Maður blikkar og það verða komin jól!

Mér finnst tíminn líða svo  hratt. Skólinn hófst á ný fyrir korteri eða svo og það er strax komið fram í miðjan október. Ef maður mætlar að föndra eða prjóna jólagjafir er ekki seinna vænna en að koma sér að verki því tíminn flýgur. Við vorum fyrir sunnan í haustfríinu og eins og venjulega hittum við fullt af fólki, kíktum í búðir og skelltum okkur í sund. Núna er bara að taka til og ganga frá öllu dótinu hennar Úrsúlu, þrífa húsið og undirbúa saumaklúbb á þriðjudagskvöldið.

Ég er ekki dauð!

Nei, maður gæti samt haldið það miðað við hvað langt er síðan ég hef skrifað. Vildi bara skella einhverju smotteríi hérna inn en er annars á fullu alla daga. Mikið verið að gera og ýmsar breytingar í fjölskyldunni síðustu mánuði. Við ferðuðumst helling í sumar og nú tekur við alvara lífsins, skólinn byrjaður og maður farinn að spá í sultur og slátur eins og vera ber á þessum árstíma. Ég er búin að skrá mig í tónlistarskóla til að læra á hljómborð og svo ætla ég að skella mér í sund í vetur á meðan Alma er á sundæfingum og synda líka. Maður hefur bara gott af því. Verð nú að skella mér til að sækja hana og koma henni í tónlistarskólann. Bless í bili.

Betra seint en aldrei

Það er búið að vera nóg að gera undanfarið en ég komst loks í sumarfrí 14. júní. Það var ákaflega ljúft og síðan erum við búin að fara í 3ja daga útilegu á Akureyri með Elínu. Við vildum endilega sýna henni aðeins um landið áður en hún fer heim á morgun. Núna erum við fyrir sunnan stelpurnar og erum búnar að fara nokkrum sinnum í sund, fullt af heimsóknum, kíkt í búðir og skoðað náttúru. Í dag á að fara á Þingvelli, Gullfoss og Geysi með pabba og örugglega líka í sund :) he he

Á morgun förum við í Heiðmörk með Elinu og gróðursetjum með AFS og kveðjum hana svo eftir viðburðarríkt og skemmtilegt ár.

Framundan er síðan sumarbústaðaferð, ættarmót, brúðkaup og ýmislegt fleira skemmtilegt.

Sumarkveðja til ykkar allra.


Brjálað að gera

Ég hef varla sést heima hjá mér síðustu daga vegna anna. Skólablað 7. bekkinga er að koma út og við Inga Lára erum búnar að sitja sveittar við alla síðustu viku. Á kvöldin sem ég síðan próf og fer yfir. Næstu viku verður líka klikkað að gera með vinnu framundir og yfir miðnætti 2 daga. Mikið á ég eftir að hlakka til að fá sumarfrí eftir svona törn. Til að kóróna þetta síðan enn frekar er ég ekki búin að klára kennsluleiðbeiningarnar með Norðurlandabókinni en ég á 4 daga helgarfrí frá 21. - 24.  maí og þá ætla ég að loka mig undir feldi og reyna að klára þær. Segi bara... gjörðu svo vel elskan... hérna er dóttir okkar og við sjáumst svo á sunnudagskvöldið :) he he he ekki að mér finnist það sjálfri mjög spennandi en þó betra en að eiga þetta eftir þegar sumarfríið byrjar. Við grilluðum á föstudagskvöldið í frábæru veðri. Það var næstum logn svo við kveiktum á gashitaranum og sátum úti að borða í fyrsta skipti í "sumar".... algerlega geggjað. Maður fékk þvílíkan sumarfíling. Í gær fór ég svo í smá dekur seinnipartinn... leit upp úr prófyfirferð og skellti mér í sauna og heitan pott með Þorgerði og Elínu. Mhhhhh frábært. Í dag er ég að vinna fram að hádegi en tek mér svo pásu fram til c.a. 17 og byrja þá aftur. Á þessum tíma ætla ég í sund með Ölmu og svo í barnabíó. Maður verður líka að lifa svolítið þó setið sé með prófabunka á lærunum fram eftir kvöldi :)

Komið sæl kæru vinir og gleðilegt sumar

Það er orðið langt síðan ég hef skrifað eitthvað hérna og er það fyrst og fremst tímaleysi en einnig verð ég að viðurkenna að facebook togar meira þegar ég kíki á netið. Við erum annars búin að hafa það mjög gott fjölskyldan. Við Alma héldum upp á afmælið okkar um páskana með kökuboði fyrir gesti og gangandi. Það var mjög fínt. Við gáfum Ölmu nýtt hjól í afmælisgjöf og hún var mjög fúl í rúman mánuð áður.. he he Hún vildi sko sannarlega ekki nýtt hjól. Sagði að það gamla (og alltof litla) væri bara fínt ennþá. Það var samt farið og nýja hjólið stóð á ganginum niðri í veislunni og sú stutta laumaði sér á það öðru hverju en fullvissaði okkur samt um að hún myndi aldrei þora að hjóla á svona stóru hjóli sem þar að auki væri bara með handbremsum og svo allir þessir gírar. Það er skemmst frá að segja að á páskadag fórum við með þá stuttu út í næstu götu (þar sem er engin brekka) og á sirka 10 mínútum var hún búin að læra á hjólið og ná fullu valdi á því. Núna dást jafnaldrarnir að henni og finnst hún svakalega hugrökk að hjóla á þessu stóra hjóli!!!! Hún er svo stór að þau eru öll á minna hjóli. Síðustu helgi var ég svo með afmælispartý sem tókst frábærlega. Saknaði þess að vísu að fá ekki neinn að sunnan en svona er það bara. Ég mun sennilega ekkert frekar fara í þær veislur sem eru þar framundan svo ég skil þau svo sem. Næstu helgi munum við hvort eð er hittast hjá Jónu á Kleppjárnsreykjum í hennar djammi svo þetta er allt í góðu. Í dag fögnuðum við sumri með skrúðgöngu og svo seinnipartinn vorum við á hátíðarhöldum Kaupfélags 'Skagfirðinga. Þetta er víst elsta starfandi fyrirtæki á landinu eða 120 ára. Það voru svo svakaleg ræðuhöld að við gáfumst loks upp á sjá ekkert og heyra lítið og fórum að Minjahúsinu. Þar voru Maddömmurnar að bjóða gestum heitt kakó, bakaðar lummur og skúffukökur. Eftir að hafa hlýjað okkur þar fórum við inn í Svarta húsið og skoðuðum hvað var þar í boði. Við keyptum fullt af glösum merktum Skagafirði og fórum svo að skoða Minjahúsið. Eftir það fórum við aftur í Kaupfélagshátíðarhöldin og skoðuðum nýjar höfuðstöðvar bíladeildarinnar. Stórglæsilegt húsnæði og flottar veitingar. Komum svo heim uppfull af kökum og bakkelsi :)


Vetrarfríið búið og alvaran tekin við

Við skemmtum okkur vel í vetrarfríinu. Á öskudeginum fórum við Alma og Elína ásamt Dóru, Örnu og Adrían í búðir að syngja og sníkja nammi. Við Dóra höfðum líka mjög gaman af þessu þrátt fyrir að verða ansi þreyttar fyrir rest. Ég lét það samt ekki aftra mér í að fara á skemmtun foreldrafélagsins í íþróttahúsinu með Ölmu að slá köttinn úr tunnunni og fylgjast með söngfuglunum sem skemmtu sér og öðrum. Nennti að vísu ekki að vera allan tímann enda vorum við að frá kl. hálf níu um morguninn fram til hálf fjögur seinnipartinn!!!!! Þá var rosalega gott að setjast upp í sófa, borða nammi og skella mynd í tækið.... he he

Á fimmtudeginum fórum við á Akureyri og byrjuðum á matarboði á Greifanum. Þaðan lá leiðin á skauta, í keilu og svo í sund í Glerárlaug. Kosturinn við hana er að hún er innilaug og ég þorði ekki í útilaug með okkur Ölmu í 8 stiga frosti!!!! Það var komið í 11 gráður þegar við komum uppúr....brrrrrr........

Við fengum okkur svo hamborgara og héldum heim á leið en vorum ekki komin fyrr en um 10 svo  þetta var langur en góður dagur.

Á föstudaginn vorum við latar og gerðum lítið en á laugardaginn fékk Alma vinkonu sína til sín en við Siggi undirbjuggum heimaþorrablót með Dóru, Hallgrími og pabba. Það gekk mjög vel, matur og félagsskapur góður og við sátum og blöðruðum fram til 3 um nóttina. Alma fékk að gista hjá Örnu og það fannst henni rosalega spennandi. Á sunnudeginum var ég að vinna, Siggi kúrði og Alma lék við vin sinn. Allir hálf latir samt. Pabbi hélt snemma heim en hafði held ég bara mjög gaman af því að skella sér norður.

Núna er daglega rútínan byrjðu aftur en þrátt fyrir það er nóg að gera hjá okkur. Meira seinna kæru  vinir......


Ávaxtakarfan og bráðum vetrarfrí

Alma lék í Ávaxtakörfunni í síðustu viku og stóð sig rosalega vel. Hún var svolítið feimin í byrjun en svo fannst henni þetta bara rosalega skemmtilegt. Það er hægt að sjá stutt video af henni syngja á Facebook ef þið viljið kíkja á það. Um helgina bakaði ég auðvitað bollur á laugardaginn og þær kláruðust allar því við fengum gesti. Ég var mjög sátt við það svo ég éti ekki á mig gat af þessu gúmolaði... he he

Á sunnudaginn hélt Dóra upp á afmælið sitt svo þá var aftur veisla og í dag á hún afmæli... Til hamingju með afmælið dúlla :)  Mér fannst ótækt að hún væri að stússtast í eldamennsku í dag svo ég bauð henni og krökkunum í fiskibollur í dag ásamt Þorgerði og hennar krökkum. Það verður því mikið fjör heima hjá mér á eftir :)

Á morgun er íþróttadagur í skólanum og þá mætir hver bekkur með ákveðin sérkenni. Vinsælt er að allir mæti í ákveðnum litum eða með eitthvað þema. Minn bekkur ákvað að vera mótmælendur og við erum búin að útbúa skilti þar sem stendur t.d. Helvítis fokking fokk, Helvítis fokking kreppa og fleira í þeim dúr. Svo ætla nokkrir að mæta með potta og skeiðar til að búa til hávaða þegar við göngum í salinn. Bara kúl.... he he

Á öskudaginn ætla ég að fara í búðir með dóttur minni að syngja og fá nammi og svo er öskudagsskemmtun í íþróttahúsinu í boði foreldrafélags Árskóla. Þá mæta allir í sínum flottustu búningum og slá köttinn úr tunnunni og keppa í söng.

Á fimmtudaginn erum við stelpurnar að fara á Akureyri að leika okkur. Þá förum við í keilu, sund, skauta og jafnvel bíó líka. Við hlökkum auðvitað rosalega mikið til.


Foreldraviðtöl í dag

Í dag koma foreldrar og nemendur í viðtöl til mín en ég hlakka samt mest til að fara í viðtal hjá litlu snúllunni minni. Alma er í fyrsta bekk og ég er þegar búin að fara inn á Mentor og skoða umsagnirnar hennar. Allir kennararnir gefa henni toppeinkunn svo það gæti ekki verið betra. Hún er líka svo klár og samviskusöm eins og mamman.... he he he....Whistling

Byrjendabækurnar í lestri eru 14 en það eru tvær bækur í hverju númeri því það er alltaf bók 1 og svo kemur 1a og svo framvegis. Mín dama fær bók númer 11 á morgun og á þá bara eftir 8 bækur og búin með 22. Henni finnst gaman að lesa og elskar sögur. Ég er að lesa fyrir hana bækur sem krakkar upp í 7. bekk lesa. Hún elskar t.d. Kaftein Ofurbrók, Skúla skelfi, Fíusól og fleiri.

Núna eru æfingar fyrir árshátíðina hjá 1. bekk. Krakkarnir í 1. bekk á Sauðárkróki hafa mörg undanfarin ár sett upp Ávaxtakörfuna og hún á að leika Mæju jarðaber. Það eru allir á sviðinu allan tímann, allir segja eitthvað og syngja eitthvað en svo taka allir undir í lögunum hjá hinum. Þetta er sýnt á alvöru sviði fyrir foreldra næsta fimmtudag og hlakka ég mikið til að fara. Það er pottþétt að ég mun taka upp á video hvernig hún stóð sig. Hún hefur verið að æfa sig heima á textanum sínum og núna um helgina æfðum við söngvana. Hún þarf að læra tvö lög vel og er langt komin með það. Ég hef hjálpað henni með textana en hún sýnt mömmu sinni hvernig laglínan er því þeir sem þekkja mig vita hversu litla hæfileika ég hef á því sviði.... he he he

Í síðustu viku kom pabbi og elsti bróðir hans, Hafsteinn, í heimsókn. Þeir fóru hringinn og byrjuðu á Suðurlandi og stoppuðu svo hjá mér í tvær nætur. Við pabbi fórum á föstudaginn í göngutúr með Ölmu og það var í fyrsta sinn sem ég fór út í 4 vikur vegna veikinda og kulda.... ... auðvitað sló mér síðan niður og hef verið verri síðan.... arg... garg.... óp og öskur :)

 


Öskudagur nálgast óðfluga

Ég fór í Skaffó í dag til að versla sem væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að við Alma fórum að skoða þá grímubúninga sem voru komnir í búðina. Hún sá dýrabúning sem hana er búið að langa í lengi og hætti snarlega við prinsessukjólinn sem ég hafði séð á www.hokuspokus.is og var búin að ákveða að kaupa handa henni. Við keyptum apabúninginn og hún var í honum heima það sem eftir lifði dags!!!! Það sem þessir krakkar hafa gaman af að fara í búninga og leika sér. Alma var með vinkonu sinni hérna heima í dag og þær voru búnar að máta allt svona dót sem hún á mörgum sinnum, búa til leikrit og láta mig taka upp. Rosa stuð!!! Ég er sjálf búin að panta mér búning fyrir öskudag.... keypti indíánabúning fyrir mig :) því mér finnst líka gaman að klæða mig uppá á öskudaginn. Ég ætla með Ölmu að syngja í búðum.... ætli ég fái líka nammi..... he he he :)

Síðustu helgi missti ég af þorrablótinu því ég var veik heima. Við stelpurnar héldum því nútímaþorrablót með pizzu, flögum, gosi og nammi...... he he he ekkert leiðinlegt!!! Siggi greyið fór svo um nóttina beint vestur á Hnífsdal með Hallgrími að sækja Dóru sína og liðið. Þau voru ekki komin hingað fyrr en um hálf 2 en þá opnuðum við Dóra rósavínsflösku og fengum okkur aðeins í tánni.... he he Það var mikið sem þurfti að spjalla og var mjög gaman hjá okkur þangað til rúmlega 6 um morguninn..... he he kallarnir okkar voru frekar hneykslaðir á okkur en við vildum nú bara meina að þetta hafi verið drykkjuöfund í þeim því þeim var ekki boðið í teitið!!!

Það er búið að vera nóg að gera í vinnunni eftir helgi en ég hef samt þurft að taka það rólega því ég er búin að vera frekar slöpp eftir veikindin. Er enganvegin komin með fulla orku og var bara til eitt í vinnunni í gær og til 2 í dag. Verð allan daginn á morgun og á föstudag er nú bara fjör því ég er að fara á Siglufjörð í námsferð með 9. bekk. Það verður örugglega mjög skemmtilegt því þetta eru skemmtilegir krakkar og það spáir góðu veðri. Ég ætla að taka Elinu með mér svo hún geti sagt að hún hafi komið á Sigló. Ekkert víst að maður eigi aftur ferð þangað áður en hún fer heim í júní.

Ég er farin að hlakka svo til páskafrísins því næstu vikur verður brjálað að gera hjá mér. Fyrst er námsmat í gangi núna, við erum að æfa fyrir Stóru upplestrarkeppnina, það eru leikæfinga fyrir árshátíðina (þá koma allir krakkarnir fram og leika í heimatilbúnum leikritum fyrir foreldra og aðra sem vilja mæta), svo er að nálgast skiladagur á Norðurlandabókinni þannig að það er ljóst að það verður lítið um frí hjá mér fram að páskum. Ég ætla þó suður um pálmasunnudagshelgina því þann dag er ferming á Akranesi hjá bróðir hans Sigga og við ætlum annaðhvort að vera þann dag á leiðinni aftur norður eða á leið suður til að stoppa í nokkra daga. Fram að þeim tíma mun ég gera eins og Þorgeir ljósvetningagoði og fela mig undir feldi ..... .... he he


Leyndarmálið mikla

Ég er búin að lesa bókina The Secret eða Leyndarmálið eins og hún heitir á íslensku og í kvöld horfði ég á myndina. Boðskapurinn á erindi til allra þar sem í einfaldri mynd má segja að með hugsunum okkar löðum við hluti að okkur. Oft hugsaði ég þegar ég las bókina að ég hefði oft notað þetta ómeðvitað, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Ég hef lagt alla mína orku í að fá eitthvað, hvort sem það er húsnæði, bíll, vinna eða eitthvað annað, séð það fyrir mér hvernig ég ætti þessa hluti og það hefur ekki brugðist að ef ég óskaði þess nógu heitt af einlægni og án nokkurs efa veittust mér þessir hlutir. Ég hef einnig sóst eftir hlutum í lífinu af minni ástríðu og það hefur aldrei brugðist að það hefur ekki gengið upp. Sem dæmi má nefna að ég hef fengið allar þær vinnur sem ég hef sótt um og verið fullviss um að vilja í rauninni og ekki haft neinar efasemdir um. Ég hef samt sótt um vinnur sem ég hef ekki fengið en eftir á að hyggja var þá til staðar einhver efi um að ég vildi vinnuna, hefði hæfni til starfsins eða eitthvað slíkt.

Ég er ákveðin í að nota þessa leið á næstunni til að fá ákveðna hluti sem mig langar til að njóta í lífinu. Málið er að bera fram óskina, sjá hana rætast í huganum og fyllast þakklæti fyrir það. Svo er bara að bíða!!!....... 

Núna er bara að leggja inn pöntunarlista til alheimsins og bráðum munu allar mínar óskir rætast!!!!!!

Eitthvað sem ykkur langar í ??????   he he fliss.....


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband