11.8.2008 | 15:37
Ný vika og nóg að gera
Þá eru fiskidagarnir búnir og við skemmtum okkur mjög vel. Það eina sem hefði mátt vera öðruvísi var að Siggi var ekki búinn að vinna fyrr en seint á föstudeginum svo við vorum ekki búin að koma okkur fyrir fyrr en um hálf eitt um nóttina. Það stoppaði okkur þó ekki í því að kíka í súpu í eitt hús, svona aðeins til að fíla stemminguna. Þar var spilað og sungið og bragðgóð súpa í boði. Á laugardeginum fórum við í sund og skelltum okkur svo niður í bæ að smakka á kræsingunum. Það var heill hellingur í boði og við smökkuðum lang flest. Það voru vissulega nokkrar biðraðir en við létum það ekki á okkur fá og skiptumst bara á að sinna Ölmu og fara í biðraðir. Það gekk ágætlega. Um kvöldið grilluðum við og fórum svo á rúntinn inn í Svarfaðardal en þangað hafði ég aldrei komið. Það undraði okkur hve reisulegir og snyrtilegir bæirnir voru allir saman. Seinna um kvöldið var svo bryggjusöngur sem mér fannst frekar glataður því í fyrsta lagi var forsöngvarinn falskur (þegar ég heyri það er það slæmt.....), í öðru lagi voru sum lögin þannig að fólk kunni ekki textana við þau og í þriðja lagi eru þetta fiskidagar og mér hefði þótt eðlilegast að syngja lög eins og Þegar Stebbi fór á sjóinn og þannig lög. Bara smá röfl í mér en annars var flugeldasýning á eftir sem var sú flottasta sem ég hef séð. Það var svo flott litasamsetningin og svo skutu þeir upp flugeldum af sjónum. Hef aldrei séð það áður og fullt af flugeldum sem maður hefur ekki séð fyrr. Við fórum svo á Akureyri og skelltum okkur í sund og Bónus á heimleiðinni. Fín helgi að baki og nú er bara alvaran tekin við aftur.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.