1.6.2008 | 08:40
Vá maður hvað það er geggjað að fara upp í Drangey...
Ég fór í gær með vinnufélögunum og einhverjum mökum í ferð út í Drangey. Það var búið að vera smá stress í mér yfir því að fara upp í eynna því ég hafði einu sinni komið að bryggjunni þar og horft upp. Það er ansi bratt skal ég segja ykkur. Þegar við komum í land byrjuðum við á að príla neðsta hlutann þar sem er búið að setja tréstiga. Hann var stundum nokkuð skrautlegur því það vantaði þrep og stundum ruggaði hann. Sem betur fer gat maður á flestum stöðum haldið sér í kaðal og á leiðinni upp notaði ég hann til að draga mig upp og á leiðinni niður hékk maður í honum!!!!
Þegar upp mesta brattann var komið hvíldum við okkur aðeins og héldum svo áfram. Þar þufti að ganga einstigi með þverhnípt niður. Þar var einnig kaðallinn góði sem veitti manni öryggi. Næst komum við að platta með faðirvorinu en þar er hefð fyrir því að biðja til að maður komist öruggur niður aftur. Við gerðum það auðvitað enda fengum við að heyra sorgarsögu um mann sem nennti því ekki og kom jú að vísu niður en ekki á þann hátt sem hann vildi!!!!
Síðasta spottann upp fer maður í járnstiga sem er þannig að maður sé í gegnum hann og voru þá nokkrir lofthræddir sem krossuðu sig aðeins en mér fannst það ekkert mál því hann var vel festur og maður hljóp hann bara upp. Þegar við komum upp blasti við kofi með gistiaðstöðu og skrifuðum við í gestabókina og settumst síðan í grasið og fengum okkur nesti. Það hafði ekki litið vel út með veðurspá daginn áður en við fengum frábært veður allan daginn. Rögnvaldur organisti og Arna kennari fræddu okkur um Grettissögu og við gengum um alla eyjuna og skoðuðum m.a. Grettisbæli og fylgdumst með fuglalífinu. Ég kveið því aðeins að fara niður aftur en þar kom kaðallinn góði í góðar þarfir því maður hékk eiginlega bara í honum á leiðinni niður svo þetta var ekkert mál. Þegar við komum út í bátinn fengum við siglingu í kringum eynna og Jón Drangeyjarjarl (mig minnir að hann heiti Jón...
) stoppaði þrisvar á leiðinni og sagði okkur ýmsar sögur af sér og öðrum. Við fengum svo að grípa í sjóstangveiði á leiðinni heim og þegar í land var komið fóru sumir í gönguferð í Glerhallarvík og aðrir í Grettislaug og einhverjir sátu og drukku bjór á bakkanum... he he Nú eftir rúmlega klukkutíma kom seinni hópurinn sem fór út í eynna aftur í land og rútan kom með þá sem ætluðu bara að vera í grillinu svo smám saman fjölgaði í pottinum ....ja eða endurnýjaðist hópurinn. Eftir pottinn fengum við svo frábæran grillmat frá Kaffi Krók og spiluðum svo Kubb nokkur saman. Ég hafði bara einu sinni áður spilað þennan leik og á örugglega eftir að kaupa hann í suma fyrir ættarmótið. Við vorum svo komin á Krókinn klukkan hálf átta og sumir fóru í partý en ég fór heim svo Siggi kæmist á hestbak. Hann er að fara næstu helgi í lengri reiðtúr og er að þjálfa hestana. Þannig lauk frábærum degi og ég mæli með því við alla sem hafa tök á að fara upp í Drangey. Þetta er miklu minna mál en ég hélt í fyrstu.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Ekki vitlaus hugmynd en mig ógar fyrir því að klifra þetta upp,ég verð að viðurkenna það og að þurfa að hanga í þessum kaðli omg..... mig svíður niður í.... well.. you know hehehe.... ég er nefnilega alveg svakalega lofthrædd og ég er búin að vera að naga á mér handabakið á meðan að ég las þetta hjá þér,veit ekki hvort ég þori en við sjáum nú til enívei TAKK FYRIR FRÁBÆRAN DAG !!!! EUROVISION Í BOTN HEHEHE..... BARA GEGGJAÐ..... enda voru börnin sofnuð innan hálftíma eftir að við komum heim
Dóra Maggý, 2.6.2008 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.