Kíkið á nýju gleraugun hennar Ölmu

http://kristinsnae.blog.is/album/alma_karen/image/726487/

Þetta er litla dúllan mín með nýju gleraugun og hulstrið undir þau. Það er ekkert smá flott enda finnst henni voðalega gaman að skoða það og pússa gleraugun!!!!


Siggi á afmæli og Alma fékk mikið hrós frá kennaranum sínum

Í gær bökuðum við  Alma tröllasúkkulaðiköku fyrir Sigga til að taka með sér í vinnuna fyrir vinnufélagana. Ég gerði þrefalda súkkulaðikökuuppskrift og setti extra súkkulaði svo þetta hefur verið mjög karlvæn kaka. Ég setti líka smá deig í form sem Alma átti og krem á það svo að við pæjurnar fáum kökusneið í dag þegar við komum heim. Í morgun skreið Alma uppí  með afmælisgjöf handa pabba sínum og söng fyrir hann afmælissönginn. Við drifum okkur svo af stað en pabbi gat sofið áfram í klukkustund í viðbót. Ég var í foreldraviðtölum í dag og blessuð  börnin eru auðvitað að mestu leyti alveg frábær svo mér finnst þetta alltaf skemmtilegur dagur. Það er gaman að hitta foreldrana og börnin og ræða skólastarfið. Mest hlakkaði ég þó til í dag að fara í fyrsta foreldraviðtalið hjá Ölmu. Sem  betur fer komst Siggi með og við mættum aðeins fyrr til að fá okkur vöfflu með súkkulaði og þeyttum rjóma. Alma var búin að bíða síðan í morgun með að fá vöfflu eins og allir hinir!!!! Kennarinn hennar hrósaði henni alveg upp í hástert og sagði að hún væri stillt og prúð, dugleg að læra og héldi vel áfram, truflaði ekki aðra og ætti góð samskipti við kennara, starfsfólk og aðra nemendur. Hún fór í teiknikönnun hjá sérkennaranum um daginn (eins og allir hinir) og kom mjög út úr því. Átti auðvelt með að fylgja fyrirmælum og var með góðan hugtakaskilning. Við urðum auðvitað ofsalega stolt af því að eiga svona duglega stelpu.

Annars fékk ég ótrúlega gott tilboð á leiðinni út sem er eiginlega varla hægt að hafna.... ég rakst á Þorgerði og hún bauð mér nudd í kvöld.... held bara að ég skelli mér. Ekki amaleg leið til að enda daginn!!!!! Svo næstu daga verð ég með tvo kennaranema í áheyrn sem fylgjast með mér og fá svo eitthvað að spreyta sig sjálfir. Það er alltaf gaman að fá kennaranema og sérstaklega þegar þeir eru sjálfir að kenna og maður fylgist bara með og hjálpar þeim áfram.


Eiginmaðurinn á afmæli á morgunn!!!

Ég sat við tölvuna áðan og vaknaði upp við vondan draum! Eftir að hafa sagt "andskotinn" upphátt án þess að taka eftir því spurðu vinnufélagar mínir sem voru viðstaddir hvað væri að og ég varð að viðurkenna að ég var NÆSTUM búin að gleyma afmæli bóndans sem er á morgun.....

Nú þarf ég bara að finna einhverja leið til að gleðja þessa elsku en það hefði verið ágætt að muna þetta aðeins fyrr Halo, sérstaklega þar sem maður veit aldrei hvað hann er mikið heima við virka daga. Það er þá alltaf hægt að dekra eitthvað við hann næstu helgi..........Devil


Gott veður og göngutúr

Það er frábært veður á Króknum núna, milt og logn. Við erum á leiðinni í göngutúr fjölskyldan og Alma ætlar að sýna pabba sínum og Elínu hvað hún er flink að hanga í klifurkastalanum í barnaskólanum. Hún hangir þar meira og minna allan daginn og er venjulega með þykkt sygg og jafnvel blæðandi sár í lófunum fyrir vikið. Við ætlum svo að koma við í bakaríinu á eftir og fá okkur eitthvað gott. Njótið helgarinnar......

Dettum bara í það í kreppunni.......

Ef þið hefðuð lagt 100.000 krónur í að kaupa hlutabréf Nortel fyrir
einu ári síðan væri verðmæti bréfanna í dag um 4.900 krónur.

Hefði sama fjárfesting verið lögð í Enron væri sú eign í dag um 1.650 krónur.

Hefðuð þið keypt bréf í World Com fyrir 100.000 krónur væri minna en 500 kall eftir.

Hefði peningurinn hins vegar verið notaður til að kaupa Thule-bjór fyrir einu ári síðan þá hefði verið hægt að drekka hann allan og fara síðan með dósirnar í endurvinnslu og hafa um 21.400 krónur upp úr því.

Þegar ofangreint er athugað virðist vera vænlegur kostur fyrir fjárfesta að drekka stíft og endurvinna!

 


Prjónakaffi í gær

Við erum svo myndarlegar í vinnunni að við ákváðum að stofna "saumaklúbb"!!! Ja eða við köllum það prjónakaffi. Við hittumst hálfsmánaðarlega að kvöldi til í vinnunni og eru leyfð frjáls framlög til veitinga en enginn þarf að koma með eitthvað. Við þurfum því ekki að taka húsið í gegn heima hjá okkur eða standa í bakstri fram á nótt þó við hittum nokkrar konur og eigum notalega kvöldstund saman. Það er skemmtilegt að komast aðeins út og hitta fólk án þess að þurfa að hafa of mikið fyrir því. Við förum bara í búðina og kaupum eitthvað þar en enginn er eitthvað að stressa sig á að hafa flottari, betri og frumlegri rétti en sú síðasta. Svo þarf maður ekki að þrífa áður eða á eftir því við setjum dótið bara í uppþvottavél og hjálpumst að við að ganga frá eftir okkur. Við erum búnar að hittast tvisvar og í annað sinn komu 11 en í gær vorum við 12. Það eru allir mjög hrifnir af þessu framtaki og nokkrir fleiri sem hafa áhuga á að vera með en hafa ekki enn komist. Það er nú eitt sem er gott við að hittast í vinnunni að þar er betra sófapláss en í venjulegum stofum svo allir hafa nægt rými. Það er pottþétt að ég mun halda áfram að mæta..... Go girls.....!!!!

Mamma Mía

Ég fór í bíó í gær sem væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ég hef sjaldan skemmt mér jafn vel í bíó!!!! Ég bauð Ölmu og Elínu á Mamma Mía og fyrir aftan mig sat Sigga Sóley og fjölskylda. Það mátti heyra píkuskrækina í okkur Siggu á svipuðum tímum og maður dillaði sér, raulaði með og gjörsamlega fílaði sig í tætlur. Þetta er "Grease" ungu kynslóðarinnar. Það er pottþétt. Alveg eins og ég og mínar vinkonur gátum horft á þá mynd aftur og aftur þá held ég að nú sé komin myndin sem leysir hana af. Ég ætla pottþétt að kaupa myndina þegar hún verður gefin út og ef þið eruð ekki búin að sjá hana mæli ég með því að þið gerið það sem fyrst. Ekki bara er tónlistin frábær heldur er mikið af sprenghlægilegum atriðum í myndinni og bara það að sjá Pierce Brosnan í þessu hlutverki er ákaflega fyndið eitt og sér!!!! Ég hló a.m.k. mikið og var að glotta með sjálfri mér í allt gærkvöld eftir að ég var komin heim. Allir í bíó............

Snjór í Grænuklauf

Vá hvað það er fallegt veður núna. Maður horfir út um gluggann á hvítu fjöllin og bláan himininn í froststillunni og ég get ekki beðið eftir að sleppa úr vinnunni. Á miðvikudögum hætti ég kl. 14 því ég þarf að skutla Ölmu á söngæfingu kl. 14. Ég samdi því við skólastjórann um að klára vinnuna heima þann daginn. Núna ætla ég að gera það í kvöld en drífa mig þess í stað út í snjóinn með Ölmu að leika okkur. Við ætlum að fara í Grænuklauf sem er flott brekka hér á Króknum og renna okkur. Hún á stýrissleða og ég á rassaþotu. Það er svaka púl að renna sér á þeim og ég þarf því ekki í ræktina í dag!!!

Pétur Pan og snjóævintýri

Um helgina var hálfgert óveður en svoleiðis veður eru í miklu uppáhaldi hjá mér ef ég þarf ekki að vera á ferðinni (eða mínir nánustu). Við höfðum það því notarlegt á föstudaginn og horfðum á snjóinn hlaðast upp. Á laugardaginn var ekkert ferðaveður en þá höfðum við ætlaði í sveitina til tengdó. Við ákváðum því að fara bara út í garð að leika í snjónum og moka aðeins frá húsinu. Þetta er með mesta snjó sem ég hef séð á ævinni og það svona snemma. Snjórinn í garðinum var um meters djúpur svo við klifruðum upp á pallinn og stukkum niður í snjóinn fyrir neðan. Rosa stuð!!!! Fyndnast var að Alma stökk alltaf beint niður svo hún grófst niður með fæturnar og sat svo föst..... he he he he bara fyndið!!!  Þegar búið var að moka frá húsinu þurftum við að taka garðhúsgögnin inn en  það hafði gleymst áður en fór að snjóa og trúið mér þegar ég segi að það er ekki auðvelt að drösla stóru borði úr tré, fjórum stólum, blómapottum og sessukassa úr plasti í gegnum skafla af þessari þykkt!!! Þeir náðu mér í mið læri svo þetta var fín líkamsrækt....... Á sunnudeginum ákváðum við að reyna að komast út á Skaga þrátt fyrir það að Þverárfjall var ennþá sagt ófært. Við vorum svo heppin að lenda á eftir snjóblásaranum hluta af leiðinni þar sem mesti snjórinn var og svo tókum við fram úr honum. Við lentum þarna í samfloti með 2 öðrum bílum sem voru einnig að fara út á Skaga og í eitt skipti þurftum við að moka okkur í gegn um skafl og svo var ein brekka sem reyndist svolítið þung en þetta tókst nú allt saman. Fyrir Elínu skiptinema var þetta heljarins ævintýri því í Finnlandi eru menn ekkert að flækjast þar sem er ekki búið að moka!!! he he he Við fórum svo í að skera niður 2 kindaskrokka og það þótti henni frekar ógeðslegt þó hún hafi staðið sig með prýði í að hjálpa til. Frekar fannst henni þó undarlegt og ógeðslegt að sjá að amma geymdi hausa af 3 lömbum inni í þvottahúsi (hún var að fara að þvo þá áður en þeir yrðu sviðnir!!!!). Það var ógleymanlegur svipur á henni þegar ég sýndi henni ofan í pokann...... he he he he Núna er frystikistan orðin algerlega smekkfull enda voru tilboðsdagar á kjöti hjá Kaupfélaginu á föstudag og við keyptum tvö lambalæri og 6 bóga og nokkrar pakkningar af hakki. Það var einnig tilboð á osti og var hann á næstum 50 % afslætti. Ég keypti því nokkra stóra og setti í frysti. Það er gott að búa í Skagafirði!!!!! W00t Við vorum svo komin heim tímanlega til að fara á leiksýningu um Pétur Pan hjá Leikfélagi Skagafjarðar. Það var mikið af krökkum í sýningunni og flest á unglingastigi. Það háði sýningunni töluvert að þau töluðu hvorki nógu skýrt né nógu hátt svo ég heyrði stundum ekki heilu kaflana. Við sátum aftarlega en 3 samstarfskonur mínar voru á 4. bekk og heyrðu ekki almennilega heldur. Að öðru leyti var sýningin allt í lagi. Ég hlakka samt mikið til að sjá 10. bekk Árskóla setja upp Emil í Kattholti. Það verður örugglega alveg geggjað.

Alma lærir að lesa

Kíkið á  nýja myndbandið þar sem Alma sést lesa í fyrstu lestrarbókinni sinni!!! Rosa dugleg stelpa InLove

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband