Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Heim í dag

Við erum búin að vera fyrir sunnan síðan á annan og erum að fara að græja okkur til heimferðar. Mikið verður gott að komast heim og slaka á!!! Við erum búin að vera í ýmsum jólaboðum og heimsótt fullt af fólki en það er alltaf best að koma heim. Ég þakka öllum þeim sem við náðum að heimsækja fyrir góðar stundir og bið hina afsökunar sem við komumst ekki yfir að kíkja til.

Gleðileg jól til allra sem ég þekki

Hjálparsveitin á Sauðárkróki er með sniðuga fjáröflun. Þeir eru í góðu sambandi við jólasveinana og taka á móti jólapökkum til barna og koma þeim til jólasveinanna sem fara um bæinn á aðfangadag og afhenda þá í eigin persónu!!! Rétt áðan bönkuðu með látum tveir jólasveinar og æddu úr einu herbergi í annað og vöktu gelgjurnar. Þeir hentu mandarínum í alla, sungu jólalag og gáfu Ölmu svo jólapakka sem hún opnaði og er núna að leika sér með innihaldið. Þetta vakti mikinn fögnuð hennar og er alveg bráðsniðugt finnst mér. Gerir biðina aðeins styttri og skemmtilegri. Núna er hún í óða önn að láta stóru stelpurnar stjana við sig svo tíminn verður fljótur að líða. Við verðum heima þessi jól eins og síðustu. Guðrún fósturdóttir mín kom á mánudaginn og í gær kom Waleska (skiptinemi númer eitt....  he he he) með unnustann hann Ægi. Við erum svo með skiptinema númer þrjú... Elínu svo við verðum 7 allt í allt. Ástæðan fyrir því að ég er að grínast með þessi númer er sú að stundum nefnum við Eínu Maríönnu eða ruglumst á einhvern annan hátt og því vorum við að fíflast með það að nú væri bara málið að nota einn, tveir og þrír... he he he ekki að maður myndi gera það í alvörunni en gaman að hlæja að því. Waleska var auðvitað voðalega sátt að vera númer eitt!!!!

Ég óska ykkur annars öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi ár og þakka fyrir öll samskipti á árinu sem er að líða.


Jólin eru að koma...... trallalla....

Ég er ekkert betri en börnin. Helsti munurinn er sá að mér finnst meira spennandi að sjá aðra opna pakka frá mér en að opna mína eigin pakka. Alma er auðvitað orðin voðalega spennt. Á aðfangadag er hefð fyrir því að jólasveinar keyri um bæinn með hávaða og látum. Þeir stoppa síðan hjá sumum börnum og færa þeim gjafir við mikinn fögnuð. Í fyrra vissum við ekki um þennan sið sveinkanna svo þeir stoppuðu ekki hjá okkur en núna er ég viss um að þeir hringja hjá okkur bjöllunni og færa Ölmu gjöf. Ég hef góð sambönd og fékk fullvissu eins þeirra fyrir því Grin. Í gær fórum við í göngutúr um bæinn og hentum inn jólakortum. Við enduðum svo í bakaríinu og fengum okkur rúnstykki og heitt kakó. Engan langaði í köku enda flæðir út úr öllum skápum og dollum af bakkelsi heima. Í gærmorgun bakaði ég lagtertu fyrir Sigga eftir uppskrift sem ég fékk hjá Brynhildi vinkonu minni í Reykjavík. Þessi lagterta er einstaklega góð og í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni. Við skárum svo út laufabrauð seinnipartinn og Siggi steikti. Hann nennti ekki að skera og Elína og Alma voru svo smámunasamar að ég gerði flestar kökurnar. Hérna er annars búið að gera allt nema skúra gólf sem verður gert á Þorláksmessukvöld og elda jólamatinn. Það er því bara jólastemming og næs þessa síðustu daga fyrir jól.

Gleðileg jól öll sömul og njótið samvista við vini og fjölskyldu.


Alma syngur Heims um ból....

Alma Karen er í söngskóla Alexöndru ásamt fleiri stelpum. Þær tóku núna fyrir jólin upp video við jólalagið Heims um ból. Alma var viðstödd þegar þær sungu en þegar upptakan fyrir myndina var gerð var hún veik í sveitinni hjá afa og ömmu. Það var auðvitað frekar svekkjandi fyrir hana en ef þið farið á Youtube og hlustið á lagið getið þið heyrt hana syngja aðra línuna í laginu en hún hljómar svona: helg eru jól    :)

Slóðin er:

http://www.youtube.com/watch?v=hPRv-k1pvNA

 


Jólastúss

Þá eru bara eftir tveir dagar í jólafrí og þar af bara einn með kennslu. Það er alltaf svo ljúft að mæta á stofujól og eiga notalega stund með krökkunum. Í þetta sinn vona ég að ég hafi tíma til að skreppa á jólaballið hjá Ölmu og ganga í kringum jólatréð með henni í smá stund. Það ætti að ganga ef stofujólin hjá mér dragast ekki of lengi. Ég fór í saumaklúbb í gær eftir að hafa staðið á haus seinnipartinn að baka. Það er oftast gefið frí síðasta þriðjudag fyrir jólafrí frá klukkan tvö til að fólk geti farið heim að  baka og mér hefur heyrst í morgun að stór hluti starfsfólksins hafi notað tímann í það. Ég ætla að nota tímann næstu daga og vinna í bókinni minni svo ég þurfi ekki að nota mikið af jólafríinu í það. Það er samt ljóst að eitthvað þarf ég að vinna í jólafríinu en það er svo sem allt í lagi. Eftir vinnu á föstudag ætlum við Alma að setja upp jólatréð og þá verða spiluð jólalög og borðaðar smákökur. Það er alltaf skemmtileg stemming og ég hlakka til.

Jólabakstur og dekur

Í gær bakaði ég tvær smákökusortir og Siggi bakaði mömmukökur. Þær eru reyndar kallaðar pabbakökur á mínu heimili því það er alltaf hann sem bakar þær. Svo hringdi hann bæði í Guðrúnu og Walesku til að segja þeim að hann væri að baka og gera þær vitlausar af löngun í pabbakökur.... he he Ég skrifaði líka öll jólakort nema þau sem fara á Krókinn því mig vantaði fleiri kort. Ég byrjaði samt daginn á dekri og skellti mér í nudd til Þorgerðar. Það var alger snilld og ákaflega þægilegt. Ég mæli með því í jólaösinni að gera eitthvað svona. Takk kærlega Þorgerður!!!! Ég skellti líka einum rennilás í lopapeysu sem ég er að prjóna í jólagjöf..... Í dag á að baka meira, skreyta húsið og setja upp fleiri seríur. Svo þarf að pakka inn því sem fer suður svo ég mun líklega ekki hafa mikinn tíma til slökunar fyrr en í kvöld. Ég verð greinilega búin að öllu  löngu fyrir jól en það er líka fínt.

Jibbí.... komin helgi aftur :)

Í gær var ég á þvælingi um bæinn allan daginn með Lúsíukrakkana og það var bara gaman. Ég var samt ansi þreytt þegar ég kom heim svo það er fínt að nú er komin enn ein helgin. Verst að það er enginn tími fyrir afslöppun. Það þarf að þrífa því enginn var heima síðustu helgi og það er orðið frekar skítugt. Það á líka að baka eitthvað og svo þarf að skrifa jólakort og pakka inn þeim gjöfum sem þarf að senda suður. Ég er þegar búin að koma í póst því sem fer til útlanda og það var nokkur léttir. Ef það gengur upp ætla ég að fá Þorgerði til að nudda mig og væri það bara snilld í jólaösinni  að fá smá dekur. Hlakka líka til að dorma uppi í rúmi á morgnanna og þurfa ekki að drífa mig út og í vinnuna. Það er alveg hægt að dekra þó nóg sé að gera. Svo setur maður á góða jólatónlist og kveikir á kertum, kyssir bóndann og knúsar krakkann og allir eru glaðir.

Jólaknús á ykkur fyrir helgina og megið þið njóta jólaundirbúningsins.


Lúsíuhátíðin á morgun

Núna snýst allt um Lúsíuhátíðina á morgun. Krakkarnir í 7. bekk eru búnir að æfa sig síðan í byrjun nóvember og á morgun er stóri dagurinn. Í dag æfðum við í íþróttahúsinu og í gær voru allir látnir fara í öll fötin og svo var gengið um skólann syngjandi. Á morgun förum við um allan bæinn, heimsækjum leikskólana, stærstu fyrirtækin, Skagfirðingabúð og svo endar dagurinn í íþróttahúsinu klukkan fimm. Þetta er mjög hátíðlegt og bærinn kemst í sannkallað jólaskap. Ég verð samt að viðurkenna að ég hlakka til þegar helgin rennur í hlað. Það er nauðsynlegt að slaka á og hlaða batteríin. Við ætlum samt að pakka inn gjöfum, baka (ja Siggi ætlar að baka mömmukökur en ég veit ekki hvort ég baka eitthvað) og hengja upp fleiri seríur. Nóg að gera en við æltum samt líka að hafa tækifæri til afslöppunar.

Massív helgi

Við fórum suður á föstudagsmorgni og ég hitti ritstjórann að bókinni og var hann bara nokkuð ánægður. Það var fargi af mér létt því maður vill auðvitað alltaf standa sig. Við fórum svo í búðir og kláruðum jólagjafirnar. Um kvöldið kíkti Harpa á mig upp á hótel og við fórum fyrir rest á Kringlukránna með liðinu!!! Ég verð að viðurkenna að mig langaði nú ekki mikið þangað en það slapp nú alveg til þegar maður var í hóp af fólki. Upplyfting var að spila og þeir voru líka bara ágætir. Fínt fyrir egóið að djamma þarna.... maður er a.m.k. 20 árum yngri en næsta kona og pottþétt að lenda á sjens.... he he he he Á laugardeginum fór ég svo í Bláa lónið með saumaklúbbnum mínum í bænum og það var dásamlegt. Við fórum svo á jólahlaðborð og Madonnashowið um kvöldið og skemmtum okkur konunglega. Á sunnudeginum var farið í skírn hjá Brynju og John, dóttur hans Sigga. Strákurinn þeirra var skírður Mikkel  Jónsson Sillness. Hann er hálf norskur og er nafnið hans norskt. Á leiðinni heim lentum við í leiðindaveðri og ég sat grá, föl og stíf hálfa leiðina. Það var skafrenningur, snjór á stikunum svo maður sá lítið, vindur og svo fór að snjóa til að toppa það nú alveg....... Heim komumst við þó í gærkvöldi og vorum öll ansi þreytt í morgun. Alma var hjá systrum sínum um helgina. Fyrst hjá Þórdísi stærstu systur sem á krakka sem eru 4 og 8 ára. Þau buðu henni svo í bíó á laugardeginum og eftir það fóru þau með hana til Guðrúnar. Þær dúlluðu sér svo systurnar, kíktu í búðir, horfðu á myndir og átu nammi.

Flytjið út á land.....

Ég var að vafra um  netið áðan og sá þá enn einu sinni umræður fólks þar sem verið er að ræða það að flytja úr landi núna í kreppunni. Ég bý á Sauðárkróki og hérna verður maður lítið var við kreppuna nema í búðinni og í fréttunum. Góðærið kom aldrei hingað og kreppan virðist ætla að fara fram hjá okkur að mestu. Það eru sjálfsagt einhverjir sem lenda í erfiðleikum hérna eins og annars staðar en það er í miklu minna mæli en á  höfuðborgarsvæðinu. Fólk sekkur sér lítið í neikvæða umræðu nema þá helst til að vorkenna þeim sem búa fyrir sunnan og hafa þurft að kaupa húsnæði á uppsprengdu verði og þeim sem missa vinnuna í þessu ástandi. Vinnufélagi minn orðaði það ágætlega þegar hann skapp suður um daginn..... hann sagði að þegar hann fór að nálgast Reykjavík hafi honum liðið eins og "vitsugurnar" lægju yfir borginni og væru að sjúga alla gleði og hamingju upp!! Vanlíðanin hafi verið áþreyfanleg. Vonandi lagast það sem fyrst og það er þá kannski PLAN B fyrir einhvern að flýja ekki land heldur flytja frekar út á land!!! Snúum byggðaþróuninni við LoL

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband