Jólabakstur og dekur

Í gær bakaði ég tvær smákökusortir og Siggi bakaði mömmukökur. Þær eru reyndar kallaðar pabbakökur á mínu heimili því það er alltaf hann sem bakar þær. Svo hringdi hann bæði í Guðrúnu og Walesku til að segja þeim að hann væri að baka og gera þær vitlausar af löngun í pabbakökur.... he he Ég skrifaði líka öll jólakort nema þau sem fara á Krókinn því mig vantaði fleiri kort. Ég byrjaði samt daginn á dekri og skellti mér í nudd til Þorgerðar. Það var alger snilld og ákaflega þægilegt. Ég mæli með því í jólaösinni að gera eitthvað svona. Takk kærlega Þorgerður!!!! Ég skellti líka einum rennilás í lopapeysu sem ég er að prjóna í jólagjöf..... Í dag á að baka meira, skreyta húsið og setja upp fleiri seríur. Svo þarf að pakka inn því sem fer suður svo ég mun líklega ekki hafa mikinn tíma til slökunar fyrr en í kvöld. Ég verð greinilega búin að öllu  löngu fyrir jól en það er líka fínt.

Jibbí.... komin helgi aftur :)

Í gær var ég á þvælingi um bæinn allan daginn með Lúsíukrakkana og það var bara gaman. Ég var samt ansi þreytt þegar ég kom heim svo það er fínt að nú er komin enn ein helgin. Verst að það er enginn tími fyrir afslöppun. Það þarf að þrífa því enginn var heima síðustu helgi og það er orðið frekar skítugt. Það á líka að baka eitthvað og svo þarf að skrifa jólakort og pakka inn þeim gjöfum sem þarf að senda suður. Ég er þegar búin að koma í póst því sem fer til útlanda og það var nokkur léttir. Ef það gengur upp ætla ég að fá Þorgerði til að nudda mig og væri það bara snilld í jólaösinni  að fá smá dekur. Hlakka líka til að dorma uppi í rúmi á morgnanna og þurfa ekki að drífa mig út og í vinnuna. Það er alveg hægt að dekra þó nóg sé að gera. Svo setur maður á góða jólatónlist og kveikir á kertum, kyssir bóndann og knúsar krakkann og allir eru glaðir.

Jólaknús á ykkur fyrir helgina og megið þið njóta jólaundirbúningsins.


Lúsíuhátíðin á morgun

Núna snýst allt um Lúsíuhátíðina á morgun. Krakkarnir í 7. bekk eru búnir að æfa sig síðan í byrjun nóvember og á morgun er stóri dagurinn. Í dag æfðum við í íþróttahúsinu og í gær voru allir látnir fara í öll fötin og svo var gengið um skólann syngjandi. Á morgun förum við um allan bæinn, heimsækjum leikskólana, stærstu fyrirtækin, Skagfirðingabúð og svo endar dagurinn í íþróttahúsinu klukkan fimm. Þetta er mjög hátíðlegt og bærinn kemst í sannkallað jólaskap. Ég verð samt að viðurkenna að ég hlakka til þegar helgin rennur í hlað. Það er nauðsynlegt að slaka á og hlaða batteríin. Við ætlum samt að pakka inn gjöfum, baka (ja Siggi ætlar að baka mömmukökur en ég veit ekki hvort ég baka eitthvað) og hengja upp fleiri seríur. Nóg að gera en við æltum samt líka að hafa tækifæri til afslöppunar.

Massív helgi

Við fórum suður á föstudagsmorgni og ég hitti ritstjórann að bókinni og var hann bara nokkuð ánægður. Það var fargi af mér létt því maður vill auðvitað alltaf standa sig. Við fórum svo í búðir og kláruðum jólagjafirnar. Um kvöldið kíkti Harpa á mig upp á hótel og við fórum fyrir rest á Kringlukránna með liðinu!!! Ég verð að viðurkenna að mig langaði nú ekki mikið þangað en það slapp nú alveg til þegar maður var í hóp af fólki. Upplyfting var að spila og þeir voru líka bara ágætir. Fínt fyrir egóið að djamma þarna.... maður er a.m.k. 20 árum yngri en næsta kona og pottþétt að lenda á sjens.... he he he he Á laugardeginum fór ég svo í Bláa lónið með saumaklúbbnum mínum í bænum og það var dásamlegt. Við fórum svo á jólahlaðborð og Madonnashowið um kvöldið og skemmtum okkur konunglega. Á sunnudeginum var farið í skírn hjá Brynju og John, dóttur hans Sigga. Strákurinn þeirra var skírður Mikkel  Jónsson Sillness. Hann er hálf norskur og er nafnið hans norskt. Á leiðinni heim lentum við í leiðindaveðri og ég sat grá, föl og stíf hálfa leiðina. Það var skafrenningur, snjór á stikunum svo maður sá lítið, vindur og svo fór að snjóa til að toppa það nú alveg....... Heim komumst við þó í gærkvöldi og vorum öll ansi þreytt í morgun. Alma var hjá systrum sínum um helgina. Fyrst hjá Þórdísi stærstu systur sem á krakka sem eru 4 og 8 ára. Þau buðu henni svo í bíó á laugardeginum og eftir það fóru þau með hana til Guðrúnar. Þær dúlluðu sér svo systurnar, kíktu í búðir, horfðu á myndir og átu nammi.

Flytjið út á land.....

Ég var að vafra um  netið áðan og sá þá enn einu sinni umræður fólks þar sem verið er að ræða það að flytja úr landi núna í kreppunni. Ég bý á Sauðárkróki og hérna verður maður lítið var við kreppuna nema í búðinni og í fréttunum. Góðærið kom aldrei hingað og kreppan virðist ætla að fara fram hjá okkur að mestu. Það eru sjálfsagt einhverjir sem lenda í erfiðleikum hérna eins og annars staðar en það er í miklu minna mæli en á  höfuðborgarsvæðinu. Fólk sekkur sér lítið í neikvæða umræðu nema þá helst til að vorkenna þeim sem búa fyrir sunnan og hafa þurft að kaupa húsnæði á uppsprengdu verði og þeim sem missa vinnuna í þessu ástandi. Vinnufélagi minn orðaði það ágætlega þegar hann skapp suður um daginn..... hann sagði að þegar hann fór að nálgast Reykjavík hafi honum liðið eins og "vitsugurnar" lægju yfir borginni og væru að sjúga alla gleði og hamingju upp!! Vanlíðanin hafi verið áþreyfanleg. Vonandi lagast það sem fyrst og það er þá kannski PLAN B fyrir einhvern að flýja ekki land heldur flytja frekar út á land!!! Snúum byggðaþróuninni við LoL

Jólaklippingin komin

Ég fór í klippingu áðan með Ölmu og Elínu. Þær voru klipptar og ég fékk klippingu og lit. Þegar kom að því að borga fékk ég nett sjokk!!! Ég fer yfirleitt ekki nema 3x á ári í yfirhalningu og það dugar því  hárið á mér vex mjög hægt. Ég man hinsvegar að þegar ég fór fyrir jólin í fyrra með jafnmarga hausa í klippingu kostaði það tæpar 12.000 (mig minnir meira að segja að ég hafi keypt sjampó og næringu  þá líka sem ég gerði ekki núna). Núna borgaði ég rúmar 16.000!!!!! Ég efast reyndar ekki um að ef ég hefði farið í Reykjavík hefði þetta kostað miklu meira en komm on... strípur og klipping í einn millisíddarhaus á 11.000 finnst mér nú bara nokkuð mikið!!! og það í miðri kreppu.....


Fáránlega mikið að gera þessa dagana

Í gær var bekkjarskemmtun hjá Ölmu og það var frekar hávaðasöm samkoma. Börnin höfðu þó gaman af þessu og það er fyrir mestu. Það var verið að spila og borða nammi og ég held að allir hafi skemmt sér ákaflega vel. Í morgun var friðarganga í skólanum og á eftir var kakó og piparkökur. Ég var svo komin út í Tjarnarbæ (félagsheimilii hestamannaa úti við reiðhöllina) ásamt skemmtinefndinni (kölluð Klessan þó ég hafi aldrei alveg skilið hvernig það kom til....). Við vorum að raða borðum, klippa til dúka, leggja á borð og setja upp seríur og skraut ásamt fleiru slíku. Ekki nóg með það heldur þurfti ég svo að mæta úti í Skagfirðingabúð og hafa umsjón með kökubasar sem 7. bekkur var með. Ég get líka sagt ykkur að þegar ég kom heim opnaði ég bjórdós og pantaði pizzu!!!! Ég var alveg búin á því en Þorgerður kom í heimsókn og hressti mig við.

 Á morgun er svo jólaskemmtun starfsfólks Árskóla og á sunnudaginn þarf ég bæði að ganga frá í salnum og hitta samkennara minn í vinnunni. Á mánudaginn ætla ég að slaka á því á þriðjudaginn þarf ég í klippingu, á miðvikudag að láta laga gelluneglurnar og um kvöldið í saumó og á fimmtudag er ég með vinahóp fyrir Ölmu Kareni. Á föstudaginn förum við suður og þurfum að búðast og ég fer einnig að hitta ritstjórann í bókinni hjá mér. Við Dóra ætlum svo að djamma ærlega um kvöldið. Á laugardaginn fer ég með saumaklúbbnum í Bláa lónið og á Madonna showið með vinnunni hjá Sigga um kvöldið. Við gistum á hótel Íslandi alla helgina. Á sunnudeginum er svo skírnarveisla hjá dóttur hans Sigga og svo er kominn tími til að keyra heim. Þið sjáið því að það er frekar mikið að gera hjá mér á næstunni enda er ég farin að hlakka til að komast í jólafrí.


Ýmislegt

Í dag eru 14 ár síðan mamma dó og þann dag reyni ég að hugsa til hennar og minnast hennar á minn hátt.  Núna hef ég að vísu ekki mikinn tíma þar sem það er brjálað að gera hjá mér þessa dagana. Ég ætla samt að kveikja á kerti fyrir hana í kvöld og segja nöfnu hennar, Ölmu Kareni dóttur minni einhverjar sögur af ömmu sinni.

Þar næstu helgi erum við að koma suður til að fara á árshátíð hjá Vörumiðlun. Hún er haldin á Hótel Íslandi og á að sameina hana jólahlaðborði í þetta sinn. Við förum því á hótel í tvær nætur og sjáum Madonna showið og fáum jólahlaðborð. Ég hlakka mikið til en það er reyndar marg annað sem við ætlum að gera þessa helgi sem er tilhlökkunarefni. Sem dæmi má nefna búðarráp..... (alltaf gaman að því), Bláa lóns ferð með saumaklúbbnum í bænum og skírnarveisla á sunnudeginum. Eiginmaðurinn á orðið 5 barnabörn og það á að skíra það yngsta 7. desember. Börnin eru 8,7,4,1 og nýfætt. Kynin skiptast einnig nokkuð jafnt, 3 strákar og 2 stelpur.

Jólaundirbúningur er hafin því ég bakaði 2 sortir um helginga og gerði jólaísinn. Siggi setti upp tvær seríur.... ja eða öllu heldur stakk þeim í samband... því hann hafði ekki nennt að taka þær niður í fyrra.


10 blessanir

Það var skorað á mig að skrifa 10 blessanir í lífi mínu og koma þær hér á eftir. Þær eru ekki raðaðar eftir mikilvægi heldur í hvaða röð þær koma upp í kollinn.

 

1. Frábæra foreldra sem studdu mig í flestu (skynsömu) sem ég vildi gera.

2. Bræður mína þá Friðrik og Sibba sem eru ákaflega skemmtilegir drengir og við hlæjum og fíflumst alltaf þegar við hittumst.

3. Frábæran eiginmann, Sigurð Leó sem er ákaflega þolinmóður maður. Það er góður eiginleiki þegar við svona óþolinmótt trippi eins og mig er að eiga!!! he he

4. Dásamlega dóttur, Ölmu Kareni sem er skírð í höfuðið á mömmu en hún er látin. Næsta þriðjudag eru komin 14 ár þó það virðist lengra síðan.

5. Fósturdóttur mína hana Guðrúnu sem er að blómstra þessa dagana.

6. Vini sem eru margir og fjölbreyttir og búa dreift um heiminn.

7. Góðan vinnustað þar sem mórallinn er góður og börnin frábær!

8. Góða heilsu að mestu leyti.

9. Heimili sem er friðsamlegur griðarstaður og mér líður vel á.

10. Að eiga heima á Íslandi þrátt fyrir allt því kostirnir eru ennþá fleiri en gallarnir!!!

 

Ég skora á Bóa, Sibba og Dóru Vestjarðarmær að koma með sínar blessanir.


Nóg að gera

Alma er með eyrnabólgu og fór á mánudaginn í sveitina til afa og ömmu. Hún lætur þau dekra við sig og montar sig svo með því að lesa fyrir þau. Ömmu finnst hún voðalega dugleg að lesa og vinna í vinnubók svo þetta virkar greinilega hjá henni.... he he he

Í vinnunni er brjálað að gera. Ég er umsjónarkennari með 7. bekk og þau voru á mánudaginn að lesa fyrir krakkana í leikskólunum. Með þessu er haldið upp á Dag íslenskrar tungu og byrjað á undirbúningi fyrir Stóru upplestrarkeppnina. Við erum einnig að láta krakkana æfa sig heima að lesa ljóð og lesa þau svo í tímum. Í næstu viku eru svo þemadagar og er áhersla á líkamlegt og andlegt heilbrigði. Ég var sett í hóp sem sér um jóga, skák og spil. Við ætlum að skipta hópnum í tvennt þannig að helmingurinn sé í jóga og hinn að spila skák eða á spil. Sú sem kann jóga er hinsvegar að fara til útlanda og verður ekki með okkur!!!!! Í gær fengum við því jógatíma hjá henni til að læra hvernig við ættum að gera þetta. Það er skemmst frá því að segja að það fór þannig að af fjórum dásamlegum konum mun ég taka að mér að stýra þessu ásamt annarri. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ég er og hef alltaf verið stirð og stíf eins og spýta og hin er gigtarsjúklingur!!!!!! Við vorum samt skárstar!!! he he he við erum líka búnar að hlæja mikið að því en við þurfum svo sem ekki að vera fullkomnar til að kenna krökkunum grunnstöðurnar. Þetta verður sett upp sem dýrasaga og stöðurnar kynntar þannig og svo læra þau slökun. Við verðum auðvitað lang flottastar!!! he he he

Fyrir utan þetta allt eru krakkarnir að æfa fyrir Lúsíuhátíðina sem er haldin hátíðleg á Sauðárkróki. Þau þurfa að læra 8 ljóð sem eru á íslensku, sænsku, dönsku og ensku. Þeir sem þekkja mig vita að sönghæfileikar mínir eru ákaflega takmarkaðir eða eins og Bói sagði einu sinni þegar ég var eitthvað að spá í að læra söng til að geta sungið á almannafæri nokkurnveginn skammlaus... heyrðu Stína... ertu ekki til í að bíða með að syngja fyrr en þú ert búin að læra!!!!! Þetta þýðir auðvitað að ég þarf að fá aðstoð inn í bekkinn með sönginn og það vill svo til að samkennari minn hún Inga Lára er mikil söngdíva.... (hjúkkkkk!) og reddar málinu.

Jæja ég þarf að halda áfram að vinna, þetta þýðir ekki lengur...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband