27.9.2008 | 17:21
Laufskálarétt og gleraugu
Við kíktum áðan í Laufskálarétt og þegar við komum fannst mér ansi fámennt á staðnum, nokkrir bílar en fátt fólk. Veðrið var svolítið hryssingslegt en ekkert svo kalt. Fljótlega eftir að við komum mátti sjá hrossin fara að flæða yfir brekkubrúnina og um leið fylltist allt af fólki. Það hafði sem sé húkt inni í bílunum þar til eitthvað fór að gerast. Stelpurnar höfðu mjög gaman af þessu og við náðum svo í nestið okkar og drukkum heitt kakó og borðuðum smurt brauð í brekku með yfirsýn yfir hrossin. Það var fallegt að horfa yfir dalinn á fjöllin sem höfðu gránað töluvert í nótt. Við röltum eftir matinn í kringum réttina og heilsuðum þeim sem við þekktum. Það voru svo sem ekki neitt rosalega margir enda fórum við bara einn hring áður en Alma var orðin svo þreytt að hún vildi fara heim. Ég sá tilsýndar marga sem ég hefði gjarnan viljað spjalla við en geri það þá bara seinna. Þegar við vorum að verða komnar hringinn gólaði Alma..... þarna er afa og ömmubíll.... svo var togað og togað þar til ég elti hana. Hún hljóp beint að bílnum og viti menn.... þar sátu afi og amma svo stelpuskottan fékk smá knús frá þeim. Við kíktum aðeins í markaðstjaldið og sáum þar margt fallegt en vorum ekki með pening með okkur. Á leiðinni heim renndi ég heim að Hólum og sýndi Elínu staðinn og sagði henni frá því sem ég mundi. Þegar við keyrðum framhjá réttinni á bakaleiðinni sáum við að ennþá var að bætast fólk í réttina og við töldum 5 stórar rútur og nokkra kálfa. Þetta var skemmtilegt og ég hvet þá sem hafa aldrei mætt að kíkja einhverntímann.
Alma var að kvarta um daginn yfir því að henni fyndist hún ekki sjá nógu vel svo ég bað skólahjúkrunarkonuna að athuga sjónina í henni fyrir mig. Hún sagði mér síðan að Alma sæi töluvert verr með hægra auganu og að hún þyrfti pottþétt gleraugu. Það verður verkefni vikunnar að fara með hana til augnlæknis og fá gleraugu. Hún hlakkar sjálf til að fá gleraugu og geta séð almennilega og er það hið besta mál. Mér finnst samt sjálfri að það sé dálítið leiðinlegt hennar vegna að hún þurfi gleraugu svona ung en lífið spyr ekki að því og kannski ákveður hún þegar hún verður stærri að fara í aðgerð og láta laga sjónina. Ég þekki nokkra sem hafa farið og allir verið ánægðir. Ég þekki það af eigin reynslu að það er svo sem ekki stórmál að hafa gleraugu en þó alltaf meira mál en að þurfa þau ekki. Aðalmálið er að hún sjái betur og sé ánægð.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ég öfunda ykkur, hefði sko alveg getað þegið að vera á staðnum og svo á réttarballinu í kvöld.
Gylfi Björgvinsson, 27.9.2008 kl. 17:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.