum við heilu dósirnar af krækiberjum. Það er alltaf allt svart í þúfunum við réttina og í ár var engin undantekning. Það var óvenjumikið af berjum þar sem og annars staðar í Skagafirði. Á sunnudeginum fórum við svo upp í Draumaland (bústað Gísla og Gerðar) og týndum þar  bláber og meira af krækiberjum. Þar sá ég þau stærstu krækiber sem ég hef á ævinni séð. Þau voru stærri en stærstu bláber og sæt og safarík eftir því. Ég týndi þau í sérstakan poka, keypti skyr og rjóma í kvöldmatinn og nammi nammi nammi namm!!!! Í gær sauð ég bláberjasultu og setti á krukkur og í dag eða á morgun ætla ég að gera saft úr krækiberjunum. Þegar því er lokið ætla ég að búa til Sagó sætsúpu. Þetta fékk ég alltaf sem krakki og finnst algert æði. Ég hef oftast búið hana til árlega en bara keypt saftina en núna langar mig að gera þetta náttúrulegra. Alma er búin að vera veik og í morgun bökuðum við fléttubrauð og borðuðum svo volgt brauð í hádeginu með nýrri bláberjasultu. Alger snilld!!!1

Tannálfurinn og stríðni í skólanum

Ég má til að segja ykkur litla sögu af dóttur minni. Þannig var að um daginn missti hún tönn og eins og reglur gera ráð fyrir setti hún hana undir koddann fyrir tannálfinn og bjóst auðvitað við miklum fjársjóði daginn eftir. Það lét ekki á sér standa og þegar hún vaknaði lágu nokkrir peningar undir koddanum og tönnin var farin. Stelpuskottið ákvað að setja peningana (án þess að mamman tæki eftir) í litla buddu sem fylgir nýju skólatöskunni og fór með peningana í skólann. Þegar hún kom heim sýndi hún mér langan renning af mjólkurmiðum sem hún hafði keypt fyrir peningana frá tannálfinum......... Henni hafði eitthvað leiðst að bíða eftir því að mamma hennar drifi sig í að kaupa mjólkurmiða (sem mér fannst óþarfi þar sem hún drekkur næstum alltaf bara vatn.....!!!) svo hún notaði tækifærið þegar henni áskotnaðist þessi litli fjársjóður og keypti bara mjólkurmiða sjálf..... he he he he he bara fyndið!!!!

Núna er aðal málið að fá að fara í skólarútunni í skólann og koma með rútunni heim aftur. Henni finnst það alveg hámark flottheitanna að fara með rútu í skólann svo ég neyðist líklega til að kaupa nokkra rútumiða og leyfa henni að prófa. Það getur nú líka stundum komið sér vel fyrir hana að kunna þetta, t.d. ef ég veikist en ekki hún (það er nú reyndar sjaldgæft en hver veit).

Ég varð hálf leið í fyrradag fyrir hennar hönd því það voru 2 stelpur að setja út á fötin hennar í skólanum. Hún var í flottum bleikum kvartbuxum en NEI bleikt er sko leikskólalitur og auk þess fannst þessum ungu dömum buxurnar hennar ekki nógu flottar. Mín dama varð auðvitað sár við bekkjarsysturnar en  hún talaði við kennarann í gær sjálf og það var rætt við þessar tvær ungu tískulöggur!!!!! Þetta byrjar snemma.....

 


Sirkus á Sauðárkróki

Við mæðgur skelltum okkur í Sirkus á mánudagskvöldið og skemmtum okkur konunglega. Mér fannst reyndar alveg fáránlegt að auglýst verð á Sirkusnum var hærra en það sem maður þurfti að borga og ég veit um marga sem fóru ekki af því að þetta var svo dýrt. Samkvæmt auglýsingunni átti að kosta 3900 fyrir eldri en 13 og 2500 fyrir 12 ára og yngri. Þegar ég kom í biðröðina sá ég að sætin voru misdýr eftir því hve nálægt þau voru. Barnasætin kostuðu 2000, 2500 og 3000 en fullorðinssætin voru á 2500, 3500 og 4500. Ég hafði búist við að borga 6400 en þurfti bara að borga 4500. Maður hefði nú haldið að það væri ekki mikil skynsemi í því að auglýsa hærra verð en svo skilst mér jafnvel að verðið hafi verið annað í forsölu. Við drifum okkur í Sirkus þrátt fyrir hátt verð af því að þetta var svona "once in a livetime experience"!!!!! en nei.... það kemur víst annar sirkus í næstu viku. Hann er frá Kína.......!!!! Fáránleg skipulagning. Ætli það komi svo tívolí í þarnæstu viku ..... he he he he. Held að skipuleggjarar ættu að hafa eitthvað samráð svo svona komi ekki fyrir. Ég veit það allavegana að ég ætla ekki að borga fyrir annan sirkus viku síðar. Í gær fórum við stelpurnar, ég, Alma og Elína og keyptum okkur pizzu á Ólafshúsi. Ölmu finnst ganga eitthvað hægt að læra að lesa í skólanum svo hún las matseðilinn í þaula.... he he svona auðveldari orðin. Náði alveg að lesa setninguna: Eplakaka með ís og rjóma (þurfti bara upprifjun í hljóðunum p og j en mundi hin sjálf). Rosalega dugleg stelpa. Það eru göngur og réttir um helgina og þá förum við í sveitina til afa og ömmu. Ég man ekki hvort ég var búin að segja það hérna en Siggi hætti að reykja í sumar og þvílíkur munur....!!!!! Þetta er alger sæla. Hann tók töflur til að hjálpa sér sem svínvirka alveg. Mæli með þeim ef þið eruð í þessum  hugleiðingum.

Óvissuferð

Það leit nú ekki vel út með þessa óvissuferð seinnipartinn á föstudaginn. Það kom nefnilega í ljós að maðurinn minn var veðurtepptur í Reykjavík á föstudaginn og alls óljóst með hvenær hann kæmist af stað heim. Það var brjálað rok undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi svo allir flutningabílar voru kyrrsettir. Hann sat og bölvaði í Reykjavík og ég fyrir norðan. Þetta reddaðist nú samt sem áður því mér tókst að plata Þorgerði vinkonu mína til að hafa Ölmu yfir nóttina því ég vissi ekkert  hvenær Siggi kæmi heim. Það kom nú svo í ljós að hann kom líklega heim áður en hún sofnaði en við vildum ekki vera að hræra eitthvað í henni og létum hana bara vera. Af óvissuferðinni er hinsvegar það að frétta að "what happens in óvissuferð....stays in óvissuferð...." Gott mottó en ég get þó sagt ykkur að við fórum og dönsuðum í Hólaskógi, fengum veitingar í samgönguminjasafninu á Stóragerði hjá Sollu og eiginmanni og enduðum í einhverju litlu félagsheimili við Kolkuós. Þar var matur, heimatilbúin skemmtiatriði og dans fram að miðnætti. Í rútunni á leiðinni heim var ég enn í stuði svo ég hringdi heim og vakti Sigga. Ég spurði hann hvort honum væri sama þó ég kæmi heim með hálfa rútu af syngjandi kennurum og öðru starfsfólki!!!! Hann hélt það nú enda eru kennarar með skemmtilegra fólki sem hann vissi auðvitað. Það voru líklega um 15 manns heima að syngja þegar mest var en í restina vorum við ekki nema 6 sem sátum og spjölluðum. Mjög skemmtileg ferð eins og alltaf. Í gær fór Siggi svo á Höskuldsstaði að hjálpa Gesti að smala og við stelpurnar kíktum einnig. Það var svo brunað í sveitina til afa og ömmu og mætt mátulega í kvöldmat. Í morgun var járnað og við sátum og horfðum á öldurnar, fórum í göngutúr, bíltúr og berjamó. Á eftir ætla ég svo að galdra fram girnilegan kjúklingarétt.

Óvissuferð á morgun

Á morgun ætlar starfsfólk skólans í sína árvissu óvissuferð og ætla ég sko ekki að láta mig vanta. Þetta eru snilldarferðir og alltaf eitthvað skemmtilegt gert. Eitt árið sigldum við að vísu út í Hofsós í frekar djúpri undiröldu og ég var frekar slöpp þegar við komum þangað. Þegar upp á land var komið bauð svo nefndin upp á GRÆNAR samlokur... alveg án gríns. Fengu bakarann til að setja grænan matarlit í samlokubrauð og smurðu svo úr þessu ágætar brauðsneiðar..... he he he he bara fyndið. Eitt árið var einum kennara rænt af heimili sínu. Hann hafði ekki ætlað að fara en rætt var við konuna hans og undirbúið rán. Rútan stoppaði fyrir utan, nokkrir karlmenn stukku út og drógu hann út í rútu. Hann þóttist berjast á móti svona þegar konan hans sá til en svo lagaðist það nú... hehehe Það verður örugglega ekki síðra núna. Það er búið að skipta okkur upp í hópa og hver hópur fékk lit. Ég er í græna liðinu og við ætlum að hittast eftir vinnu í dag til að skipuleggja okkur fyrir morgundaginn.  Svo er eitthvað hestastúss og fleira fyrirhugað um helgina svo enginn þarf að láta sér leiðast. Datt í brjálaða stemmingu í gær við að fylgjast með þegar STRÁKARNIR OKKAR komu heim. Til hamingju aftur!!!!!!

Alma byrjuð í skóla!!!

Litla barnið mitt er byrjað í skóla..... LoL . Ég fylgdi henni alveg inn í stofu á þriðjudagsmorgun og hún var ákaflega ánægð eftir daginn. Hún hafði setið á milli tveggja vina sinna og það sem stóð uppúr var að leika sér í frímínútunum...... það byrjar snemma Pinch . Hún fór í skoðunarferð um skólann, í frímínútur, borðaði nesti (sem var auðvitað rosalega spennandi!!!!!) og fór í teiknitíma og teiknaði og litaði. Svo sagði hún mér að einhverjir strákar hefðu verið að kasta púðum í spjallhorninu en hún og annar strákur hefðu verið að skamma þá og reyna að ganga frá púðunum...... YEAH right!!! Ég þekki nú mína dömu og hún hefur örugglega tekið fullan þátt í þessum koddaslag eða hvað þetta var.... he he he Grin . Þetta verður líklega fjörugur bekkur og mikið stuð. Hún var svo spennt fyrsta daginn að hún var vöknuð korter yfir 6, mér til lítillar gleði. Svo þegar hún kom heim tók hún nestisboxið, henti því sem var afgangs og vaskaði boxið upp og þurrkaði það!!!! Það að vera með nestisbox og borða nesti í skólanum finnst henni ákaflega spennandi.

Áfram áfram áfram Ísland..... og við vinnum þennan leik !!!!!

Þetta er auðvitað bara frábært....... Íslendingar í 1 eða 2 sæti á Ólympíuleikunum í handbolta. Ekki hefði mér dottið það í hug áður en leikarnir byrjuðu. Árskóli gaf handboltafrí í dag kl. 12 svo allir nemendur og starfsfólk gæti drifið sig heim og horft á leikinn. Ég hugsa að umferðin hafi verið eitthvað minni en venjulega á meðan á leiknum stóð. Til hamingju strákar Grin . Ég er annars á leiðinni til Keflavíkur og nota tækifærið til að blogga meðan bóndinn er í sturtu. Svo á bara að drífa sig af stað. Ætlum að hafa það gott en einnig sækja Elinu skiptinema á sunnudaginn og fara með hana heim. Muna svo...... ennþá vantar nokkrar fjölskyldur svo ef einhver er að spá, þá er  bara að hringja í AFS og sækja um.

Skólasetningar í dag

Þá er skólinn að byrja og ég búin að vera á tveimur skólasetningum í dag og sú þriðja á eftir. Alma er að byrja í skóla og á morgun mætum við foreldrarnir með hana í viðtal við umsjónarkennara. Hún átti að mæta kl. hálf níu en það er alveg glataður tími fyrir mig  því þá er ég nýbúin að taka á móti mínum eigin umsjónarbekk og hefði þurft að hlaupa strax út. Jóna Hjalta umsjónarkennarinn hennar ætlar því að hitta okkur kl. 7:50 og geri aðrir betur... frábær þjónusta hjá henni að hitta okkur svona snemma. Málið er að Siggi er í fríi og hann hefði alveg getað farið einn með henni en þetta er nú eina barnið mitt og ég er ekki minna spennt fyrir þessu en hún og mig langaði líka til að vera með. Jóna elskan gerði þetta því fyrir mig svo ég kæmist líka... takk takk fyrir það LoL . Alma fékk að nota nýja pennaveskið til að teikna mynd handa kennaranum til að afhenda henni í viðtalinu og það var sko spennandi.... he he he he. Ég man svo sem sjálf eftir því hvað mér fannst spennandi að byrja í skólanum og það var tekin mynd af mér fyrir utan húsið með skólatöskuna á  bakinu svo ég ætla að taka eins mynd af Ölmu næsta þriðjudag þegar kennsla hefst hjá henni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband