29.7.2008 | 11:54
Nóg að gera
Þá er maður kominn heim eftir enn eina helgina að heiman. Verð að segja að mér finnst nóg um fjarverur að heiman þetta sumarið. Maður er varla búinn að slaka á og njóta þess að vera í garðinum. Á móti kemur að við erum búin að gera ýmislegt og hafa það að öðru leyti gott. Dvölin í Keflavík var skemmtileg og ekki síður tíminn á Tenerife en nú er nóg komið og maður þráir bara að vera heima. Við vorum á ættarmóti síðustu helgi í Sigga fjölskyldu og vorum við sérstaklega heppin með veður. Ég man ekki til þess að hafa áður getað farið út úr húsi á Skaga í stuttbuxum!!!! Mér finnst alltaf vera þungbúið, þoka eða kuldi enda stendur bærinn hjá tengdó við sjóinn og alltaf hafgola sem getur verið ansi köld. Núna var hinsvegar blíðskapar veður og maður naut þess að slaka á og spjalla. Ég er annars á fullu við að skrifa nema í svona stöku bloggpásum og það gengur ágætlega. Þurfti samt að undirbúa mig í gær fyrir næstu viku þar sem ég verð að passa gistiheimili hér á Króknum. Var að læra á allt klabbið og mæti svo á fimmtudaginn og verð fram á næsta fimmtudag. Þá ætlum við á fiskidaga (aldrei heima..... he he he). Ég tók líka syrpu í garðinum seinnipartinn í gær og fram á kvöld því það er auðvitað lítið búið að gera í honum vegna fjarveru. Mér tókst auðvitað að ofkeyra mig svo núna er varla sá vöðvi sem er ekki sár og aumur eftir hamaganginn. Ég byrjaði á að þrífa bílinn og fellihýsið og sló svo garðinn og sló einnig kantinn með sláttuorfi og er öll út í sárum á fótunum vegna stráa sem fljúga í allar áttir þegar maður notar þetta verkfæri. Man aldrei eftir að vera í síðbuxum þegar ég nota þessa græju
. Svo fór ég með litlar klippur og snyrti alls staðar meðfram. Eftir það réðist ég með rafknúnum hekkklippum á limgerðið sem liggur utan um garðinn og snyrti það allt. Það var klikkuð vinna því helv. klippurnar eru þungar og limgerðið hátt. Mér finnst ég þvílík hetja að hafa náð að klára þetta. Verst er að klippa þar sem kanturinn er því þá þarf ég að standa í keng í töluverðum bratta og í um meters hæð sveiflandi klippunum langt upp fyrir mig. Eins og þið getið ímyndað ykkur er ég frekar þreytt í höndunum í dag!!!!!!!! Svo átti auðvitað eftir að raka saman öllum greinunum og troða í poka... úffffff !!!! Ég á enn eftir að reita arfa en það fær að bíða á meðan hendurnar á mér eru svona þreyttar... he he he. Í dag verður því engin erfiðisvinna heldur bara skriftir og svo sólbað í pásum. Annars var frábært í gær að Guðrún grillaði og við sátum svo heillengi úti að spjalla og fórum með Ölmu og einhverjum krökkum í hverfinu í asna úti á körfuboltavellinum sem er fyrir ofan húsið. Svaka stuð. Jæja verð að halda áfram að skrifa.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
það er ekkert smá sem þú ert dugleg kona
Margrét M, 30.7.2008 kl. 12:57
Að þú skulir svo hafa einhverja orku eftir í fingrunum til þess að blogga er bara nánst kraftaverk mín kæra vina
Annars var ég að komast að því síðustu helgi að við þekkjum sama fólkið..... Það er eða var ung stúlka í bekknum þínum sem heitir Hjördís, mamma hennar er kennari þarna á króknum og heitir Kristín. Jæja, stjúpfaðir hennar er bróðir konunnar hans Sigfúsar sem er svo aftur bróðir Guðbjargar.... þau voru hér öll í afmælisveislu og tókum við tal saman og komumst að því að þú ert þú !!! Hahahahahahaha Já svona er nú heimurinn lítill. Kærar kveðjur vina, bið að heilsa í kotið.
Jac "Bói" Norðquist
Jac Norðquist, 1.8.2008 kl. 07:39
Sniðugt að þú skyldir hitta á Kristínu og Guðmund í afmælisveislu í Danmörku en þú veist að heimur Íslendinga er mjög lítill. Það voru t.d. Íslendingar á gistiheimilinu um daginn sem ég fór eitthvað að spjalla við og þau þekktu tvær systur hans Sigga!! Ég hef aldrei hitt Íslendinga sem ég hef ekki getað einhversstaðar rakið mig saman við.
Kristín Guðbjörg Snæland, 6.8.2008 kl. 14:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.