Alma hálfblind og meira en það á öðru auganu.... !!

Ég er búin að vera hálfdofin síðan á mánudaginn. Alma kvartaði fyrir svona tveimur vikum yfir því að hún sæi ekki  nógu vel svo ég bað skólahjúkrunarkonuna að kíkja á hana áður en ég færi að panta tíma hjá augnlækni. Hún sagði að Alma sæi mun verr á hægra auga svo ég þyrfti að fara með hana til augnlæknis. Ég hringdi á mánudaginn á heilsugæsluna og fékk óvænt tíma sama dag. Það kom í ljós að hún er bara með 10% sjón hægra megin. Hún er með svokallað latt auga og það er bara að fattast núna. Vandamálið er að sjóntaugin hættir að þroskast á milli 6 og 7 ára aldurs svo það er ólíklegt að henni gagnist að fá lepp og sjónin er það slæm að gleraugu gera lítið sem ekkert gagn. Það gæti því farið svo að hún verði bara að vera svona alla ævi!!!!! Crying Það gæti auðvitað margt verra gerst en maður vill auðvitað börnunum sínum allt hið besta svo ég er búin að vera döpur hennar vegna. Við ákváðum samt að fá álit annars læknis m.a. í þeirri von að hún geti kannski fengið lepp og sjónin lagast eitthvað. Frétti í dag um einn sem var með lepp í 1. bekk og sjónin skánaði um einhver prósent og það munar um allt. Hún hefur líklega fæðst með verri sjón öðru megin en það síðan farið versnandi fyrir um ári síðan. Hún segir sjálf að þá hafi þetta byrjað en þegar við fórum að hugsa til baka þá hefur hún alltaf verið mjög varkár í hreyfingum, t.d. klifri. Við höfum aldrei haft áhyggjur af henni því hún hefur alltaf farið svo varlega en við sjáum það í öðru ljósi núna. Svo hefur hún oft orðið mjög pirruð ef henni tekst ekki að gera eitthvað strax þegar hún er að gera eitthvað  í höndunum. Við álitum það bara part af persónuleika hennar en sennilega hefur vanmáttur og vandamál með sjónina spilað inní. Í fyrra tókum við líka eftir að allt í einu hætti hún að þora að vera á hestbaki nema einhver héldi í hana. Áður vildi hún helst vera ein. Okkur fannst þetta dálítið skrýtið en tengdum það ekki við sjónina. Líklegt má telja að hún hafi orðið hrædd þegar þrívíddarsjónin versnaði. Þetta voru allt merki en gátu líka verið eitthvað annað. Í 5 og hálfs árs skoðuninni fékk hún kast í sjónprófinu. Það var búið að prófa annað augað og átti að prófa hitt (sennilega þá þetta verra) þegar hún bara tók brjálað "frekjukast" og vildi ekki halda áfram. Hvorki ég né  starfsfólkið tengdum þetta við sjónina en augnlæknirinn sagði að þarna hefði átt að panta strax tíma hjá honum og ef það hefði verið gert hefði leppur pottþétt hjálpað.... ég verð að viðurkenna að ég er dálítið fúl og kenni heilbrigðisstarfsfólkinu aðeins um að svona fór. Ekki er ég sérfræðingurinn og vissi þetta ekki en augnlæknirinn sagði að þau ættu að vita að vangeta brýst stundum svona út. Þeir sem þekkja dóttur mína vita að hún á það til að taka svona köst svo ég hélt bara að þetta væri einhver óþekkt eða að hún væri eitthvað illa upplögð. Maður blótar sjálfum sér eftir á en það nær ekki lengra. Ég er að fara með hana til annars læknis á morgun á Akureyri og við sjáum þá hvort eitthvað er hægt að gera.

Að öðru ánægjulegra þá byrjaði hún í dag í söngskóla Alexöndru. Hún var mjög feimin fyrst og ætlaði aldrei að fást til að koma upp hljóði en það tókst fyrir rest. Á föstudaginn fer hún svo á kóræfingu. Alma er líka í fótbolta og öðruvísi óþróttum svo það er nóg að gera hjá henni. Hún fær bara frí á þriðjudögum og sunnudögum. Hún vildi helst fara í fleira en ég stoppaði hana af. Mér finnst alger óþarfi að litlir krakkar séu með stífa stundaskrá eftir skóla. Það er að vísu gott hér á Króknum að íþróttastarfið fer fram frá 13 - 16 á daginn meðan þau eru í gæslu og þeim er fylgt af starfsfólki á milli staða.

Læt þetta duga í bili. Vonast til að færðin á Akureyri á morgun verði í lagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Ah..sonur minn er einmitt svona, hann er orðinn fullorðinn í dag og þetta háir honum helling. Þetta uppgötvaðist að vísu fyrr hjá honum en dóttur þinni en það er sama. Það náðist ekki að snúa þessu á réttan veg.

Fyrirgefðu þetta neikvæða raus en gangi ykkur vel

Ragnheiður , 1.10.2008 kl. 18:56

2 Smámynd: Jac Norðquist

 Æ þetta var nú bara hálf leiðinlegt að lesa vina... Ég vona innilega að það virki að nota lepp eða hvað það nú er. Gangi ykkur sem allra best vina.

Jac

Jac Norðquist, 2.10.2008 kl. 07:52

3 Smámynd: Margrét M

þetta er ekki gott en þér að segja þá  er fyrrverandi eiginmaður minn með svona sá ekkert með öðru auganu en - 6 á hinu .. þetta háir fólki ekki neitt að ráði .. hann er búin að fara í aðgerð á betra auganu og er gleraugnalaus í dag .. fólk notar þá ekki slæma augað

Margrét M, 2.10.2008 kl. 08:30

4 Smámynd: Gudrún Hauksdótttir

ÆÆÆ ekki gott ad heyra med sjónina hjá Ölmu litlu.Gangi ykkur vel med tad.

Gott hjá henni ad vera í kór.Tad er svo gefandi.Ég var alltaf í kór sem barn og var  tad skemmtilegasta sem ég gerdi.

Kvedja úr fallegu hausti í Jyderup

Gudrún Hauksdótttir, 3.10.2008 kl. 10:00

5 identicon

Hæ hæ vonandi á sjónin eftir að batna á Ölmu. Hún verður að vera dugleg að þjálfa augað þó það sé ervitt fyrir hana. Getur þú ekki bara reddað lepp ef þeir geta ekki skaffað hann. Gangi ykkur vel og ég veit að þetta er ekki auðvelt fyrir ykkur. Knúsaðu Ölmu frá okkur.

Kv. Gugga og Ólarnir

Guðbjörg Rúna (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband