18.10.2008 | 17:37
Nýjar myndir á facebook
Ég var að setja inn nýjar myndir á facebook ef ykkur langar til að kíkja á þær. Slóðin er:
http://www.facebook.com/photos.php?id=1079353242
Þarna eru 4 albúm en það nýjasta heitir Fall of 2008. Það er á "útlensku" svo ættingjar mínir og vinir í útlöndum fatti líka að kíkja á það.
Annars er ég búin að vera í heimilisstörfum í dag en einnig leyfði ég Ölmu, Elínu og frænku Ölmu sem býr í lengjunni að baka jólasmákökur!!! Já þið lásuð þetta rétt..... jólasmákökur!! he he Annars eru þetta engiferkökur sem við elskum öll og bökum stundum þegar eru ekki jól. Allir fengu að smakka og renndu volgum kökunum niður með ískaldri mjólk..... slurp... slef.... tókst mér að láta einhvern fá vatn í munninn........!! :)
14.10.2008 | 17:12
Karlar áhættusæknari eða hvað.......
Baksvið: Karlhormónin og hrun markaðanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.10.2008 | 16:33
Slátur, gestir, afmæli og fleira
Þá er farið að síga á seinnihluta helgarinnar og maður byrjaður að slaka á. Þórdís og Bjarni komu á föstudaginn þegar við Elina og Alma vorum ennþá að klára sláturgerð. Ég tók tvöfalda uppskrift af blóðmör og einnig af lifrarpylsu og er þegar búin að smakka blóðmörina. Hún bragðaðist dásamlega eins og von var á. Það var mjög fyndið að fylgjast með Elinu hjálpa til því henni fannst þetta frekar ógeðslegt en herti sig upp og hjálpaði helling til.
Á laugardeginum fórum við í fjöruferð með krakkana og leyfðum þeim að sulla í sjónum. Þau léku sér annars saman eins og englar alla helgina. Maður þurfti rétt að gefa þeim að borða öðru hverju og svo ekki meir. Í dag fórum við svo í veislu til ömmu á Mallandi og fengum þar kökur og fleira. Amma fékk voðalega fallega teikningu frá Ölmu og var ánægð með hana.
9.10.2008 | 21:08
Alma veik í dag og ég eiginlega hálf slöpp líka
Þegar Alma vaknaði í dag var henni illt í maganum og lá og kúrði. Hún treysti sér ekki í skólann svo við mæðgur vorum heima. Það kom svo í ljós þegar ég var búin að borða morgunverð að ég var sjálf eitthvað slöpp í maganum. Dagurinn leið því þannig að við reyndum að svelta okkur og áttum þá nokkuð góða tíma. Svo fyrir rest náði hungrið tökum á okkur og við ákváðum að fá okkur að borða... viti menn... örskömmu síðar náði magakvölin tökum á okkur. Ég var nú reyndar ekki svo slæm að ég hefði þurft að vera heima frá vinnu en Alma greyið lagðist fyrir nokkrum sinnum í dag, kúrði, saug puttann og sagðist vera slöpp. Svo á milli vildi hún bara fara út að leika :) he he he
Eins og sönnum kvenmanni sæmir notaði ég tækifærið þar sem ég var heima til að ganga frá þvotti, setja í vél, taka til og þrífa. Auk þess bakaði ég og sinnti stelpuskottinu. Ef karlmaður hefði verið heima með veiku barni er það mín reynsla að í svona 90 % tilvika sitja þeir í sófanum og barnið búið að dreifa dóti út um allt hús, eldhúsið í rúst og ekkert verið þrifið eða tekið til!!!!! Ókey.... ég er að ýkja aðeins en SAMT......!
Það verður gaman um helgina því amma í sveitinni verður 75 ára svo við förum í kaffi á sunnudaginn. Auk þess koma Þórdís (elsta dóttir Sigga), Bjarni og krakkarnir í heimsókn og gista hjá okkur um helgina. Gísli (bróðir Sigga), Gerður og stelpurnar verða svo í íbúð tengdó hérna rétt hjá svo það verður nóg af gestum og boðum um helgina. Alma hlakkar mikið til að fá Sölva (elsta afabarnið) í heimsókn enda eru þau góðir vinir.
7.10.2008 | 16:59
Berum hag barnanna fyrir brjósti og hættum að vola fyrir framan þau!!!!
5.10.2008 | 14:22
Alma fær gleraugu og lepp...
Við fórum á Akureyri á fimmtudag og hittum augnlækni þar. Alma var skoðum miklu betur en áður og að lokum var tekin ákvörðun um að hún fengi gleraugu og ætti að prófa að nota lepp eftir skóla og þá með gleraugunum. Hún valdi rosalega falleg rauð Kello Kitty gleraugu og getur ekki beðið eftir því að fá þau. Við keyptum svo bara venjulegan sjóræningjalepp þar sem hún þarf ekki að nota hann í skólanum. Það er miklu þægilegra að smella honum bara af og á með teygju. Auk þess er það hrikalega kúl að vera sjóræningi..... he he he. Gellan fór á kóræfingu á föstudaginn og sat í fanginu á mér og þorði ekki að syngja. Ég var svo sem ekki mjög hissa. Stelpurnar sem voru mættar voru allar dálítið eldri en hún auk þess sem þær voru að læra nýtt lag og voru með nótnablöð með pínulitlum stöfum sem Alma gat auðvitað ekki lesið. Hún fékk því smá sjokk og þorði engu. Eftir æfinguna töluðum við við Alexöndru og tókum ákvörðun um að sjá bara til hvort hún mætir eða ekki. Það er ein ári eldri en hún sem hún þekkir vel og Alma hélt að hún myndi þora ef hin væri líka. Þetta kemur því allt í ljós. Í gær fórum við svo í sveitina að drepa hrút. Það átti að vísu að drepa tvo en skotin kláruðust. Við Alma fórum svo út í hús að skoða "vígvöllinn" og hún spáði mikið í innyflin. Í gær fórum við líka upp á tún að kíkja á hrossin og gefa þeim brauð. Klárarnir voru brauðinu fegnir þó þeir væru á góðu túni og komu um leið og þeir heyrðu skrjáfa í poka. Við fórum líka í fjöruferð, horfðum á brimið og tíndum kuðunga og fleira skemmtilegt í fjörunni.
1.10.2008 | 18:23
Alma hálfblind og meira en það á öðru auganu.... !!
Ég er búin að vera hálfdofin síðan á mánudaginn. Alma kvartaði fyrir svona tveimur vikum yfir því að hún sæi ekki nógu vel svo ég bað skólahjúkrunarkonuna að kíkja á hana áður en ég færi að panta tíma hjá augnlækni. Hún sagði að Alma sæi mun verr á hægra auga svo ég þyrfti að fara með hana til augnlæknis. Ég hringdi á mánudaginn á heilsugæsluna og fékk óvænt tíma sama dag. Það kom í ljós að hún er bara með 10% sjón hægra megin. Hún er með svokallað latt auga og það er bara að fattast núna. Vandamálið er að sjóntaugin hættir að þroskast á milli 6 og 7 ára aldurs svo það er ólíklegt að henni gagnist að fá lepp og sjónin er það slæm að gleraugu gera lítið sem ekkert gagn. Það gæti því farið svo að hún verði bara að vera svona alla ævi!!!!! Það gæti auðvitað margt verra gerst en maður vill auðvitað börnunum sínum allt hið besta svo ég er búin að vera döpur hennar vegna. Við ákváðum samt að fá álit annars læknis m.a. í þeirri von að hún geti kannski fengið lepp og sjónin lagast eitthvað. Frétti í dag um einn sem var með lepp í 1. bekk og sjónin skánaði um einhver prósent og það munar um allt. Hún hefur líklega fæðst með verri sjón öðru megin en það síðan farið versnandi fyrir um ári síðan. Hún segir sjálf að þá hafi þetta byrjað en þegar við fórum að hugsa til baka þá hefur hún alltaf verið mjög varkár í hreyfingum, t.d. klifri. Við höfum aldrei haft áhyggjur af henni því hún hefur alltaf farið svo varlega en við sjáum það í öðru ljósi núna. Svo hefur hún oft orðið mjög pirruð ef henni tekst ekki að gera eitthvað strax þegar hún er að gera eitthvað í höndunum. Við álitum það bara part af persónuleika hennar en sennilega hefur vanmáttur og vandamál með sjónina spilað inní. Í fyrra tókum við líka eftir að allt í einu hætti hún að þora að vera á hestbaki nema einhver héldi í hana. Áður vildi hún helst vera ein. Okkur fannst þetta dálítið skrýtið en tengdum það ekki við sjónina. Líklegt má telja að hún hafi orðið hrædd þegar þrívíddarsjónin versnaði. Þetta voru allt merki en gátu líka verið eitthvað annað. Í 5 og hálfs árs skoðuninni fékk hún kast í sjónprófinu. Það var búið að prófa annað augað og átti að prófa hitt (sennilega þá þetta verra) þegar hún bara tók brjálað "frekjukast" og vildi ekki halda áfram. Hvorki ég né starfsfólkið tengdum þetta við sjónina en augnlæknirinn sagði að þarna hefði átt að panta strax tíma hjá honum og ef það hefði verið gert hefði leppur pottþétt hjálpað.... ég verð að viðurkenna að ég er dálítið fúl og kenni heilbrigðisstarfsfólkinu aðeins um að svona fór. Ekki er ég sérfræðingurinn og vissi þetta ekki en augnlæknirinn sagði að þau ættu að vita að vangeta brýst stundum svona út. Þeir sem þekkja dóttur mína vita að hún á það til að taka svona köst svo ég hélt bara að þetta væri einhver óþekkt eða að hún væri eitthvað illa upplögð. Maður blótar sjálfum sér eftir á en það nær ekki lengra. Ég er að fara með hana til annars læknis á morgun á Akureyri og við sjáum þá hvort eitthvað er hægt að gera.
Að öðru ánægjulegra þá byrjaði hún í dag í söngskóla Alexöndru. Hún var mjög feimin fyrst og ætlaði aldrei að fást til að koma upp hljóði en það tókst fyrir rest. Á föstudaginn fer hún svo á kóræfingu. Alma er líka í fótbolta og öðruvísi óþróttum svo það er nóg að gera hjá henni. Hún fær bara frí á þriðjudögum og sunnudögum. Hún vildi helst fara í fleira en ég stoppaði hana af. Mér finnst alger óþarfi að litlir krakkar séu með stífa stundaskrá eftir skóla. Það er að vísu gott hér á Króknum að íþróttastarfið fer fram frá 13 - 16 á daginn meðan þau eru í gæslu og þeim er fylgt af starfsfólki á milli staða.
Læt þetta duga í bili. Vonast til að færðin á Akureyri á morgun verði í lagi.
28.9.2008 | 15:22
Brjálað teknódiskó með Palla.....
Ég var að fá nýjasta diskinn með Páli Óskari og er búin að vera að hlusta á hann í dag ásamt því að vinna í Norðurlandabókinni. Sendi Ölmu á trunturúnt með pabba sínum og þau eru núna í sveitinni hjá afa og ömmu að gæða sér á einhverju góðgæti svo ég geti fengið frið við ritstörfin. Guðrún og Elína voru í gær á Laufskálaréttarballinu. Það virðist hafa verið mjög gaman hjá þeim sem er auðvitað bara hið besta mál. Við Siggi vorum bara í rólegheitum heima að horfa á King Kong.... ja eða eiginlega horfði ég að mestu ein á hana. Siggi var bara búinn að sofa í 3 tíma á föstudagsnóttina svo hann gafst snemma upp og fór í háttinn. Ég klikkaði eiginlega á því að læðast út því mér var boðið í partý... he he he asnagangur að fatta það ekki..... he he he held reyndar að ég hefði ekki nennt því. Djammaði helgina á undan með Dóru og var ekki á þörfinni núna. Við Siggi erum að skoða hvort við ættum að splæsa á okkur hóteli í byrjun nóvember þegar hann á afmæli og gera eitthvað skemmtilegt saman. Það er ekki eins og maður sé barnlaus á hverjum degi í einhverjum rómantískum hugleiðingum. Það er samt nauðsynlegt annað slagið.
27.9.2008 | 17:21
Laufskálarétt og gleraugu
Við kíktum áðan í Laufskálarétt og þegar við komum fannst mér ansi fámennt á staðnum, nokkrir bílar en fátt fólk. Veðrið var svolítið hryssingslegt en ekkert svo kalt. Fljótlega eftir að við komum mátti sjá hrossin fara að flæða yfir brekkubrúnina og um leið fylltist allt af fólki. Það hafði sem sé húkt inni í bílunum þar til eitthvað fór að gerast. Stelpurnar höfðu mjög gaman af þessu og við náðum svo í nestið okkar og drukkum heitt kakó og borðuðum smurt brauð í brekku með yfirsýn yfir hrossin. Það var fallegt að horfa yfir dalinn á fjöllin sem höfðu gránað töluvert í nótt. Við röltum eftir matinn í kringum réttina og heilsuðum þeim sem við þekktum. Það voru svo sem ekki neitt rosalega margir enda fórum við bara einn hring áður en Alma var orðin svo þreytt að hún vildi fara heim. Ég sá tilsýndar marga sem ég hefði gjarnan viljað spjalla við en geri það þá bara seinna. Þegar við vorum að verða komnar hringinn gólaði Alma..... þarna er afa og ömmubíll.... svo var togað og togað þar til ég elti hana. Hún hljóp beint að bílnum og viti menn.... þar sátu afi og amma svo stelpuskottan fékk smá knús frá þeim. Við kíktum aðeins í markaðstjaldið og sáum þar margt fallegt en vorum ekki með pening með okkur. Á leiðinni heim renndi ég heim að Hólum og sýndi Elínu staðinn og sagði henni frá því sem ég mundi. Þegar við keyrðum framhjá réttinni á bakaleiðinni sáum við að ennþá var að bætast fólk í réttina og við töldum 5 stórar rútur og nokkra kálfa. Þetta var skemmtilegt og ég hvet þá sem hafa aldrei mætt að kíkja einhverntímann.
Alma var að kvarta um daginn yfir því að henni fyndist hún ekki sjá nógu vel svo ég bað skólahjúkrunarkonuna að athuga sjónina í henni fyrir mig. Hún sagði mér síðan að Alma sæi töluvert verr með hægra auganu og að hún þyrfti pottþétt gleraugu. Það verður verkefni vikunnar að fara með hana til augnlæknis og fá gleraugu. Hún hlakkar sjálf til að fá gleraugu og geta séð almennilega og er það hið besta mál. Mér finnst samt sjálfri að það sé dálítið leiðinlegt hennar vegna að hún þurfi gleraugu svona ung en lífið spyr ekki að því og kannski ákveður hún þegar hún verður stærri að fara í aðgerð og láta laga sjónina. Ég þekki nokkra sem hafa farið og allir verið ánægðir. Ég þekki það af eigin reynslu að það er svo sem ekki stórmál að hafa gleraugu en þó alltaf meira mál en að þurfa þau ekki. Aðalmálið er að hún sjái betur og sé ánægð.
25.9.2008 | 14:03
Laufskálarétt um helgina
Það verður fullt af fólki fyrir norðan um helgina því Laufskálarétt er á laugardaginn. Þá eru rekin um 3000 hross að réttinni og svo réttað fram eftir degi.... ja og sopið úr pela, sungið, spjallað og fleira í þeim dúr. Ég ætla að skreppa í smá stund og sjá hrossin rekin og vera svo einhverja stund í viðbót. Maður þarf að sýna Ölmu og Elínu skiptinema þetta og hver veit nema maður hitti einhverja sem maður þekkir. Venjulega höfum við hitt slatta en Siggi ætlar ekki núna. Þarf að flytja hestana okkar úr Lýtó og út á Malland til tengdó og skella fellihýsinu í geymslu. Það verður því stelpnafjör í réttinni þetta árið.
Í morgunu var kynning fyrir forldra og var ekki að heyra annað en fólk væri ánægt með að hafa kynninguna svona að morgni til. Það var allavegana góð mæting og gaman að spjalla við þá.
Mig langar að mæla með uppboðsvefnum Selt.is
Ég setti þar auglýsingu um hlaupabretti og seldi það á nokkrum dögum. Það er komið í hendurnar á kaupanda og allt gekk mjög hratt og greiðlega fyrir sig. Kíkið á vefinn, takið til í bílskúrnum og komið draslinu í verð. Það er margt vitlausara. Svo er það ágæt hreyfing að taka til :) he he he he